Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1052  —  646. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar og verðjöfnunargjöld).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi orðskýringar bætast við 1. mgr. 2. gr. laganna í réttri stafrófsröð:
     Afurðaskýrsluhald er skráning afurðaupplýsinga í miðlægan gagnagrunn um bústofn svo unnt sé að rekja uppruna og afdrif allra gripa í hjörðinni á einfaldan og öruggan hátt, sem og upplýsingar um afurðir.
     Innanlandsvog skilgreinir áætlaða þörf og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti.
     Nýliði er einstaklingur á aldrinum 18–40 ára á því ári sem óskað er eftir stuðningi, er að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hefur leigt eða keypt búrekstur á þremur undangengnum árum frá 1. janúar á umsóknarári að telja.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      2. mgr. hljóðar svo:
                      Aðilaskipti að greiðslumarki eru óheimil frá 1. september 2019. Þó er heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila og við ábúendaskipti eða breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða. Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd og frekari skilyrði fyrir tilfærslu eða breytingu skráningar greiðslumarks. Tilfærsla greiðslumarks tekur ekki gildi fyrr en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir.
     b.      4. mgr. hljóðar svo:
                      Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki. Greiðslumark verður innleyst, selt og boðið til sölu á innlausnarvirði í gegnum markað ár hvert. Heimilt er að gefa ákveðnum hópum framleiðenda forgang á kaupum á greiðslumarki sem boðið verður til sölu hverju sinni. Verði sú heimild nýtt skulu skilgreiningar á slíkum hópum útfærðar í reglugerð. Ríkið innleysir það greiðslumark sem selst ekki á markaðnum og fellur þá ærgildi greiðslumarksins niður. Nánara fyrirkomulag innlausnar og sölu greiðslumarks skal útfært í reglugerð.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 3. mgr. hljóðar svo: Ráðherra skal í reglugerð ákveða lágmark ásetnings vetrarfóðraðra kinda fyrir hvert ærgildi greiðslumarks sem handhafi þarf að eiga til að fá fullar beingreiðslur.
     b.      Á eftir 2. málsl. 3. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að endurmeta ofangreint hlutfall árlega, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, með tilliti til innanlandsvogar og þróunar á framboði og eftirspurn sauðfjárafurða. Verði sú heimild nýtt skal ákvörðun liggja fyrir eigi síðar en 15. september vegna beingreiðslna næsta almanaksárs á eftir. Ekki er heimilt að lækka hlutfallið niður fyrir 0,5.
     c.      6. mgr. fellur brott.

4. gr.

    1. mgr. 41. gr. laganna hljóðar svo:
    Framleiðandi sem á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026 uppfyllir skilyrði um gæðastýrða framleiðslu á rétt á sérstakri álagsgreiðslu sem greiða skal fyrir allt framleitt kindakjöt sem ætlað er til innanlandsmarkaðar. Framleiðandi skal uppfylla kröfur um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða. Áætluð þörf innanlandsmarkaðar er metin með hjálp innanlandsvogar.

5. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 53. gr. laganna hljóðar svo: Fyrir innleyst greiðslumark greiðir ríkissjóður tvöfalt núvirt andvirði greiðslna fyrir greiðslumark út gildistíma samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar skv. 30. gr.

6. gr.

