Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1382  —  514. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um ófrjósemisaðgerðir.


     1.      Fer fram sérstakt mat þegar ákvörðun er tekin um ófrjósemisaðgerð á grundvelli 22. gr. laga nr. 25/1975? Ef svo er, hvernig er matinu háttað og er skoðað hvort aðrar aðferðir henti einstaklingnum, til að mynda hefðbundnar getnaðarvarnir?
    Leitað var til Landspítalans og embættis landlæknis vegna þessarar fyrirspurnar og miðast svarið við upplýsingar frá þeim um framkvæmdina. Á Landspítala hafa ekki verið gerðar aðgerðir á grundvelli 22. gr. laga nr. 25/1975 frá árinu 2016 en ein aðgerð hefur verið framkvæmd á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Á árunum 2013–2016 var verklagið þannig á Landspítala að forsjáraðilar einstaklings höfðu samband við spítalann. Yfirlæknir kvensjúkdómadeildar átti í framhaldinu viðtal við forsjáraðila, og skjólstæðing ef mögulegt var, þar sem ræddir voru mögulegir valkostir, t.d. langtímagetnaðarvarnir, ásamt því að aðilar voru upplýstir um ferli umsóknar.
    Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, eiga sjúklingar rétt á þjónustu sem miðast við ástand þeirra og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, og að fá upplýsingar um önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert er aðhafst, sbr. c-lið 1. mgr. 5. gr. laganna. Því hvílir sú skylda á veitendum heilbrigðisþjónustu að tryggja að sjúklingar sem undirgangast ófrjósemisaðgerð njóti þessara réttinda.

     2.      Hefur ráðuneytið sérstakt eftirlit með umsóknum um ófrjósemisaðgerðir á grundvelli 22. gr. laga nr. 25/1975?
    Samkvæmt 28. gr. laga nr. 25/1975 starfar úrskurðanefnd sem ætlað er að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Í 26. gr. laganna kemur fram að heilbrigðisyfirvöld hafa eftirlit með framkvæmd laganna en samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, áður lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, er embætti landlæknis falið að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum.