Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1139  —  596. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Smára McCarthy um eftirlit með sérfræðikostnaði þingmanna utan þingflokka.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig er eftirliti háttað með fjárreiðum sérfræðiaðstoðar þingmanna sem standa utan þingflokka og eru af þeim sökum ekki hluti af samstæðureikningi stjórnmálasamtaka?

    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Tekið er fram að greiða skuli „jafna fjárhæð fyrir hvern þingmann og nefnist hún eining“. Forsætisnefnd Alþingis getur sett nánari reglur um slíkar greiðslur. Samkvæmt reglum forsætisnefndar frá 5. febrúar 2007 fær þingmaður sem er utan flokka greidda eina einingu. Skrifstofa Alþingis annast greiðslur til starfsemi þingflokka og þingmanna samkvæmt reglunum.
    Eins og rakið er í greinargerð með fyrirspurninni eru ekki gerðar sömu kröfur til reikningsskila þingmanna utan þingflokka líkt og gildir um stjórnmálasamtök, sem gera m.a. grein fyrir framlagi úr ríkissjóði til þingflokka í samstæðureikningi sínum, sbr. 8. gr. laga nr. 162/2006. Samkvæmt þeim lögum og reglum forsætisnefndar rennur árlegt fjárframlag til þingflokka til starfsemi þeirra. Í framkvæmd eru fjárframlög til þingflokka og þingmanna utan þingflokka nefnd sérfræðiaðstoð, sbr. heiti og framkvæmd eldri laga nr. 56/1971, um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka, en lög nr. 162/2006 leystu þau af hólmi. Við það er miðað að þingflokkar og þingmenn utan þingflokka ráði sjálfir ráðstöfun framlags til sérfræðiaðstoðar. Í 6. gr. eldri laga var gert ráð fyrir því að formenn þingflokka og þingmenn utan þingflokka skyldu árlega senda forsetum Alþingis greinargerð um ráðstöfun þess fjár, sem þeir veittu móttöku, samkvæmt nánari reglum forsætisnefndar. Með lögum nr. 162/2006 var eftirliti með upplýsingagjöf um fjárframlög til stjórnmálasamtaka falið ríkisendurskoðanda, sbr. nú lög nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Um reikningsskil og upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka er nú fjallað í IV. kafla laga nr. 162/2016. Í þeim lögum er ekki fjallað um reikningsskil eða eftirlit með upplýsingaskyldu þingmanna utan þingflokka.
    Samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar hafa embættinu ekki borist yfirlit eða reikningar frá þingmönnum utan þingflokka um greiðslu sérfræðiaðstoðar. Alls hafa níu þingmenn fengið slíkar greiðslur frá 1. janúar 2007, er lög nr. 162/2006 tóku gildi, allt frá fáeinum mánuðum og upp í tvö ár.
    Það er niðurstaða forseta Alþingis að við endurskoðun laga nr. 162/2006, sem nú stendur yfir, sé brýnt að reglur um upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka um fjárframlög til þingflokka og þeirra sem standa utan þingflokka verði samræmdar.