Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1377  —  333. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Loga Einarssyni um aldursgreiningar Háskóla Íslands á tönnum umsækjenda um alþjóðlega vernd.


     1.      Telur ráðherra það ásættanlegt að opinber menntastofnun, í þessu tilviki tannlæknadeild Háskóla Íslands, framkvæmi umdeildar aldursgreiningar á viðkvæmum hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd fyrir Útlendingastofnun sem nýtir síðar niðurstöður greiningarinnar við úrskurði um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi?
    Í 2. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, er meðal annars kveðið á um sjálfstæði háskóla frá afskiptum ríkis og fjárveitingarvalds. Segir þar að háskólar séu sjálfstæðar menntastofnanir og að viðfangsefni rannsókna og kennslu á fræðasviðum háskóla skulu vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann og leggja honum til fé. Af því leiðir að ráðherra íhlutast ekki um starfsemi einstakra deilda, svo fremi að háskóli uppfylli ákvæði laga um háskóla, nr. 63/2006, og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra, þ.m.t. reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 321/2009.
    Ráðuneytinu er kunnugt um að drög að samkomulagi milli Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um aldursgreiningu út frá tannþroska voru til skoðunar hjá vísindasiðanefnd háskólans og jafnréttisnefnd háskólaráðs. Ályktaði vísindasiðanefnd skólans hinn 20. nóvember sl. að læknisfræðilegar prófanir sem þessar féllu ekki undir vísindasiðareglur skólans, er einungis ná til akademískra rannsókna.

     2.      Hefur ráðherra beitt sér sérstaklega fyrir því að opinberar menntastofnanir fari eftir vísindasiðareglum eftir ýtrasta megni?
    Samkvæmt fyrrnefndri 2. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, skulu háskólar setja sér siðareglur og skulu starfsmenn háskóla fara eftir almennum starfsreglum og siðareglum viðkomandi skóla. Þá hefur forsætisráðherra, í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, skipað starfshóp til að undirbúa lagasetningu um heilindi í vísindarannsóknum og gera frummat á áhrifum slíkrar lagasetningar, sbr. samþykkt ríkisstjórnar frá 10. mars 2017. Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins 18. janúar sl. og var samráð opið til 5. febrúar 2019. Frumvarp um heilindi í vísindarannsóknum verði í kjölfarið lagt fram á vorþingi 2019.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Háskóli Íslands, líkt og Háskólinn í Ósló hefur gert, hætti tanngreiningum í ljósi siðferðislegra álitaefna?
    Í Noregi voru rannsóknir vegna aldursgreiningar fluttar frá tannlæknadeild háskólans í Ósló vegna álags á sérfræðinga háskólans sökum fjölda aldursgreininga sem gerðar voru. Því var verklagi breytt og aldursgreiningar eru nú gerðar á réttarmeinafræðideild háskólasjúkrahússins í Ósló. Í Noregi sem og öðrum Norðurlöndum eru aldursgreiningar út frá tann- og beinþroska gerðar á opinberum stofnunum svo sem háskólum eða réttarmeinafræðistofnunum. Á Íslandi er tannlæknadeild Háskóla Íslands eina opinbera stofnunin sem veitir tannlæknaþjónustu og hefur með höndum kennslu og rannsóknir í tannlæknisfræðum. Hún er því eina opinbera stofnunin sem getur annast framkvæmd aldursgreininga út frá tannþroska á grundvelli 113. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Rétt er að taka fram að í lögunum eru einnig ákvæði um að niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Einnig að óheimilt sé að þvinga umsækjanda um alþjóðlega vernd eða umsækjanda um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar til að gangast undir aldursgreiningu og jafnframt að synjun á umsókn um alþjóðlega vernd geti ekki byggst á því eingöngu að viðkomandi hafi neitað að gangast undir aldursgreiningu.