Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1198  —  582. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um orkuskipti og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.



     1.      Hversu miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda skila markmið um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í haftengdri starfsemi árið 2030, sbr. aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018–2030 og þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, nr. 18/146, frá 31. maí 2017, borið saman við samsvarandi losun árið 2005?
    Í eldsneytisspá orkuspárnefndar fyrir tímabilið 2016–2050 eru settar fram sviðsmyndir með spám fyrir eldsneytisnotkun miðað við óbreytt ástand annars vegar, þ.e. að því gefnu að stefna stjórnvalda þegar kemur að skattlagningu eldsneytis, söluskyldu eldsneytis o.s.frv. verði óbreytt eins og staðan er í dag og hins vegar miðað við orkuskiptaáætlun þar sem viðbótaraðgerðir koma til sögunnar.
    Í eldsneytisspá er gert ráð fyrir aukinni orkunotkun skipa, bæði flutningaskipa, skemmtiferðaskipa og erlendra fiskiskipa. Fyrir haftengda starfsemi, í sviðsmynd um óbreytt ástand, er gert ráð fyrir 0,7% hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis árið 2030 ásamt aukningu í losun um 14,7% miðað við árið 2005. Ef gert er ráð fyrir 10% hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis árið 2030 í samræmi við markmið orkuskiptaáætlunar verður aukning í losun 3,9% miðað við 2005. Ef innlend fiskiskip eru skoðuð sérstaklega gerir eldsneytisspá ráð fyrir um 0,8% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa árið 2030, í sviðsmynd um óbreytt ástand. Því fylgir 11,7% samdráttur í losun miðað við árið 2005. Ef gert er ráð fyrir rúmlega 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa innlendra fiskiskipa verður samdráttur þeirra á bilinu 19–23%.

Eldsneytisnotkun % endurnýjanlegs eldsneytis 2030

Losun 2030 miðað við 2005

Óbreytt ástand
0,7% +14,7%
Orkuskiptaáætlun 10,0% +3,9%
Fiskiskip – óbreytt ástand 0,8% -11,7%
Fiskiskip – orkuskiptaáætlun 10,0% -19–23,0%

    Vert er að taka fram að í sviðsmynd í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, fyrstu útgáfu, er gert ráð fyrir að losun frá fiskiskipum minnki um 45% til 2030 miðað við 2005. Frekari greiningar tengdar þessu verða unnar í tengslum við aðra útgáfu aðgerðaáætlunarinnar.

     2.      Hver verða áhrif aðgerðaáætlunar um orkuskipti í samgöngum á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, sbr. lið C.6 í þingsályktun nr. 18/146?
    Eldsneytisspá gerir ráð fyrir að hlutfall annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis í samgöngum verði 27,2% árið 2030 miðað við óbreytt ástand regluverks. Það mun skila 15,4% samdrætti í losun miðað við árið 2005. Stór hluti þeirrar orku verður raforka, en einnig er gert ráð fyrir öðru endurnýjanlegu eldsneyti, svo sem lífeldsneyti. Ef miðað er við 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa með auknum aðgerðum stjórnvalda samkvæmt aðgerðaáætlun um orkuskipti skilar það 29% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum árið 2030.

Eldsneytisnotkun % annað en jarðefnaeldsneyti 2030 Losun 2030 miðað við 2005
Óbreytt ástand 27,2% -15,4%
Orkuskiptaáætlun 40,0% -29,0%

    Vert er að taka fram að í sviðsmynd í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, fyrstu útgáfu, er gert ráð fyrir 35% samdrætti í losun frá vegasamgöngum til ársins 2030 miðað við árið 2005, eða um helming miðað við núverandi losun. Frekari greiningar tengdar þessu verða unnar í tengslum við aðra útgáfu aðgerðaáætlunarinnar.

     3.      Er skýrslan Aðgerðaáætlun um orkuskipti í íslenskum höfnum – með áherslu á raftengingar til skipa í höfn, sem Nýorka og Hafið unnu og gáfu út í nóvember 2018, liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum?
    Umrædd skýrsla er afar gagnleg fyrir uppfærslu á aðgerðaáætluninni sem nú er unnið að og nýtist sem útgangspunktur til að hrinda aðgerðum í framkvæmd. Skýrslan gefur góða mynd af stöðu mála og þar er bent á helstu flöskuhálsa í vegi fyrir því að rafvæða hafnir annars vegar og hins vegar að skip og bátar nýti sér raftengingar sem skyldi þar sem þær eru til staðar. Í skýrslunni eru einnig settar fram beinar tillögur um aðgerðir sem stjórnvöld geta gripið til í því skyni að efla orkuskipti í höfnum. Vinna þarf betur að því að fá fram upplýsingar um kostnað og ávinning af aðgerðum þegar kemur að mögulegum samdrætti í losun, en skýrsla Íslenskrar Nýorku og Hafsins er afar gagnlegt skref í átt til þess að hrinda þessari aðgerð í framkvæmd.