Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 325  —  67. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um leiðréttingu verðtryggðra lána vegna fasteigna sem voru seldar nauðungarsölu eða teknar til gjaldþrotaskipta.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir einstaklingar sem áttu fasteignir sem voru seldar nauðungarsölu eða teknar til gjaldþrotaskipta, sbr. svar dómsmálaráðherra á þskj. 1370 á 148. löggjafarþingi, fengu leiðréttingu á lánum sínum á grundvelli laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, hvert ár frá 2008? Hvert var meðaltal og staðalfrávik leiðréttingar hvers árs fyrir sig?

    Við útreikning og ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar samkvæmt lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, var ekki aflað upplýsinga um hvort umsækjendur hefðu verið teknir til gjaldþrotaskipta eða hefðu átt fasteignir sem seldar höfðu verið nauðungarsölu. Þær upplýsingar sem fyrir lágu við útreikninginn og ráðstöfunina voru eingöngu um hvort þau lán sem lögð yrðu til grundvallar útreiknings og þeir frádráttarliðir sem tilgreindir eru í 7 stafliðum í 1. mgr. 8. gr. laganna féllu undir ákvæði laganna. Staða skuldara var ekki sérstaklega könnuð að öðru leyti. Sama átti við um upplýsingar sem lágu fyrir um þær fasteignaveðkröfur og fasteignaveðlán sem uppfylltu skilyrði 11. gr. laganna.
    Samkvæmt framansögðu liggja ekki fyrir heildstæðar upplýsingar, í þeim gagnagrunnum sem lágu til grundvallar leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, um fjárhagslega stöðu þeirra skuldara sem nutu úrræðis um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þegar kom að ráðstöfun inn á lán, hvað þá heldur mögulegar breytingar á seinni tíma högum sömu einstaklinga. Upplýsingar um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti á þeim tíma sem liðinn er frá því úrræðið kom til framkvæmda tengjast ekki framkvæmd úrræðisins eða eftirliti ráðherra með framkvæmd laganna. Þá er vafa undirorpið hvort sú umfangsmikla samkeyrsla persónuupplýsinga sem svar við fyrirspurninni myndi kalla á samrýmist lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.