Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 882  —  422. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um kærur og málsmeðferðartíma.


     1.      Hversu margar kærur bárust eftirtöldum á hverju ári frá árinu 2013:
                  a.      úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála,

    Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 sem tóku gildi 1. janúar 2012. Úrskurðarnefndin tók á þeim tíma sem hún hóf störf við þeim málum sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefnd hollustuhátta og mengunarvarna sinntu og voru þessar tvær nefndir lagðar niður. Við þetta tímamark var ólokið 125 kærumálum sem áður höfðu borist úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Á árinu 2012 bárust nýrri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála alls 133 kærur. Í meðfylgjandi töflu er gerð grein fyrir fjölda stjórnsýslukæra sem bárust nefndinni árin 2013 til 2018. Fyrir árið 2018 er miðað við kærufjölda til og með 14. desember 2018.
2013 2014 2015 2016 2017 2018
Kærufjöldi 114 128 118 175 158 143

                  b.      úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998,
    Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, var lögð niður í ársbyrjun 2012 við gildistöku laga nr. 131/2011, um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins.

                  c.      umhverfis- og auðlindaráðuneyti?
    Í meðfylgjandi töflu er gerð grein fyrir fjölda stjórnsýslukæra sem bárust umhverfis- og auðlindaráðuneytinu árin 2013 til og með árinu 2018.
2013 2014 2015 2016 2017 2018
Kærufjöldi 3 5 5 7 7 8

     2.      Hver var meðalafgreiðslutími á hverju ári? Hver var stysti tími sem tekið hefur að afgreiða kæru og hver var lengsti tími á hverju ári?
    Í 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, segir að nefndin kveði upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 5. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið. Málsmeðferðartími er því ekki reiknaður frá því að kæra barst heldur frá því þegar gögn bárust frá stjórnvaldi. Í 5. mgr. 4. gr. laganna segir að stjórnvaldi sé skylt að láta nefndinni í té öll gögn málsins og getur nefndin veitt til þess 30 daga frest og í viðamiklum málum 15 daga viðbótarfrest. Virði stjórnvald ekki frestina hefur úrskurðarnefndin engin úrræði önnur en að ítreka að gögn þurfi að berast nefndinni. Þegar gögn berast of seint reiknast málshraði frá þeim tíma þegar fresti til gagnaskila lauk.
    Stysti tími við að afgreiða kæru er 0 dagar. Það eru þá tilfelli þar sem kæra er afturkölluð áður en gögn berast frá stjórnvaldinu innan tilskilins tíma, eða það blasir við að kæra á heima hjá öðru stjórnvaldi en úrskurðarnefndinni og er þá framsent samdægurs á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Í eftirfarandi töflu er afgreiðslutími gefinn upp í dögum og er eingöngu um að ræða mál sem kærð voru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá stofnun nefndarinnar 1. janúar 2012.
2013 2014 2015 2016 2017 2018
Meðalafgreiðslutími hjá úrskurðar-nefnd umhverfis- og auðlindamála 213 302 364 285 276 320
Stysti tími 9 0 0 0 0 0
Lengsti tími 632 893 1.337 1.427 966 815

    Það athugast að á árinu 2013 voru einnig afgreidd mál úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
    Á árinu 2015 tóku gildi lög nr. 139/2014, um breytingu á lögum nr. 13/2011, sem veittu úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála óskoraða heimild til að ljúka öllum óafgreiddum málum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og var þeim öllum lokið á árinu, því elsta frá árinu 2008. Vegna þessa lengdist afgreiðslutími mála á árinu 2015.
    Vegna átaks í eldri kærumálum á árinu 2015 voru mál kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í bið að hluta til á árinu 2016 en tafir þess máls sem hafði lengstan málsmeðferðartíma skýrðust öðrum þræði af því að kærandi hafði boðað frekari gögn og röksemdir sem ekki bárust fyrr en eftir ítrekanir af hálfu nefndarinnar auk þess sem viðkomandi íhugaði um tíma að afturkalla mál sitt.
    Á árinu 2017 voru kveðnir upp úrskurðir hjá úrskurðarnefndinni í kærumálum vegna Suðurnesjalínu 2, þar á meðal í því máli sem tilgreint er í töflu með lengstan afgreiðslutíma. Þessum málum hafði verið frestað ótímabundið á meðan beðið var eftir niðurstöðum dómsmála og var kærumálunum lokið stuttu eftir að dómsniðurstöður lágu fyrir.
    Meðalmálshraði lengdist nokkuð á árinu 2018 og munar þar mestu um afgreiðslu mála sem kærð höfðu verið á árinu 2016, en eins og fram hefur komið bárust úrskurðarnefndinni þá langflestar kærur. Úrskurðarnefndin var styrkt varanlega á árinu 2018 með auknum stöðugildum og fór meðalafgreiðslutími síðasta ársfjórðungs ársins 2018 þá niður í það sama og á árinu 2017. Bæði varanlegu og tímabundnu fjármagni hefur einnig verið bætt við nefndina á árinu 2019 auk þess sem ráðuneytið fylgist stöðugt með málshraða og fjölda kærumála hjá nefndinni.
2013 2014 2015 2016 2017 2018
Meðalafgreiðslutími hjá umhverfis-
og auðlindaráðuneyti
44 90 154 216 150 2
Stysti tími 20 1 5 18 7 2
Lengsti tími 88 235 372 491 450 2

     3.      Hversu margar kærur voru óafgreiddar hjá hverjum úrskurðaraðila 1. nóvember sl.?
    Hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála voru 131 stjórnsýslukæra óafgreidd 1. nóvember 2018. Um var að ræða 42 kærur frá árinu 2017 og 89 frá árinu 2018. Frekari upplýsingar um stöðu mála er að finna á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar, www.uua.is.
    Hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu voru 8 stjórnsýslukærur óafgreiddar 1. nóvember 2018. Um var að ræða kærur sem bárust ráðuneytinu á árinu 2018 að undanskildri einni kæru sem barst á árinu 2017. Staðan var óbreytt í ársbyrjun 2019.