Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 542  —  247. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um þýðingu á íslenskum lögum og reglugerðum.


     1.      Hafa íslensk lög og reglugerðir verið þýdd á vegum ráðuneytisins og undirstofnana þess? Ef svo er, er óskað eftir að fram komi á hvaða tungumál var þýtt, hvenær þýðing var birt og hvenær þýðing var síðast uppfærð.
    Samkvæmt upplýsingum umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa eftirtalin lög og reglugerðir sem falla undir málefnasvið þess verið þýdd yfir á ensku. Ekki liggur fyrir í öllum tilvikum hvenær þýðing viðkomandi laga eða reglugerða var birt og er þá ekki getið um ártal birtingar:
     1.      Lög um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, nr. 85/2005, með breytingalögum nr. 58/2006. Birt á vef Stjórnarráðsins í mars 2006. Síðari breytingar á lögunum hafa ekki verið þýddar.
     2.      Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með breytingalögum nr. 74/2005. Birt á vef Stjórnarráðsins í maí 2016. Síðari breytingar á lögunum hafa ekki verið þýddar.
     3.      Lög um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, með síðari breytingum. Birt á vef Stjórnarráðsins í nóvember 2018.
     4.      Lög um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni Norðurslóða, nr. 81/1997, með síðari breytingum. Birt á vef Stjórnarráðsins í júní 2017. Lögin eru einnig birt á vef Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
     5.      Lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með breytingalögum nr. 93/1996, 83/1997, 169/1998, 92/2002 og 164/2002. Birt á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands og er tengill á lögin á vef Stjórnarráðsins. Síðari breytingar á lögunum hafa ekki verið þýddar.
     6.      Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997. Birt á vef Veðurstofu Íslands og er tengill á lögin á vef Stjórnarráðsins. Síðari breytingar á lögunum hafa ekki verið þýddar.
     7.      Lög um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, með síðari breytingum. Birt á vef Landmælinga Íslands og er tengill á lögin á vef Stjórnarráðsins.
     8.      Lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, nr. 44/2011. Birt á vef Landmælinga Íslands og er tengill á lögin á vef Stjórnarráðsins. Síðari breytingar á lögunum hafa ekki verið þýddar.
     9.      Lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, með síðari breytingum. Birt á vef þjóðgarðsins á Þingvöllum og er tengill á lögin á vef Stjórnarráðsins.
     10.      Reglugerð nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð, með síðari breytingum. Birt á vef Stjórnarráðsins í nóvember 2018.
     11.      Reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats. Birt á vef Veðurstofu Íslands og er tengill á reglugerðina á vef Stjórnarráðsins. Síðari breytingar hafa ekki verið þýddar.
     12.      Reglugerð nr. 848/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð. Birt á vef þjóðgarðsins á Þingvöllum og er tengill á reglugerðina á vef Stjórnarráðsins.
    Þá er rétt að geta þess að skipulagslög, nr. 123/2010, lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006, lög um mannvirki, nr. 160/2010, og lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, eru í þýðingu yfir á ensku og verða birt á vef Stjórnarráðsins þegar þýðingu lýkur.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað stefnu eða hyggjast marka stefnu um þýðingar, m.a. í ljósi þeirrar öru fjölgunar sem hefur orðið á fólki sem býr og starfar á Íslandi en hefur íslensku ekki að móðurmáli?
    Nokkuð hlé varð á þýðingum laga og reglugerða hjá ráðuneytinu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 en á síðasta ári var tekin ákvörðun um að gera átak í þýðingum á helstu lagabálkum ráðuneytisins. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar eru skipulagslög, nr. 123/2010, lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, lög nr. 160/2010, um mannvirki og lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, í þýðingu yfir á ensku og verða birt á vef Stjórnarráðsins þegar þýðingu lýkur. Áætlað er að fleiri lög og reglugerðir á málefnasviði ráðuneytisins verði þýdd á næstu misserum þegar tekin hefur verið ákvörðun um forgangsröðun þeirra.
    Í tilefni af fyrirspurn þessari vill ráðuneytið benda á að mikilvægt sé að Alþingi taki til skoðunar hvort þingið eigi að marka sér stefnu um þýðingar á lögum.