Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1268  —  548. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um samgöngusamninga og kolefnisjöfnun vegna flugferða.


     1.      Er stefnt að því að svokallaðir samgöngusamningar milli ríkisstofnana og starfsfólks verði unnir fyrir allar stofnanir?
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, er gert ráð fyrir nýju ákvæði um loftslagsstefnu ríkisins. Ákvæðið snýr að því að Stjórnarráðið, stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins skulu setja sér loftslagsstefnu og skal hún innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar, ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.
    Eitt þeirra markmiða sem hægt er að setja í loftslagsstefnu ríkisaðila er að auka hlutfall starfsmanna sem eru með samgöngusamninga þar sem starfsmenn nýta sér almenningssamgöngur eða vistvænan ferðamáta til að ferðast til og frá vinnu. Það er aftur á móti í höndum hvers og eins ríkisaðila að ákveða hvort boðið sé upp á slíka samninga fyrir starfsmenn en margir ríkisaðilar bjóða þegar upp á samgöngusamninga fyrir starfsmenn sína. Stjórnarráðið hyggst með sinni eigin loftslagsstefnu efla samgöngusamninga allra ráðuneyta og samræma þá.

     2.      Er stefnt að því að taka upp þá reglu að kolefnisjafna flugferðir starfsmanna ríkisins innan lands og utan?
    Í loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, sem verið er að leggja lokahönd á, er gert ráð fyrir að Stjórnarráðið kolefnisjafni starfsemi sína, þ.m.t. þá losun sem verður vegna flugferða starfsmanna jafnt innan lands sem utan. Í stefnunni er auk þess gerð krafa á ríkisstofnanir um slíka kolefnisjöfnun. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, er einnig gert ráð fyrir því sama.