    85. gr. A laganna fellur brott.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 3. mgr. 30. gr og 1. mgr. 41. gr. laganna er heimilt að gera aðlögunarsamninga við framleiðendur um nýja eða breytta starfsemi til sveita. Framleiðendur geta óskað eftir að gera slíka samninga fram til ársloka 2021. Aðlögunarsamningar sem gerðir verða árið 2019 gilda í fjögur ár en samningar gerðir síðar í þrjú ár. Þeir framleiðendur einir geta fengið stuðningsgreiðslur samkvæmt aðlögunarsamningi sem uppfylla skilyrði fyrir þeim. Ráðherra útfærir nánari skilyrði í reglugerð.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 nema ákvæði 3. og 7. gr. sem öðlast gildi 1. september 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangurinn með því er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt sem skrifað var undir 11. janúar 2019. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016 og var undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands í atkvæðagreiðslu.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda og auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum.
    Í frumvarpinu er einnig að finna tæknilegar lagfæringar í samræmi við búvörusamninga og búnaðarlagasamning sem tóku gildi 1. janúar 2017. Breytingarnar taka m.a. mið af lögum um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum, tollalögum og lögum um velferð dýra, nr. 102/2016.
    Þá er lagt til að felld verði brott heimild til verðjöfnunar skv. 85. gr. A búvörulaga í samræmi við ákvörðun ráðherrafundar WTO í desember 2015 um að afnema útflutningsbætur.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem kveður á að brugðist verði við vanda sauðfjárbænda til lengri tíma eru í frumvarpi þessu meðal annars lagðar til breytingar á 38. gr. laganna sem fjallar um greiðslumark og 39. gr. sem fjallar um ásetningshlutfall og innlausn greiðslumarks. Jafnframt er bætt við bráðabirgðaákvæði sem kveður á um heimild til að gera aðlögunarsamninga við framleiðendur sem tilbúnir eru að hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi. Verði frumvarpið að lögum, er verið að stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir.
    Markmið lagasetningarinnar er því að bregðast við blikum á lofti hvað varðar framtíð greinarinnar með því að stuðla að því að bændur ýmist hætti sauðfjárframleiðslu eða dragi úr framleiðslu. Ríkisstjórnin hefur jafnframt samþykkt að gengið verði til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar. Á árinu 2019 verður hafist handa við að þróa og innleiða verkefni á grundvelli þeirra tillagna og greininga sem fram hafa komið. Með breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er enn fremur leitast við að bæta markaðsskilyrði greinarinnar með því að draga úr offramboði afurða sem myndi leiða af sér áframhaldandi lækkun afurðaverðs.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í sjö greinar þar sem lagðar eru til eftirfarandi breytingar:
     1.      Bætt verði við skýringum á hugtökum sem koma fram í búvörusamningum en ekki eru skilgreind í lögunum.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 38. gr. laganna sem kveður á um markað með greiðslumark. Meginefni þeirra breytinga er að viðskipti með greiðslumark fari eingöngu fram í gegnum sérstakan markað og að ríkið innleysi það greiðslumark sem selst ekki á slíkum markaði og falli það í kjölfarið niður.
     3.      Lagðar eru til breytingar á 39. gr. laganna þar sem kveðið er á um ásetningshlutfall vegna beingreiðslna. Lagt er til að ráðherra kveði á um ásetningshlutfall í reglugerð en hlutfallið geti þó aldrei verið minna en 0,5.
     4.      Lagt er til að álagsgreiðslur vegna gæðastýringar verði greiddar fyrir framleitt kindakjöt sem ætlað er til innanlandsmarkaðar og miðað verði við svokallaða innanlandsvog.
     5.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar til samræmis við orðalag í 3.5. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016.
     6.      Lagt er til að verðjöfnunargjöld verði felld niður.
     7.      Að lokum er lagt til að sett verði nýtt bráðabirgðaákvæði. Ákvæðið snýr að aðlögunarsamningum og er markmið þeirrar breytingar að draga úr framleiðslu með því að gefa bændum sem það vilja kost á því að hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi en halda greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í þrjú til fjögur ár.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til sérstakrar athugunar á samræmi við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsumhverfi bænda. Meginefni þess er að framkvæma nauðsynlegar lagabreytingar til að samkomulag frá 11. janúar 2019 geti tekið gildi. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði í sauðfjárrækt frá 19. febrúar 2016 en kveðið er á um að samningurinn skuli endurskoðaður í tvígang. Að samkomulaginu koma atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið auk Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. Um samkomulagið var kosið í Bændasamtökum Íslands og Landssamtökum sauðfjárbænda. Með vísan til ofangreinds hefur því frumvarpið nokkuð langan aðdraganda og er samningsatriði milli þeirra sem það snertir einna helst.

