Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 582  —  185. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar (dvalarrými og dagdvöl).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Þorvaldsdóttur og Elsu Friðfinnsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Tryggva Þórhallsson og Sigrúnu Þórarinsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Sigurjón Sverrisson frá Öryrkjabandalagi Íslands og Þórunni Bjarneyju Garðarsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.
    Umsagnir bárust frá Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, Öldrunarfræðafélagi Íslands, Öldrunarráði Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.
    Eins og nánar er rakið í greinargerð frumvarpsins er markmið þess að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri, og forgangsraða eftir þörf. Samkvæmt gildandi ákvæðum eru úrræðin dagdvöl og dvalarrými einungis ætluð öldruðum. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að samþykkja dvöl í dvalarrými og dagdvöl fyrir þá sem yngri eru en 67 ára ef þörf krefur og viðkomandi einstaklingur óskar þess.
    Í umsögnum til nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið og gagnrýni á einstaka þætti frumvarpsins. Ber þar helst að nefna áhyggjur af því að sú stefna sem mörkuð er með frumvarpinu sé ekki í samræmi við alþjóðlega þróun í velferðarmálum og þá stefnu sem mörkuð er í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nánar tiltekið kom fram sú afstaða að með frumvarpinu væri verið að auka stofnanavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þá var bent á að munur væri á þörfum einstaklinga, áhugamálum þeirra og væntingum um lífsgæði, eftir aldri. Þarfir þessara hópa væru ef til vill aðrar en dvalarheimili gætu sinnt.
    Meiri hlutinn áréttar nauðsyn þess að þjónusta sé veitt á því þjónustustigi sem hentar best þörfum einstaklingsins og í fullu samráði við hann sjálfan. Að mati meiri hlutans er frumvarpið í samræmi við þá nauðsyn. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er ekki lagt til að dvalarrými og dagdvöl verði almenn úrræði fyrir einstaklinga sem eru undir 67 ára. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við takmarkaðan hóp fólks sem hefur þörf fyrir þá þjónustu sem þegar er veitt í dagdvöl eða í dvalarrýmum þegar gengið hefur verið úr skugga um að önnur úrræði, svo sem samningur um notendastýrða persónulega aðstoð, svara ekki þjónustuþörfum þess. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að enginn skuli vistaður í dvalarrými eða dagdvöl án þess að viðkomandi hafi sótt um slíka vist sjálfur. Með frumvarpinu eru dvalarstofnanir opnaðar þeim sem vilja og geta nýtt sér þjónustu þeirra. Að mati meiri hlutans er ekki líklegt að aukinn kostnaður falli á dvalarstofnanir með samþykkt frumvarpsins þar sem einungis er verið að opna fyrir að fleiri geti sótt um þá þjónustu sem þegar er veitt á stofnunum. Þá telur meiri hlutinn það ekki til marks um neikvæða stofnanavæðingu að bjóða stærri hópi fólks stofnanaþjónustu sem þegar er fyrir hendi.
    Meiri hlutinn bendir þó á að við þjónustu við mismunandi hópa og einstaklinga á mismunandi aldri er líklegt að taka þurfi tillit til sérstakra þarfa, einkum þegar um yngsta hópinn er að ræða, nánar tiltekið þá einstaklinga sem eru yngri en 60 ára. Hvort heldur er um að ræða einstaklinga með heilabilun á tiltölulega ungum aldri eða ekki getur þurft t.d. að taka tillit til fjölskylduaðstæðna, kynslóðamunar, sérstakra þarfa fyrir afþreyingu, samskipti við börn o.fl. Af þessu getur í einhverjum tilfellum hlotist kostnaður og mikilvægt að ráðuneytið, í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands, fylgist með slíkum aðstæðum og bregðist við eftir þörfum.
    Þá fjallaði nefndin um mat faglegs inntökuteymis og skilyrði við mat á þörf fyrir dagdvöl. Að áliti meiri hlutans er ekki þörf á að setja upp svipað inntökuferli og þegar sótt er um varanlega búsetu á hjúkrunar- eða dvalarheimili, enda er aðeins um að ræða dagþjónustu sem í sumum tilvikum er ekki umfangsmikil fyrir viðkomandi einstakling. Við inntöku einstaklings í dagdvöl gæti mat læknis eða hjúkrunarfræðings, og sjúkraþjálfara eða félagsráðgjafa dugað til. Í einfaldari tilvikum gæti mat eins þessara aðila dugað til. Meiri hlutinn telur mikilvægt að með reglugerð settri skv. 3. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins verði sérstaklega tryggt að vinna inntökuteymis sé skilvirk og framkvæmd matsins einföld fyrir einstaklinga sem sækja um þjónustu í dagdvöl. Þá er einnig mikilvægt að við setningu reglugerðar verði sérstaklega hugað að því hvort rétt væri að skilgreina tvær, eða fleiri, mismunandi aðferðir við mat faglega inntökuteymisins. Aðstæður einstaklinga og ástæður þess að þeir óska eftir þjónustu í dagdvöl eru mismunandi. Leggja þarf áherslu á að mat faglegs inntökuteymis taki mið af því hvort einstaklingur sækist eftir dagdvöl vegna heilabilunar, vegna félagslegra aðstæðna eða annarra sérþarfa.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum komu fram áhyggjur af því að með aukinni þjónustu og aukinni áherslu á heilbrigðisþjónustu í tengslum við dagdvöl gæti kostnaður aukist og væntingar notenda og aðstandenda þeirra. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þrátt fyrir að hluti þjónustu dagdvalar sé veittur af heilbrigðisstarfsfólki (oft sérhæfðu í þjónustu við minnisskerta einstaklinga) sé þjónusta dagdvalar að grunni til ekki heilbrigðisþjónusta. Í þeim tilvikum þegar auka þarf við slíka þjónustu telur meiri hlutinn mikilvægt að gert sé ráð fyrir slíku í samningum við Sjúkratryggingar Íslands og gert sérstaklega ráð fyrir því við kostnaðargreiningu.
    Fyrir nefndinni komu fram þær áhyggjur að mikill munur væri á kostnaðarmati þjónustuaðila og ríkisins, og kröfulýsing ríkisins á þjónustu ekki að fullu í samræmi við það verð sem vilji væri til að greiða fyrir þjónustuna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að hér er um samninga milli aðila að ræða (í þessu tilfelli Sjúkratrygginga Íslands og þjónustuaðila). Meiri hlutinn leggur áherslu á að við slíka samningsgerð sé stuðst við bestu upplýsingar og að brugðist sé við óhjákvæmilegum breytingum sem kunna að verða á þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem um ræðir.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 3. desember 2018.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Andrés Ingi Jónsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.