Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1112  —  521. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um listaverk í eigu ríkisins.


     1.      Hefur ráðherra sett stefnu um skráningu á listaverkum í eigu opinberra stofnana eða ríkisins?
    Í samræmi við 3. mgr. 54. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, eiga ríkisaðilar í A-hluta að halda utan um eignaskrá sem skal skilað ár hvert til Fjársýslu ríkisins, hlutaðeigandi ráðherra og Ríkisendurskoðunar ásamt ársreikningi. Að öðru leyti hafa ekki verið settar sérstakar reglur um skráningu á listaverkum í eigu opinberra stofnana.

     2.      Hefur ráðherra sett reglur um kaup og sölu á listaverkum í eigu opinberra stofnana eða ríkisins?
    Í lögum um opinber fjármál og reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins kemur m.a. fram að ríkisaðilar í A-hluta skulu afla lagaheimildar til selja eignir eða safnhluta sem hafa að geyma menningarverðmæti eða verulegt verðgildi. Flestra heimilda til slíkra ráðstafana er aflað árlega í heimildargrein fjárlagafrumvarps. Ráðherra hefur að öðru leyti ekki sett sérstakar reglur um kaup og sölu á listaverkum í eigu opinberra stofnana eða ríkisins.
    Þess má þó geta að samkvæmt myndlistarlögum, nr. 64/2012, sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðherra skal verja a.m.k. 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Með listaverkum samkvæmt lögunum er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og aðra listræna fegrun. Samkvæmt 5. gr. myndlistarlaga starfar einnig á vegum Listasafns Íslands innkaupanefnd sem ákveður kaup listaverka til safnsins.