6. Mat á áhrifum.
    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt sem skrifað var undir 11. janúar 2019. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda og auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum. Þær breytingar sem snúa að samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt hafa áhrif á starfsumhverfi bænda og Matvælastofnun. Brottfall verðjöfnunargjalda hefur áhrif á starfsemi tollstjóra og útflytjendur sem nýtt hafa heimild til verðjöfnunargjalda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ráðstöfun fjármuna innan gildandi samnings um starfsskilyrði í sauðfjárrækt frá 19. febrúar 2016 sem varða framleiðendur sauðfjárafurða og starfsemi Matvælastofnunar og tollstjóra hvað verðjöfnunargjöldin varðar. Breytingarnar hafa áhrif á framkvæmd verkefna stofnananna en kalla ekki á aukin útgjöld. Lagt er til að verðjöfnunargjöld verði felld niður en það hefur áhrif til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs. Í fjárlögum 2019 er framlag vegna verðjöfnunargjalda 2,5 m.kr. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 2,5 m.kr. á ári frá og með árinu 2020. Frumvarpið kallar ekki á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur er einungis um að ræða tilfærslur fjármuna innan gildandi samnings um starfsskilyrði í sauðfjárrækt.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um þrjár nýjar orðskýringar. Um er að ræða hugtök sem koma fyrir í búvörusamningum og reglugerðum um framkvæmd samninganna. Hugtakið afurðaskýrsluhald er skráning afurðaupplýsinga um bústofn framleiðanda í miðlægan gagnagrunn á vegum Matvælastofnunar og Bændasamtaka Íslands. Hugtakið innanlandsvog er til komið vegna breytinga á samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt. Sett verður á svokölluð „innanlandsvog“ sem skilgreinir þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti. Fyrir 20. ágúst ár hvert verður áætlað sölumagn kindakjöts á innanlandsmarkaði næsta almanaksár og verður sú áætlun byggð á sölu síðustu 24 mánaða og líklegri söluþróun. Við mat á innanlandsþörf fyrir kjöt verður sala áætluð til að mæta mismunandi eftirspurn eftir afurðum/ skrokkhlutum. Innanlandsvog metur þannig áætlaða þörf innanlandsmarkaðar. Hugtakið nýliði kemur fyrir á nokkrum stöðum í ákvæðum búvörulaga og búnaðarlaga. Hugtakið er m.a. skilgreint í samræmi við tillögur Samtaka ungra bænda og í samræmi við afmörkun hugtaksins í nágrannalöndum Íslands. Aldursmörkin eru ákvörðuð annars vegar út frá lögræðisaldri en lögráða verða menn 18 ára skv. 1. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Þá tekur hámarksaldurinn mið af hámarksaldri nýliða í nágrannalöndum Íslands en sem dæmi er hámarksaldur nýliða 40 ár hjá Evrópusambandinu.

Um 2. gr.

    Lagt er til að stofnsettur verði markaður fyrir greiðslumark. Greiðslumark verður þannig innleyst og selt í gegnum markað og mun verð ærgilda stýrast af núvirtum beingreiðslum næstu þriggja ára á fyrsta ári markaðar. Lagt er til að núvirt andvirði greiðslna reiknist miðað við stýrivexti Seðlabanka Íslands 1. janúar ár hvert og greiðslur frá þeim tíma. Verð ærgilda verði reiknað frá og með 1. janúar og haldist óbreytt til og með 31. desember sama ár. Frá og með öðru ári markaðar muni verð stýrast af núvirtum beingreiðslum næstu tveggja ára en að öðru leyti á sama hátt og að framan greinir. Lagt er til að greiðslumark skuli boðið til sölu á innlausnarvirði ár hvert en heimilt verði að gefa ákveðnum hópum framleiðenda, t.d. nýliðum og þeim sem eiga minna en 0,5 ærgildi á móti hverri vetrarfóðraðri kind, forgang á kaupum á greiðslumarki sem boðið verður til sölu hverju sinni. Verði sú heimild nýtt skuli skilgreiningar á slíkum hópum útfærðar í reglugerð. Viðskipti með greiðslumark verði leyfð með þessu móti til og með 2024 en eftir það eru innan við tvö ár eftir af samningstímanum. Ríkið mun innleysa greiðslumark sem selst ekki á markaðnum og þau ærgildi falla niður. Fjármagni vegna þeirra skal ráðstafa á aðra liði samnings. Nánara fyrirkomulag innlausnar og sölu greiðslumarks verður útfært í reglugerð. Í ljósi þessarar breytingar er lagt til að aðilaskipti að greiðslumarki verði almennt óheimil frá 1. september 2019. Þó verði heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila og við ábúendaskipti eða breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða. Þá er lagt til að tilfærsla greiðslumarks taki ekki gildi fyrr en staðfesting Matvælastofnunar liggi fyrir.

Um 3. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um ásetningshlutfall í reglugerð. Samkvæmt samkomulagi um breytingu á samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt frá 11. janúar 2019 verður ásetningshlutfallið 0,6 frá og með 1. janúar 2020 en ráðherra er heimilt að endurmeta hlutfallið árlega, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, með tilliti til innanlandsvogar og þróunar á framboði og eftirspurn sauðfjárafurða. Verði sú heimild nýtt skal ákvörðun ráðherra liggja fyrir eigi síðar en 15. september vegna beingreiðslna næsta almanaksárs á eftir. Ekki er þó heimilt að lækka hlutfallið niður fyrir 0,5.

