Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 836  —  163. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hverjir voru kaupendur fullnustueigna Íbúðalánasjóðs 2008–2017? Upplýsingar óskast annars vegar um einstaklinga og hins vegar um fyrirtæki og eignarhald.

    Fyrir liggur fyrirspurn þingmanns til félags- og barnamálaráðherra um það hverjir væru kaupendur fullnustueigna Íbúðalánasjóðs árin 2008–2017. Óskað var upplýsinga um bæði einstaklinga og fyrirtæki. Um er að ræða töluvert magn af persónugreinanlegum upplýsingum og í ljósi þessa leitaði félagsmálaráðuneytið álits Persónuverndar vegna vinnslu persónuupplýsinga. Í beiðninni var óskað álits stofnunarinnar á heimild ráðherra til að afhenda umbeðnar upplýsingar. Í svari Persónuverndar kom fram að í ljósi 1. mgr. 50. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, hefði ráðherra rúmar heimildir til þess að afhenda upplýsingarnar en áréttað var að við vinnslu persónuupplýsinga bæri ávallt að fara að grunnreglum persónuverndarlaga þannig að við vinnslu upplýsinganna skyldi þess gætt að þær væru unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, að þær væru fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og að þær væru nægjanlegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt væri miðað við tilgang vinnslunnar. Fyrir liggur því að ráðherra er heimilt að afhenda þinginu umbeðnar upplýsingar.
    Hins vegar felur slík afhending í sér birtingu á vef þingsins sem telst opinber birting, birting fyrir almenningi, en afstaða Persónuverndar var sú að slík birting væri atriði sem þingið þyrfti að taka afstöðu til. Alþingi hefur hins vegar ekki viljað taka afstöðu til opinberrar birtingar umræddra upplýsinga og vísar til þeirrar vinnureglu sinnar að svör við fyrirspurnum til ráðherra séu birtar á vef þingsins og það geti ekki tekið afstöðu til þess hvaða upplýsingar séu birtar á vef þess eða tekið ábyrgð á slíkri birtingu. Óskaði því félagsmálaráðuneytið eftir ítarlegra áliti Persónuverndar í ljósi þessa, þ.e. hvort ráðherra væri heimilt að afhenda þinginu umbeðnar upplýsingar þar eð slík afhending leiddi sjálfkrafa til opinberrar birtingar þeirra.
    Í svari Persónuverndar við þeirri fyrirspurn ráðuneytisins kom fram að afhending persónuupplýsinga frá ráðherra til Alþingis og birting upplýsinganna á vef Alþingis teljist tvær aðskildar vinnsluaðgerðir í skilningi persónuverndarlaga. Í samræmi við 6. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, væri félagsmálaráðuneytið ábyrgðaraðili afhendingar upplýsinganna til Alþingis en Alþingi ábyrgðaraðili birtingarinnar. Persónuvernd myndi þurfa að veita sérstakt álit til Alþingis um opinbera birtingu upplýsinganna, óskaði þingið þess. Ekki liggur því fyrir álit stofnunarinnar um opinbera birtingu upplýsinganna, en fyrir liggur að afhendi ráðherra upplýsingarnar muni Alþingi birta þær opinberlega án tafar.
    Í þessari lagalegu óvissu um heimild til opinberrar birtingar þessa magns persónuupplýsinga sér félagsmálaráðuneytið sér ekki fært að afhenda Alþingi umbeðnar upplýsingar til opinberrar birtingar. Hins vegar liggur skýrt fyrir að ekkert er því til fyrirstöðu af hálfu ráðuneytisins að Alþingi séu afhentar upplýsingarnar verði þess óskað. Hvetur ráðuneytið til þess að málið verði tekið upp í viðeigandi nefndum þingsins og Íbúðalánasjóður kallaður til fundar, standi vilji til þess.
    Þá að lokum vill ráðuneytið upplýsa Alþingi um þá stöðu málsins að félags- og barnamálaráðherra hefur beint þeim tilmælum til Íbúðalánasjóðs að umræddar upplýsingar verði birtar opinberlega á vef sjóðsins, en sjóðurinn afli þá álits Persónuverndar á þeirri birtingu sem birtingaraðili upplýsinganna. Ráðuneytinu er kunnugt um að sjóðurinn hafi þegar sent Persónuvernd erindi þar sem álitsins er óskað og standa væntingar til þess að niðurstaða komist í það mál sem allra fyrst og mögulegt verði að ljúka máli þessu á farsælan hátt.