Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1053  —  540. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um heildarkostnað við byggingu nýja sjúkrahótelsins við Hringbraut.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er áætlaður heildarkostnaður við byggingu nýja sjúkrahótelsins við Hringbraut?
     2.      Hver var áætlaður heildarkostnaður framkvæmdanna í kjölfar útboðs í september 2015?
     3.      Sé heildarkostnaður framkvæmdanna ekki eins og upphaflega var áætlað, til hvaða orsaka má helst rekja muninn?


    Bygging sjúkrahótelsins hófst í lok árs 2015. Verkinu miðaði vel framan af, en á árinu 2017 urðu deilur milli verktaka og verkkaupa um framvindu verksins. Deilurnar settu mark sitt á framkvæmdina. Í lok nóvember 2018 varð sátt milli aðila um verkskil og að vísa deilumáli aðila til gerðardóms sem rekinn er af og í samræmi við regluverk Viðskiptaráðs Íslands. Verkkaupi og verktaki hafa sammælst um að bera ekki fjárhagslegar kröfur upp opinberlega fyrr en að loknum úrskurði gerðardóms, sem ætla má að birtist á árinu 2019.
    Verkkaupi ákvað í ljósi endurrýni og öryggismats á festingarkerfi klæðningarinnar að láta endurhanna kerfið og um leið að fara fram með dýrari lausn en gert var ráð fyrir í upphafi til að allra umhverfis- og öryggissjónarmiða yrði gætt. Við það breyttist kostnaðarmat hússins.
    Núverandi kostnaður vegna heildarverkframkvæmdarinnar, allir verkhlutar, óverðbætt og án innbúnaðar, er 2.143 millj. kr. og er um að ræða 7,8% kostnaðarfrávik frá uppfærðum kostnaðaráætlunum verkhlutanna, sem skýrist m.a. af breytingum á klæðningu, magnaukningu í raflögnum og loftræsingu. Skilamat hússins verður gert í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, að lokinni niðurstöðu gerðardóms og eftir ábyrgðarúttekt verksins. Við lokauppfærslu verður miðað við byggingarvísitölu.
    Allur innbúnaður hússins var boðinn út og er hús- og veitingabúnaður frá eftirfarandi aðilum: Fastusi, Pennanum, Sýrusson hönnunarstofu, Bako Ísbergi, Álnabæ, Sensa, Origo og Heimilistækjum. Um gerð merkinga sá Merking í kjölfar verðkönnunar. Kostnaður vegna hús- og veitingabúnaðar er um 150 millj. kr. eða um 77% af kostnaðaráætlun.