Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1412  —  737. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um flutning heilbrigðisþjónustu frá einkaaðilum til opinberra aðila.


     1.      Hvaða þjónusta, önnur en meðferðarúrræði fyrir unga fíkla, sjúkraflutningar, krabbameinsskimun og Karitas, hefur verið færð eða stendur til að færa frá einkaaðilum til opinberra aðila?
    Sú þjónusta sem ákveðið hefur verið að færa frá einkaaðilum til opinberra aðila, önnur en sú sem talin er upp hér að framan, er annars vegar heilbrigðisþjónusta við fanga og hins vegar rekstur sjúkrahótels. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hóf um síðustu mánaðamót að veita almenna heilbrigðisþjónustu í fangelsinu á Hólmsheiði samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Heilsugæslan Lágmúla, sem er einkarekin heilsugæslustöð, hafði áður sinnt þjónustunni. Þá mun Landspítali taka við rekstri nýs sjúkrahótels sem tekur við af sjúkrahóteli við Ármúla. Tekið skal fram að krabbameinsskimun er enn í höndum Krabbameinsfélags Íslands á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Framhaldsskoðun (klínísk skoðun) á grundvelli vísbendinga sem fram koma við skimun var tekin úr samningnum á síðasta ári og flutt til Landspítala vegna vanda Krabbameinsfélagsins við að manna það verkefni. Samningur um skimun gildir til ársloka 2019 og verður tekin ákvörðun um framhald þjónustunnar á næstu mánuðum. Meðal annars verður horft til þess að heilsugæslan taki við þjónustunni að hluta eða öllu leyti í samræmi við tillögur skimunarráðs. Þá skal tekið fram að ekki hafa verið gerðar breytingar á samningum um sjúkraflutninga. Enn er unnið eftir þeim samningi sem síðast var í gildi. Framtíðarfyrirkomulag, og þar með umsýsluaðili vegna útvegunar og reksturs bíla og búnaðar, hefur ekki verið ákveðið.

     2.      Hvaða kostnaðargreining lá að baki tilfærslu umræddra verkefna til ríkisins, að þeim meðtöldum sem voru nefnd í 1. tölul.?
    Við undirbúning að flutningi þjónustu frá einkaaðilum til ríkisins er almennt haft það verklag að farið er yfir kostnað samkvæmt þeim þjónustusamningum sem um ræðir og hann borinn saman við kostnaðarmat við rekstur þjónustunnar hjá þeirri stofnun ríkisins sem ætlunin er að taki við þjónustunni. Slíkt mat hefur verið unnið í samstarfi fjármálaskrifstofu ráðuneytisins og viðkomandi stofnunar.
    Þá er lagt mat á viðbótarávinning og hugsanlega annmarka við flutning þjónustu til ríkisins. Ávinningur getur t.d. falist í heildstæðara þjónustuframboði með því að veita þjónustu í skipulagsheildum innan heilbrigðiskerfisins fremur en í stökum samningum við einkaaðila. Flutningi til skipulagsheilda innan ríkisins geta einnig fylgt betri möguleikar til að sinna þjónustu utan dagvinnutíma, betra aðgengi að fjölbreyttri og sérhæfðri þekkingu sem nauðsynleg er við að veita viðkomandi þjónustu og betri möguleikar til reglubundinnar þjálfunar og endurnýjunar sérhæfðs mannafla.


     3.      Hvert var markmiðið með flutningi þjónustunnar?
    Flutningur þjónustu sem hér er til umfjöllunar hefur í mörgum tilfellum verið að frumkvæði viðkomandi verksala. Samningi við Karitas um líknarþjónustu var sagt upp af verksala. Í því tilfelli taldi ráðuneytið að flutningur gæfi tækifæri til að laga viðkomandi þjónustu betur að framtíðarsýn ráðuneytisins. Komið hefur fram að flutningur klínískra krabbameinsrannsókna var gerður að frumkvæði Krabbameinsfélags Íslands. Ástæða flutnings á heilbrigðisþjónustu við fanga á Hólmsheiði var að læknar sem sinnt höfðu þjónustunni voru að nálgast starfslok og vildu af þeim sökum segja sig frá verkefninu. Við byggingu nýs sjúkrahótels á lóð Landspítala breyttust forsendur frá fyrra fyrirkomulagi þar sem þjónustan var veitt í húsnæði í eigu einkaaðila. Ákveðið var að Landspítali sinnti þjónustunni tvö fyrstu rekstrarárin. Eftir þann tíma verður reynsla af rekstrinum metin og framtíðarfyrirkomulag ákveðið. Ákveðið var að flytja meðferðarúrræði fyrir unga fíkla til Landspítala eftir að SÁÁ sagði sig frá verkefninu. Þjónusta þessa hóps var veitt í húsnæði SÁÁ þar sem ekki var hægt að skilja að ungmenni 18 ára og yngri og fullorðna fíkla. Það var talið óásættanlegt í ljósi dæma um alvarlegar afleiðingar af því fyrirkomulagi.