Um 4. gr.

    Lagt er til að álagsgreiðslur vegna gæðastýringar verði einungis greiddar fyrir framleitt kindakjöt sem ætlað er til innanlandsmarkaðar. Sett verði á svokölluð „innanlandsvog“ sem skilgreini þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti. Fyrir 20. ágúst ár hvert verði áætlað sölumagn kindakjöts á innanlandsmarkaði næsta almanaksár og sú áætlun byggð á sölu síðustu 24 mánaða og líklegri söluþróun. Við mat á innanlandsþörf fyrir kindakjöt skuli áætla sölu til að mæta mismunandi eftirspurn eftir afurðum/skrokkhlutum. Innanlandsvog metur þannig áætlaða þörf innanlandsmarkaðar. Álagsgreiðslur vegna gæðastýringar skiptast á þann hluta heildarframleiðslunnar sem ætlaður er til innanlandsmarkaðar.

Um 5. gr.

    Lagt er til að orðalag 2. málsl. 2. mgr. 53. gr. verði lagfært til samræmis við orðalag í 3.5. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016 en þar segir: „Ríkið hefur innlausnarskyldu á greiðslumarki gagnvart þeim sem óska eftir henni á árunum 2017–2019. Innlausn fari fram með þeim hætti að greiðslumarkshafi fái greitt tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark (áður A-greiðslna) sem eftir eru. Matvælastofnun annast innlausn og sölu greiðslumarks.“ Mismun á orðalagi í 53. gr. laganna og 3.5. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar má rekja til misritunar í lagatexta.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um verðjöfnunargjöld. Til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra vara við útflutning er ráðherra heimilt að greiða verðjöfnun við útflutning vara sem innihalda innlend landbúnaðarhráefni. Verðjöfnunin er mismunur á innlendu viðmiðunarverði og erlendu viðmiðunarverði hverrar tegundar hráefnis sem notað er við framleiðslu vörunnar. Greiðslur miðast við heimildir fjárlaga hverju sinni en á árinu 2017 námu framlög til verðjöfnunar 2,6 m.kr. sem var óbreytt upphæð frá árinu 2012. Framlög til verðjöfnunar árið 2019 eru 2,5 m.kr. og því ljóst að um óverulega upphæð er að ræða. Nánar er kveðið á um verðjöfnun í reglugerð en þar eru tilgreind tollskrárnúmer sem heimilt er að greiða verðjöfnun fyrir, hráefnistegundir sem heimilt er að verðjafna, viðmiðunarverð innlendra landbúnaðarhráefna, erlend viðmiðunarverð sömu hráefna og nánari skilyrði verðjöfnunar. Um verðjöfnunina er fjallað með framangreindum hætti í reglugerð nr. 535/2003, um verðjöfnun við útflutning á fullunnum vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni. Framkvæmd verðjöfnunar hefur farið þannig fram að framleiðendur vöru hafa sótt um verðjöfnun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, en tollstjóri annast greiðslu verðjöfnunar að uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 535/2003. Verðjöfnun hefur einna helst verið nýtt við útflutning á sælgæti sem inniheldur landbúnaðarhráefni, þ.e. nýmjólkur- eða undanrennuduft, en einungis 2–3 fyrirtæki hafa nýtt sér þessa heimild. Rétt er að benda á að komið hefur verið til móts við óskir Samtaka iðnaðarins um verðlagningu á undanrennu- og mjólkurdufti frá 1. júlí 2016, sbr. ákvörðun verðlagsnefndar búvara þegar verð á þessum vörum var lækkað um 20% til að mæta áhrifum nýs tollasamnings við ESB og lækkun heimsmarkaðsverðs á dufti.
    Hinn 19. desember 2015 var á tíunda ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) tekin ákvörðun um afnám útflutningsbóta fyrir landbúnaðarvörur. Samkvæmt ákvörðuninni bar iðnríkjum að afnema útflutningsbætur að mestu umsvifalaust, en þó var veittur frestur til 2020 til að afnema tilkynntar útflutningsbætur fyrir mjólkurafurðir, svínakjöt og unnar landbúnaðarvörur. Þróunarríki skulu afnema útflutningsbætur ekki síðar en 2018, en fá aðlögunartíma til 2023 fyrir tilteknar afurðir. Þá eru settar nánari reglur um stuðning við útflutningslán. Ákvörðunin var talin marka tímamót og lýsti framkvæmdastjóri WTO, Roberto Azevêdo, því yfir við lok umrædds ráðherrafundar að þetta væri mikilvægasta niðurstaða stofnunarinnar á sviði landbúnaðar frá stofnun hennar árið 1995.
    Útflutningsstyrkir hafa ekki verið veittir á Íslandi síðan um og eftir árið 1990 og hefur ákvörðunin því takmörkuð áhrif hér á landi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur í kjölfar ráðherrafundarins haft til skoðunar hvort verðjöfnunargjöld þau sem kveðið er á um í núgildandi 85. gr. A teljist til útflutningsbóta. Í Noregi hafa verðjöfnunargjöld verið flokkuð með útflutningsbótum þegar þau eru hærri fyrir vörur ætlaðar til útflutnings en fyrir innlendan markað. Norsk stjórnvöld hafa tilkynnt að verðjöfnunargjöld umfram þann verðjöfnunarstyrk sem innlend framleiðsla hlýtur verði afnumin fyrir árið 2020.
    Þar sem óverulegir fjármunir eru til verðjöfnunar og gerðar hafa verið ráðstafanir til að lækka nýmjólkur- og undanrennuduft til matvælaframleiðslu hér á landi er að mati ráðuneytisins óþarft að mæla fyrir um verðjöfnunargjöld í ákvæðum búvörulaga. Endurgreiðsla þessi krefst mikillar vinnu tollyfirvalda, ráðuneytis og ekki síður umsóknaraðila til að uppfylla skilyrði til endurgreiðslu fyrir lága upphæð sem ætluð er til þess á fjárlögum. Er með vísan til alls framangreinds því lagt til að verðjöfnunargjöld verði felld brott.

