Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1628  —  19. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rúnar H. Haraldsson frá Fjölmenningarsetri, Eddu Ólafsdóttur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Unni Sverrisdóttur og Tryggva Haraldsson frá Vinnumálastofnun, Nichole Leigh Mosty frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Áshildi Linnet og Nínu Helgadóttur frá Rauða krossinum á Íslandi og Nura G. Silva Sarmiento.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bláskógabyggð, Dalvíkurbyggð, dómsmálaráðuneytinu, Elínu Kristjánsdóttur, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Fjölmenningarsetri, fjölmenningarráði Reykjavíkurborgar, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Halldísi Evu Ágústsdóttur, HOLA – samtökum spænskumælandi á Íslandi, Irene Morera, Ísafjarðarbæ, Ísland Panorama Office, Katherine Idárraga Calderón, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Mími – símenntun ehf., Mosfellsbæ, Móðurmáli – samtökum um tvítyngi, Nura G. Silva Sarmiento, Rauða krossinum á Íslandi, Refugee Council Iceland, Reykjanesbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Sveitarfélaginu Hornafirði, Tálknafjarðarhreppi, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnun og Viðskiptaráði Íslands.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að komið verði á fót miðlægri upplýsingastofu þar sem innflytjendur geti sótt allar upplýsingar um þjónustu, réttindi og skyldur. Er gert ráð fyrir því að ráðgjafarstofa innflytjenda verði samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og þar geti innflytjendur sótt sér upplýsingar þvert á sveitarfélög.
    Í umsögnum sem bárust nefndinni kom fram mikill áhugi á efni tillögunnar og almennt samkomulag um mikilvægi verkefnisins. Nokkrir umsagnaraðilar lýstu áhuga á því að taka verkefnið að sér og að það gæti hentað vel með þeirri starfsemi sem viðkomandi væru með fyrir. Þá komu fram hugmyndir um það hvernig koma ætti á fót þjónustumiðstöð fyrir innflytjendur. Á það var bent að þau verkefni sem falin yrðu ráðgjafarstofu innflytjenda samkvæmt þingsályktunartillögunni sköruðust að einhverju leyti við starf Fjölmenningarseturs á Ísafirði og því væri nærtækara að efla starfsemi Fjölmenningarseturs en að deila kröftunum annað. Var í því sambandi bent á að heppilegra gæti verið að fela Fjölmenningarsetri þau verkefni sem lagt væri til að yrðu falin ráðgjafarstofu innflytjenda. Á hinn bóginn komu fram þau sjónarmið að mikill fjöldi innflytjenda væri búsettur utan kjarnasvæðis Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum. Að mati meiri hlutans eru öll framangreind sjónarmið málefnaleg og lýsa skilningi á þeim vanda sem innflytjendur búa við þegar þeir leita sér þjónustu í íslensku samfélagi.
    Að mati meiri hlutans er afar brýnt að unnið verði að því markmiði tillögunnar að koma á fót einnar-stöðvar-þjónustu (e. one-stop-shop), til að efla þjónustu og ráðgjöf við innflytjendur. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þar verði sérstaklega skoðað hvort hægt verði að koma upp starfsstöðvum víðar á landinu en á höfuðborgarsvæðinu, enda fjöldi erlendra ríkisborgara sem starfar utan þess, oft í mannfrekum verkefnum í fámennum sveitarfélögum, m.a. í byggingarverkefnum og í ferðaþjónustu. Líkt og rakið er í greinargerð með tillögunni er lagt til að sérstaklega verði horft til starfs Fjölmenningarseturs þegar starfsemi ráðgjafarstofu verði ákveðin og að stofan geti verið deild innan Fjölmenningarseturs. Meiri hlutinn telur þetta verkefni afar mikilvægt og leggur til breytingar á texta tillögunnar með hliðsjón af því. Meiri hlutinn telur rétt að félagsmálaráðuneytinu verði falin útfærsla verkefnisins en geti eftir atvikum leitað eftir samráði við dómsmálaráðuneytið eða undirstofnanir þess.
    Þá leggur meiri hlutinn mikla áherslu á að við úrvinnslu málsins verði horft til fjölbreyttra samskiptalausna þannig að notendur þjónustunnar geti leitað eftir henni hvar sem þeir eru staddir á landinu.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að vinna áætlun um stofnun ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur sem verði samstarfsvettvangur milli stofnana ríkis og sveitarfélaga. Hlutverk ráðgjafarstofu verði að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur. Áætlunin verði unnin í samvinnu við innflytjendaráð, opinberar stofnanir, sveitarfélögin, félagasamtök og aðila vinnumarkaðarins. Ráðherra kynni Alþingi áætlun um verkefnið eigi síðar en 1. janúar 2020.

    Guðjón S. Brjánsson ritar undir álit þetta með fyrirvara.
    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis

Alþingi, 23. maí 2019.

Halldóra Mogensen,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Andrés Ingi Jónsson. Guðjón S. Brjánsson,
með fyrirvara.
Guðmundur Ingi Kristinsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.