Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 360  —  307. mál.




Fyrirspurn


til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um kostnað ríkissjóðs við kísilverið á Bakka.

Frá Birgi Þórarinssyni.


     1.      Hver var heildarkostnaður við jarðgöng undir Húsavíkurhöfða ásamt vegtengingum og hver var kostnaður ríkissjóðs af þeim framkvæmdum? Hverjar voru upphaflegar fjárheimildir vegna þessa og hvernig breyttust þær? Hver var upphafleg kostnaðaráætlun og hvernig breyttist hún?
     2.      Liggja fyrir skuldbindandi samningar um að ríkissjóður eða stofnanir ríkisins annist eða taki á sig kostnað við snjómokstur til og frá jarðgöngunum sem og viðhald og rekstur á mannvirkinu og á tengivegum að því? Telur ráðherra eðlilegt að ríkissjóður reki þessi mannvirki og niðurgreiði þar með rekstrarkostnað kísilversins og ef svo er, með hvaða hætti hyggst ráðherra styðja önnur einkafyrirtæki með því að niðurgreiða rekstrarkostnað þeirra?
     3.      Hver var kostnaður ríkissjóðs við lóðaframkvæmdir annars vegar og annan stofnkostnað kísilversins hins vegar? Hverjar voru fjárheimildir vegna þessa?
     4.      Hver er heildarkostnaður ríkissjóðs vegna kísilversins og hvernig skiptist hann á helstu þætti?
     5.      Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs við þjálfun starfsmanna kísilversins og hverjar voru fjárheimildir vegna þess?
     6.      Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs af stækkun hafnarmannvirkja vegna uppbyggingar á kísilverinu annars vegar og annarrar uppbyggingar stóriðju á svæðinu hins vegar?
     7.      Hvað fékk hafnarsjóður Húsavíkurhafnar há víkjandi lán vegna hafnarframkvæmda og er gert ráð fyrir að hann endurgreiði ríkissjóði þau lán? Dugir arðsemi hafnarinnar til að endurgreiða öll lán sem tekin voru vegna stækkunar hennar? Hvað fær kísilverið mikinn afslátt af hafnargjöldum og af þjónustugjöldum hafnarinnar?
     8.      Hefur verið samið um fleiri framkvæmdir fyrir fyrirtækið eða liggja fyrir beiðnir um verkefni sem forsvarsmenn fyrirtækisins eða aðrir hafa óskað eftir að ríkissjóður fjármagni vegna starfsemi þess?


Skriflegt svar óskast.