Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 481  —  208. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um byrlun ólyfjanar.


     1.      Hversu margar kærur hafa borist lögreglu frá árinu 2007 vegna afbrota þar sem einstaklingur telur að sér hafi verið byrluð ólyfjan sem dregur úr meðvitund hans, sjálfstjórn eða getu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Við vinnslu á svari þessu var óskað eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkissaksóknara.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara getur sú háttsemi að byrla einhverjum ólyfjan með þeim afleiðingum sem lýst er í fyrirspurninni varðað refsingu samkvæmt ýmsum ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Slík háttsemi getur m.a. fallið undir ákvæði 217. og 218. gr. um líkamsárás og 1. mgr. 220. gr. Þá getur þessi háttsemi verið verknaðaraðferð í brotum skv. 1. og 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 225. gr.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra er erfitt að finna staðfesta tölfræði um þær kærur sem borist hafa lögreglu þar sem byrlun er ekki skráð í málaskrárkerfi lögreglu sem sérstakt frumbrot og varðar ekki aðeins við eitt ákvæði almennra hegningarlaga eins og áður greinir. Þá er ekki hægt að tryggja að skráning sé með sama hætti í öllum tilvikum. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vann eftirfarandi samantekt úr kerfum lögreglu á fjölda tilvika þar sem lögregla bókar mögulega byrlun í mál en tölfræðin var fengin með þeirri aðferð að leita að orðinu „byrlun“ í einhverri mynd í bókunarglugga mála í málaskrá. Því er ekki um að ræða staðfesta tölfræði.

Tafla. Fjöldi mála þar sem orðið byrlun var bókað í mál árin 2007–2017.
2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017
16 17 21 25 23 32 38 70 63 51 78

    Eins og fram kemur í töflunni hefur bókunum þar sem orðið „byrlun“ kemur fyrir fjölgað á tímabilinu og það sem af er yfirstandandi ári eru málin orðin 71 talsins. Hafa ber ríkan fyrirvara á þessum tölum. Í fyrsta lagi er alls ekki alltaf um brot að ræða, heldur er leitað til lögreglu vegna gruns um byrlun án þess að annað brot hafi átt sér stað. Þessi tilvik eru því ekki staðfest og í raun ekki hægt, með einföldum hætti, að nálgast upplýsingar úr kerfum lögreglu um fjölda tilvika þar sem sýni var tekið til að rannsaka mögulega byrlun og hver niðurstaða þeirrar greiningar var. Þá er ekki ljóst hvað veldur fjölgun tilvika á tímabilinu en líklega er um að ræða vitundarvakningu frekar en raunfjölgun tilvika.

     2.      Hvernig telur ráðherra rétt að lögregluyfirvöld bregðist við tilkynningum þar sem grunur er um slíkan verknað? Liggja fyrir verklagsreglur um meðferð og skráningu slíkra mála?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra liggja ekki fyrir verklagsreglur um meðferð og skráningu mála þar sem grunur leikur á að um byrlun hafi verið að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu liggja fyrir drög að slíku verklagi, þar sem áhersla er lögð á að bæta skráningu þessara tilvika, en það hefur ekki verið innleitt hjá embættinu. Ráðherra treystir lögregluyfirvöldum til að halda utan um skráningar brota og bregðast við tilkynningum í samræmi við lög og reglur.

     3.      Telur ráðherra að kveða þurfi skýrt á um það í almennum hegningarlögum að það sé refsivert brot að byrla einstaklingum ólyfjan? Ef svo er, hyggst ráðherra hefja vinnu við frumvarp til breytingar á lögum hvað það varðar?
    Sú háttsemi að byrla einhverjum ólyfjan með þeim afleiðingum sem lýst er í svari við 1. tölul. getur eins og áður sagði varðað refsingu samkvæmt ýmsum ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga, m.a. ákvæðum 217. gr. og 218. gr. um líkamsárás og 1. mgr. 220. gr. Þá getur þessi háttsemi verið verknaðaraðferð í brotum skv. 1. og 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 225. gr.
    Það er mat ráðherra að ákvæði almennra hegningarlaga séu fullnægjandi að því er snertir þá háttsemi að byrla einhverjum ólyfjan. Það er einnig mat ríkissaksóknara samkvæmt upplýsingum frá embættinu.