Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 941  —  520. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um aðgang almennings að listaverkum í eigu opinberra stofnana.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur ráðherra mótað stefnu varðandi aðgang almennings að listaverkum sem eru í eigu opinberra stofnana? Ef svo er ekki, stendur þá til að slík stefna verði sett?

    Eitt af leiðarljósunum í menningarstefnu stjórnvalda er að aðgengi að menningu verði sem best tryggt fyrir alla þjóðfélagshópa, óháð búsetu og efnahag. Meginstefnan miðar þannig að því að almenningur geti notið listarinnar á sem flestum sviðum.
    Skipta má listaverkum í eigu ríkisins í nokkra flokka eftir því hvaða aðilar hafa umsjón með þeim. Í fyrsta lagi eru verk í eigu safna, einkum Listasafns Íslands en einnig annarra safna, t.d. Þjóðminjasafnsins. Í öðru lagi eru verk sem gefin hafa verið stofnunum ríkisins eða þau keypt fyrir fjárframlög til viðkomandi stofnunar. Í þriðja lagi eru verk sem listskreytingasjóður hefur fjármagnað og eru í skólum og öðrum opinberum byggingum um allt land og mörg utandyra.
    Eins og þessi upptalning ber með sér er tilgangurinn með kaupum á listaverkum mismunandi. Listasafn Íslands kaupir verk einkum til varðveislu og skráningar á listasögu þjóðarinnar, en að auki til að sýna þau þegar svo ber undir. Aðrar stofnanir fá verk til að prýða húsakynni sín bæði fyrir starfsfólkið og þá sem nýta sér þjónustu viðkomandi stofnunar og má nefna sjúkrahúsin í því efni. Hið sama gildir einnig um verk sem listskreytingasjóður hefur keypt eða fjármagnað.
    Af framansögðu leiðir að aðgangur almennings að listaverkum í eigu ríkisins fer eftir ákvörðun þeirrar stofnunar sem hefur umsjón með verkunum og ekki er hægt að gefa þeim aðrar leiðbeiningar en þær að hafa aðgengi að verkunum eins opið og starfsemi stofnunarinnar leyfir. Þá er rétt að benda á að stofnanir ríkisins heyra undir mismunandi ráðuneyti og því ekki á valdi eins ráðherra eða ráðuneytis að móta stefnu um aðgengi almennings að listaverkum í eigu þeirra.