Ferill 888. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1736  —  888. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í ráðuneytinu.


     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
    Það eru fimm skrifstofur í ráðuneytinu auk Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar sem rekin er sem sjálfstæð eining innan ráðuneytisins. Skrifstofustjórar eru fjórir og einn framkvæmdastjóri sem stýrir Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar.
    Á skrifstofu ráðuneytisstjóra starfa þrír starfsmenn auk ráðuneytisstjóra sem stýrir þeirri skrifstofu. Enginn skrifstofustjóri er á skrifstofu ráðuneytisstjóra.
    Undir skrifstofu fjárlaga heyrir fjárlaga- og áætlanagerð, kostnaðarmat frumvarpa og eftirlit með rekstri ráðuneytis og stofnana. Á skrifstofu fjárlaga eru þrír starfsmenn auk skrifstofustjóra.
    Undir skrifstofu barna- og fjölskyldumála heyra eftirfarandi málaflokkar: Barnavernd, Barnaverndarstofa, þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, málefni aldraðra, málefni innflytjenda og flóttafólks, Fjölmenningarsetur, félagsþjónusta sveitarfélaga og ráðgjöf og úrræði vegna fjármála heimilanna, þ.m.t. greiðsluaðlögun einstaklinga og umboðsmaður skuldara. Á skrifstofu barna- og fjölskyldumála starfa níu manns auk skrifstofustjóra.
    Undir skrifstofu húsnæðis- og lífeyrismála heyra eftirfarandi málaflokkar: Lífeyristryggingar og eftirlaun aldraðra, Tryggingastofnun ríkisins, fjárhagsaðstoð við lifandi líffæragjafa, félagsleg aðstoð, greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna, húsnæðislán, greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, Íbúðalánasjóður, húsaleigumál, húsnæðisbætur, húsnæðissamvinnufélög og byggingarsamvinnufélög, almennar íbúðir, húsnæðissjálfseignarstofnanir, Húsnæðismálasjóður, fjöleignarhús, frístundabyggð, kærunefnd húsamála, eftirlit með mannvirkjum og gerð þeirra, brunavarnir, eftirlit með byggingarvörum, eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raflagna í mannvirkjum og Mannvirkjastofnun. Á skrifstofu húsnæðis- og lífeyrismála starfa fimm manns auk skrifstofustjóra.
    Undir skrifstofu vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar heyra eftirfarandi málaflokkar: Réttindi og skyldur á vinnumarkaði, starfsmannaleigur, aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum, Vinnueftirlit ríkisins, vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, Félagsdómur, vinnumarkaðsaðgerðir, sáttastörf í vinnudeilum, ríkissáttasemjari, atvinnuleysistryggingar, atvinnutengd starfsendurhæfing, atvinnuréttindi útlendinga, ábyrgð á launum við gjaldþrot, fæðingar- og foreldraorlof, ættleiðingarstyrkir, Vinnumálastofnun, Félagsmálaskóli alþýðu og orlof húsmæðra. Á skrifstofu vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar starfa fimm manns auk skrifstofustjóra.
    Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar tilheyrir einnig ráðuneytinu en er rekin sem sjálfstæð eining. Á Gæða- og eftirlitsstofnun starfa átta manns auk framkvæmdastjóra.

     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
    Engir.

     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
    Hlutverki, starfssviði og almennum starfsskyldum skrifstofustjóra er lýst í erindisbréfum þeirra. Engin tilgreind aukastörf og hlunnindi fylgja starfi skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu.

     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
    Félagsmálaráðuneytið tók til starfa í ársbyrjun 2019 þegar velferðarráðuneytinu var skipt upp. Of skammur tími er liðinn frá stofnun ráðuneytisins til að meta yfirvinnu skrifstofustjóranna að jafnaði. Skrifstofustjórarnir hafa hafið störf hjá ráðuneytinu á tímabilinu 1. janúar 2019 til 1. júní 2019, einn hóf störf 1. janúar, tveir 1. maí og einn mun hefja störf 1. júní. Reynslan hefur sýnt að yfirvinna skrifstofustjóra er talsverð.

     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?
    Skrifstofur félagsmálaráðuneytisins tengjast undirstofnunum ráðuneytisins eftir málaflokkum og verkefnum hverrar skrifstofu, sbr. svar við 1. lið hér að framan.