Ferill 879. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1683  —  879. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um þjónustusamninga við rekstraraðila dagdvalarrýma.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig standa nú viðræður um þjónustusamninga á milli Sjúkratrygginga Íslands og rekstraraðila dagdvalarrýma sem hafa verið í biðstöðu frá því í mars 2018?
     2.      Hyggst ráðherra greiða fyrir samningaviðræðunum með því að veita viðbótarfjármagn til verkefnisins svo hægt sé að tryggja samræmi á milli fjármögnunar og þeirra krafna sem gerðar eru til þjónustunnar? Ef ekki, telur ráðherra koma til greina að minnka heildarfjölda rýma eða draga að öðru leyti úr kröfum til þjónustunnar?


    Samningaviðræður við rekstraraðila dagdvalarrýma bíða niðurstöðu viðræðna um rammasamning um þjónustu hjúkrunarheimila sem nú eru yfirstandandi.
    Unnið hefur verið að því að mæta vaxandi þörf fyrir dagdvalarrými með því að færa til þjónustu þar sem ekki hefur verið not fyrir hana þangað sem eftirspurnin er meiri. Sem dæmi um það er flutningur fimm dagdvalarrýma innan heilbrigðisumdæmis Vesturlands nú á vormánuðum. Auk þess hafa rekstraraðilar sjálfir séð tækifæri í breyttri þjónustu við aldraða eins og Hrafnista í Reykjavík sem opnaði fyrr í þessum mánuði 30 sérhæfð dagdvalarrými fyrir fólk með heilabilun í stað reksturs hjúkrunarrýma í húsnæði sem ekki stóðst lengur nútímakröfur til húsnæðis hjúkrunarrýma.
    Áður en gripið væri til þess að fækka dagdvalarrýmum eða breyta kröfum til þjónustunnar væri farsælt að greina þjónustuna nánar með tilliti til þeirra markmiða, gæða og árangurs sem henni er ætlað að ná. Ástæður þess að fólk þarf á dagdvalarþjónustu að halda eru margvíslegar og ekki allar heilbrigðistengdar þó að þær geti vissulega þróast út í heilbrigðisvandamál sé þörfunum ekki mætt. Í ljósi þeirrar stefnu stjórnvalda að styðja fólk sem lengst til sjálfstæðrar búsetu og mismunandi ástæðna þess að fólk þarf á dagdvalarþjónustu að halda er mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að finna lausn á því að mæta þeirri þjónustuþörf og skýri ábyrgðarsvið hvors um sig með tilliti til þessa.