Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1140  —  573. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um þjálfun og fræðslu viðbragðsaðila og umbætur í sjúkraflutningum.


     1.      Er tímabært að sameina þjálfun og fræðslu allra viðbragðsaðila, sbr. ályktun Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna frá 29. nóvember sl.?
    Heildarstefnumótun, skipulag og framkvæmd sjúkraflutninga á landsvísu verður áherslumál heilbrigðisráðherra næsta misserið. Til stendur að endurskoða reglugerð um fagráð sjúkraflutninga. Á grundvelli nýrrar reglugerðar verður fagráðinu falið að leggja fram tillögur um framtíðarfyrirkomulag sjúkraflutninga á landsvísu. Ákvarðanir um fyrirkomulag á þjálfun og fræðslu viðbragðsaðila sem sinna sjúkraflutningum verða teknar í tengslum við þá vinnu. Horft verður til hlutverks Sjúkraflutningaskólans varðandi menntun og þjálfun allra þeirra sem að sjúkraflutningum koma.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við ákalli um umbætur í sjúkraflutningum á Suður- og Suðausturlandi; fyrst og fremst frá Höfn í Hornafirði að Selfossi og í uppsveitum sunnan lands?
    Heilbrigðisstofnun Suðurlands sinnir sjúkraflutningum á svæðinu á fimm starfsstöðvum. Stofnunin hefur yfir að ráða 10 fullbúnum bílum sem dreifðir eru um svæðið og staðsettir þannig að þeir nýtist sem best. Starfsemi og rekstur sjúkraflutninga á Suðurlandi er í stöðugri þróun og endurskoðun, sem á að tryggja að fjármunir séu nýttir sem best.
    Eitt af forgangsverkefnum heilbrigðisráðherra er að byggja upp sjúkraflutninga og verður áhersla lögð á heildstætt skipulag allra sjúkraflutninga hvort sem þeir fara fram á landi eða með flugi.