Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 942  —  506. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um áhrif mannfjölda á fjárframlög til heilbrigðisstofnana.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir bjuggu í umdæmi hverrar heilbrigðisstofnunar í upphafi árs 2019 og hvað er áætlað að mannfjöldi breytist mikið í hverju umdæmi á árinu?
     2.      Hvaða áhrif hafði mannfjöldaspá á fjárframlög til hverrar heilbrigðisstofnunar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2019?


    Ekki liggur fyrir hversu margir bjuggu í umdæmi hverrar heilbrigðisstofnunar í upphafi árs 2019 eða hvað er áætlað að mannfjöldi breytist mikið í hverju umdæmi á árinu. Samkvæmt birtingaráætlun Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir birtingu mannfjöldaspár ársins 2019 hinn 20. mars nk.
    Í fjárlögum fyrir árið 2019 voru varanlegar rekstrarfjárveitingar hækkaðar til nokkurra heilbrigðisstofnana en ekki allra, þá er tekið mið af raunvexti vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu og öldrun þjóðarinnar. Eftirfarandi stofnanir fengu hækkaðar fjárveitingar vegna þessa:

Stofnun Hækkun í millj. kr. Hækkun í %
Landspítali 1.164 1,8%
Sjúkrahúsið á Akureyri 143 1,8%
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 81,5 2,8%
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 41,1 2,8%
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 36,4 1,8%
Miðstöð heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu 24,8 1,8%
Heilsugæsluþjónusta samkvæmt reiknilíkani* 216,2 3,0%

*Heilsugæslustöðin Lágmúla, Læknavaktin, Heilsugæslustöðin í Salahverfi í Kópavogi, Heilsugæslustöðin Höfði, Heilsugæslustöðin Urðarhvarfi, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, reiknilíkan.