Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 899  —  374. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um bálfarir og kirkjugarða.


     1.      Hversu hátt hefur hlutfall bálfara verið árlega af öllum útförum undanfarin fimm ár?
    Ráðuneytið aflaði upplýsinga frá Kirkjugarðaráði og Kirkjugarðasambandi Íslands vegna fyrirspurnarinnar og eru þau svör sem ráðuneytinu bárust sundurliðuð í eftirfarandi töflu.

Fjöldi bálfara og hlutfall þeirra af útförum undanfarin fimm ár.

Ár Bálfarir Látnir % af látnum
2013 616 2154 28,60
2014 568 2057 27,61
2015 629 2116 29,73
2016 718 2309 31,10
2017 790 2240 35,27

     2.      Hversu margar umsóknir hafa borist árlega um dreifingu ösku utan kirkjugarða undanfarin fimm ár? Hversu mörgum þeirra hefur verið synjað?
    Ráðuneytið aflaði m.a. upplýsinga frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra vegna fyrirspurnarinnar en embættið hefur tekið við umsóknum um öskudreifingu og annast veitingu leyfanna frá 1. febrúar 2014.

Fjöldi umsókna um öskudreifingu.

Ár Fjöldi umsókna Synjað
2013 18 2
2014 21 0
2015 13 0
2016 32 0
2017 36 0
2018* 38 0
*til 27. nóv. 2018

    Af framangreindum umsóknum voru 53 frá erlendum ríkisborgurum sem ekki eru búsettir á Íslandi og bárust 32 þeirra á árunum 2017 og 2018. Ein umsókn var dregin til baka og er hún ekki meðtalin. Ef umsókn uppfyllir ekki skilyrði laganna um hvar heimilt er að dreifa ösku er það verklag viðhaft að haft er samband við umsækjanda og honum bent á að tilgreina annan stað til öskudreifingar en óskað var eftir í upphafi.

     3.      Hvaða skilgreiningu á öræfum og óbyggðum er stuðst við þegar leyfi er veitt fyrir því að dreifa ösku, sbr. lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, og reglugerð um dreifingu ösku utan kirkjugarðs, nr. 203/2003?
    Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, sbr. lög nr. 32/2002, um breytingu á þeim lögum, getur ráðherra samkvæmt nánari reglum heimilað að ösku látins manns verði dreift yfir öræfi eða sjó. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 32/2002 kemur fram að gert sé ráð fyrir því að þeim sem óskar öskudreifingar verði gert ljóst þegar beiðni er lögð fram að ekki sé heimilt að dreifa ösku yfir byggð eða væntanlega byggð, heldur aðeins yfir haf og óbyggðir. Er tekið sem dæmi að almennt ætti ekki að vera fyrirstaða fyrir því að heimila að ösku verði dreift yfir opið haf, firði og flóa svo og óbyggðir, en til stendur að setja leiðbeiningareglur, m.a. um staðarval. Í reglugerð um dreifingu ösku utan kirkjugarðs, nr. 203/2003, segir í 4. gr. að með því að heimila að dreifa ösku yfir haf og óbyggðir sé verið að koma í veg fyrir að ösku látinna manna sé dreift yfir byggð, væntanlega byggð eða stöðuvötn. Nánari skýringu á hugtökunum öræfi og óbyggðir er ekki að finna í lögum eða reglugerð um öskudreifingu en stuðst er við almenna málvenju. Orðin hafa svipaða merkingu og orðið öræfi vísar m.a. til auðnar og óbyggðs lands. Samkvæmt upplýsingum frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra, sem nú fer með málaflokkinn, er almennt lögð sú skýring í hugtökin öræfi og óbyggðir að átt sé við staði sem alla jafna eru vel utan alfaraleiða og ekki á landi í einkaeign, nema sérstakt leyfi liggi fyrir því. Þá hefur verið litið svo á að fjalllendi í víðtækri skilgreiningu uppfylli skilyrðin, en þó ekki ef um er að ræða vinsælar gönguleiðir. Hver umsókn er metin sérstaklega og staðhættir kannaðir á kortum ef tilefni er til. Umsækjandi er jafnvel beðinn um að leggja fram gögn um fyrirhugaðan stað þar sem dreifa á ösku og fyrir kemur að upplýsinga er aflað hjá þeim sem kunnugir eru staðháttum.

     4.      Hefur ráðuneytið metið hversu mikið landrými þarf undir kirkjugarða og löggilta grafreiti næstu áratugi miðað við mannfjöldaspá?
    Ráðuneytið metur ekki hversu mikið landrými þarf undir kirkjugarða en það gerir Kirkjugarðaráð Íslands sem jafnframt fylgist með hvernig nýtingu grafreita er háttað. Sveitarfélögum ber að láta ókeypis í té kirkjugarðsstæði og efni í girðingu, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993. Samkvæmt sömu grein setur kirkjugarðaráð viðmiðunarreglur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur hvað felst í skyldu sveitarfélaga til að leggja hæfilegt kirkjugarðsstæði og efni í girðingu.
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá Kirkjugarðasambandi Íslands byggist spá sambandsins fyrir næstu 31 ár eða fyrir árin 2019–2050 á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Spá Hagstofunnar miðar við að fjöldi látinna á hverja þúsund íbúa á Íslandi hækki úr 6,6 dauðsföllum árið 2017 í 9,5 árið 2050. Fjöldi látinna fer samkvæmt því úr 2.251 árið 2017 í 4.132 árið 2050 sem er aukning um 83,5%. Áætlun Kirkjugarðasambands Íslands um viðbótarþörf á landrými undir kirkjugarða næstu árin samkvæmt þessum tölum má sjá í eftirfarandi töflu þar sem gert er ráð fyrir að duftgröfum fjölgi, en hlutfall þeirra er nú um 35% af teknum gröfum. Í töflunni er áætluð þörf á viðbótarlandrými út frá þremur mismunandi forsendum, sem eru að duftgrafir verði 50%, 60% eða 70% í lok tímabilsins sem áætlað er.

Viðbótarþörf á landrými (hektarar) undir kirkjugarða miðað við hlutfall duftgrafa.

Ár 70% 60% 50%
2020 1,85 1,87 1,89
2030 2,08 2,18 2,26
2040 2,17 2,38 2,55
2050 2,16 2,51 2,78

     5.      Telur ráðherra ástæðu til að auka hlut bálfara? Ef svo er, hvernig?
    Hlutur bálfara eykst jafnt og þétt og ekki er ástæða til að ætla annað en að sú þróun haldi áfram. Ráðherra telur ekki ástæðu til frekari opinberrar íhlutunar en nú er um jarðneskar leifar fólks.