Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 414  —  198. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um fulltrúa af landsbyggðinni í stjórnum, nefndum og ráðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig er skipulagi og stuðningi háttað við einstaklinga sem hafa verið tilnefndir af þingmönnum og skipaðir í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins og búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins? Hvernig er farið með kostnað við flug, akstur, gistingu og mat og annan kostnað sem hlýst af fundafyrirkomulaginu? Væri mögulegt að viðhafa þá reglu að tímasetja fundi þannig að fulltrúar af landsbyggðinni gætu nýtt sér innanlandsflug samdægurs?

    Af orðalagi fyrirspurnarinnar verður ráðið að einungis sé spurt um stuðning við einstaklinga sem tilnefndir hafa verið af alþingismönnum og skipaðir í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins og búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins. Með framangreindu orðalagi virðist eingöngu átt við einstaklinga sem ekki eru alþingismenn og skipaðir eru samkvæmt tilnefningu alþingismanna, þ.e. af Alþingi eða eftir atvikum af þingflokkum á Alþingi. Af hálfu ráðuneytisins er almennt unnið samkvæmt þeirri meginreglu að ef einstaklingur tekur sæti í stjórn, nefnd eða ráði samkvæmt tilnefningu hagsmunaaðila eða annarra stjórnvalda þá beri viðkomandi hagsmunaaðili eða stjórnvald kostnað vegna starfa hans. Slíkt mundi þó að jafnaði ekki eiga við um einstaklinga sem tilnefndir eru af Alþingi, þingflokkum á Alþingi eða alþingismönnum enda er Alþingi ekki stjórnvald eða eiginlegur hagsmunaaðili í hefðbundinni merkingu þess orðs. Ráðuneytið mundi því greiða útlagðan kostnað slíkra einstaklinga sem taka sæti í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum þess, og þá að jafnaði samkvæmt framlögðum reikningum.
    Ákvörðun um fundartíma stjórna, nefnda og ráða er að jafnaði í höndum formanns viðkomandi stjórnar, nefndar eða ráðs, í samráði við aðra meðlimi, og ber þeim að gæta að hagkvæmni við þá ákvörðun.