Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 875  —  307. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um kostnað ríkissjóðs við kísilverið á Bakka.


     1.      Hver var heildarkostnaður við jarðgöng undir Húsavíkurhöfða ásamt vegtengingum og hver var kostnaður ríkissjóðs af þeim framkvæmdum? Hverjar voru upphaflegar fjárheimildir vegna þessa og hvernig breyttust þær? Hver var upphafleg kostnaðaráætlun og hvernig breyttist hún?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni frá 5. desember 2018 er áætlaður heildarkostnaður við jarðgöng undir Húsavíkurhöfða ásamt vegtengingum 3.525 millj. kr. með verðbótum, sem er jafnframt heildarkostnaður ríkissjóðs.
    Samkvæmt lögum nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, var gert ráð fyrir að kostnaðurinn yrði allt að 1.800 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2012.
    Þegar hönnun lá fyrir var kostnaður endurmetinn og áætlaður samtals 3.000 millj. kr. Fjárveiting til Vegagerðarinnar vegna verkefnisins var veitt í fjárlögum fyrir árin 2015, 2016 og 2017. Alþingi afgreiddi einnig þessa tilhögun og fjárveitingar í samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018.

     2.      Liggja fyrir skuldbindandi samningar um að ríkissjóður eða stofnanir ríkisins annist eða taki á sig kostnað við snjómokstur til og frá jarðgöngunum sem og viðhald og rekstur á mannvirkinu og á tengivegum að því? Telur ráðherra eðlilegt að ríkissjóður reki þessi mannvirki og niðurgreiði þar með rekstrarkostnað kísilversins og ef svo er, með hvaða hætti hyggst ráðherra styðja önnur einkafyrirtæki með því að niðurgreiða rekstrarkostnað þeirra?

    Ríkið er eigandi umræddrar vegtengingar og ber ábyrgð á veghaldinu. Eins og fram kemur í greinargerð með lögum nr. 41/2013 er umrædd vegtenging á milli Húsavíkurhafnar og nýs iðnaðarsvæðis á Bakka. Vegtengingin mun nýtast með almennum hætti hverju því fyrirtæki sem hefur starfsemi á iðnaðarsvæðinu.

     3.      Hver var kostnaður ríkissjóðs við lóðaframkvæmdir annars vegar og annan stofnkostnað kísilversins hins vegar? Hverjar voru fjárheimildir vegna þessa?
    
Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2014 var áætlað að ríkissjóður tæki þátt í kostnaði við framkvæmdir við undirbúning lóðar undir kísilverið allt að 558 millj. kr. sem skiptist jafnt á árin 2014 og 2015. Framkvæmdum var frestað og því færðist fjárveitingin til áranna 2015 og 2016. Fullnaðaruppgjör vegna lóðarframkvæmda hefur farið fram og námu greiðslur alls 460 millj. kr.

     4.      Hver er heildarkostnaður ríkissjóðs vegna kísilversins og hvernig skiptist hann á helstu þætti?
    Bein framlög vegna kísilversins námu 236 millj. kr. vegna þjálfunarkostnaðar starfsmanna og 460 millj. kr. til lóðarframkvæmda. Fyrirtækið skilar inn framvinduskýrslu á hverju ári til ráðuneytisins þar sem veittar skattalegar ívilnanir koma fram. Skattalegar ívilnanir samkvæmt fjárfestingarsamningi hafa ekki enn fallið til. Næsta skýrsla mun berast ráðuneytinu um mitt ár 2019.

     5.      Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs við þjálfun starfsmanna kísilversins og hverjar voru fjárheimildir vegna þess?
    Eins og kemur fram í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar er heildarframlag ríkissjóðs í þjálfunaraðstoð 236 millj. kr. sem skiptist þannig að 131 millj. kr. var greidd árið 2017 og 105 millj. kr. árið 2018, með sérstakri heimild í fjárlögum 2017 og 2018. Um fullnaðaruppgjör er að ræða.

     6.      Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs af stækkun hafnarmannvirkja vegna uppbyggingar á kísilverinu annars vegar og annarrar uppbyggingar stóriðju á svæðinu hins vegar?
     7.      Hvað fékk hafnarsjóður Húsavíkurhafnar há víkjandi lán vegna hafnarframkvæmda og er gert ráð fyrir að hann endurgreiði ríkissjóði þau lán? Dugir arðsemi hafnarinnar til að endurgreiða öll lán sem tekin voru vegna stækkunar hennar? Hvað fær kísilverið mikinn afslátt af hafnargjöldum og af þjónustugjöldum hafnarinnar?
    Hafnarsjóður fékk 819 millj. kr. víkjandi lán frá ríkissjóði með heimild í lögum nr. 41/2013. Í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 var greiðslum skipt þannig að lánaðar voru 238 millj. kr. árið 2015, 233 millj. kr. árið 2016 og 348 millj. kr. árið 2017. Ráðgert er að lánið verði endurgreitt en víkjandi lán eru þess eðlis að þau endurgreiðast ekki fyrr en önnur lán hafa verið greidd.
    Ekki liggur fyrir hvort arðsemi hafnarinnar muni duga til að endurgreiða öll lán sem tekin voru vegna stækkunar hennar. Samkvæmt 9. gr. fjárfestingarsamningsins á milli íslenska ríkisins og fyrirtækisins greiðir félagið 40% lægri hafnargjöld í 14 ár frá undirritun fjárfestingarsamningsins en það sem segir í gjaldskrá Hafnarsjóðs Norðurþings.

     8.      Hefur verið samið um fleiri framkvæmdir fyrir fyrirtækið eða liggja fyrir beiðnir um verkefni sem forsvarsmenn fyrirtækisins eða aðrir hafa óskað eftir að ríkissjóður fjármagni vegna starfsemi þess?
    Nei.