Um 7. gr.

    Lagt er til að aðlögunarsamningar verði gerðir á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um gerð aðlögunarsamninga um nýja starfsemi til sveita. Er það gert í því skyni að ná jafnvægi í framleiðslu sauðfjárafurða og gera bændum kleift að byggja upp nýjar búgreinar og búskaparhætti eða hasla sér völl á öðrum sviðum, m.a. til þess að stuðla að nýsköpun og náttúruvernd. Með aðlögunarsamningi fengi framleiðandi stuðningsgreiðslur í samræmi við reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt á gildistíma samnings við hann þrátt fyrir að hann stundi ekki sauðfjárrækt, þó að hámarki í fjögur ár.
    Skilyrði greiðslna samkvæmt samningunum eru meðal annars skráning sem eigandi eða leigjandi lögbýlis, að stunduð sé sauðfjárrækt á lögbýlinu, að umsækjandi hljóti stuðningsgreiðslur á grundvelli reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt, þátttaka í afurðaskýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands og fullnægjandi skil á haustskýrslum í Bústofn fram að gildistöku aðlögunarsamnings. Með samningnum skuldbindur framleiðandi sig til að fækka um að minnsta kosti 100 fjár á vetrarfóðrun og miða skal við að áætlaðri förgun skuli vera lokið innan árs frá því að samningur er undirritaður. Framleiðendur skuldbinda sig auk þess til að skila fé með fullorðinsnúmer til slátrunar og fjölga ekki fé á vetrarfóðrun á gildistíma samningsins og er kvöðin bundin við viðkomandi jörð, framleiðanda og tengda aðila. Ráðherra hefur þó heimild til að aflétta þessari kvöð af jörðum.
    Aðlögunarsamningar fela í sér innlausn ærgilda sem samningurinn tekur til. Þá ber framleiðanda að stunda á samningstímanum atvinnurekstur eða búskap í samræmi við áætlun sem samþykkt hefur verið af Framleiðnisjóði og framkvæmdanefnd búvörusamninga upplýst um. Jafnframt er framleiðandi skuldbundinn til að hafa lögheimili og fasta búsetu á lögbýlinu á gildistíma samningsins og halda jörðinni í góðu ásigkomulagi. Þó er framleiðanda heimilt að fengnu skriflegu samþykki Matvælastofnunar að starfrækja hluta þeirrar starfsemi sem fram kemur í áætlun á bújörð í sama eða aðliggjandi sveitarfélagi. Hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, samkvæmt skráningu í þjóðskrá, sem standa saman að búrekstri geta sótt saman um greiðslur á grundvelli samningsins og óskað þess að greiðslum verði skipt jafnt á milli aðila.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.