Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1846  —  53. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun lögræðislaga.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Báru Sigurjónsdóttur, Elísabetu Gísladóttur og Fanneyju Óskarsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Guðlín Steinsdóttur og Önnu Birgit Ómarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Tryggva Gunnarsson, Hjalta Geir Erlendsson og Önnu Kristínu Newton frá umboðsmanni Alþingis, Tómas Hrafn Sveinsson frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sigurjón Unnar Sveinsson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur, Einar Þór Jónsson, Héðin Unnsteinsson og Ágúst Kristján Steinarsson frá Geðhjálp og Dagrúnu Hálfdánardóttur og Lilju Rún Sigurðardóttur frá embætti landlæknis.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri, Geðhjálp, Grófinni – geðverndarmiðstöð, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi kjósi sérnefnd þingmanna, sem í sitja fulltrúar allra flokka sem eiga sæti á Alþingi, í samræmi við 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sem vinni að heildarendurskoðun lögræðislaga. Nefndin leggi fram frumvarp á grundvelli endurskoðunarinnar ásamt kostnaðargreiningu eigi síðar en á haustþingi 2019 en hún skuli flýta eins og kostur er framlagningu frumvarps um afnám á ólögmætri mismunun gegn fötluðum.
    Samhljómur var á meðal umsagnaraðila og gesta að tímabært væri að hefja heildstæða endurskoðun lögræðislaga og að við þá vinnu yrði sérstaklega litið til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við meðferð málsins var nefndinni aftur á móti bent á mikilvægi þess að jafnframt þyrfti að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar væru til að tryggja annars vegar réttindi þeirra sem sæti ýmiss konar þvingaðri meðferð, frelsissviptingu eða frelsisskerðingu og hins vegar að tryggja samspil og samræmi milli laga, þar á meðal barnaverndarlaga, nr. 80/2002, laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, og almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sérstaklega þyrfti að samþætta fjölbreytt umhverfi en nauðsynlegt væri að huga að undirbúningsvinnu þar sem viðfangsefnið væri kortlagt. Um væri að ræða margfalt flóknara og stærra viðfangsefni í þágu þeirra sem í hlut eiga. Meta þyrfti jafnframt laga- og stofnanaumgjörð innan heilbrigðiskerfis, réttarvörslukerfis og félagslega kerfisins.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að víkka efni þingsályktunartillögunnar þannig að sérnefnd þingmanna verði falið að leggja heildstætt mat á endurskoðun og þörf fyrir nauðsynlegar lagabreytingar. Ljóst er að slík vinna kann að vera umfangsmikil og leggur nefndin því einnig til breytingar þess efnis að víðtækt samráð verði haft við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila, þar á meðal samtök fatlaðs fólks, en jafnframt verði haft samráð við dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið. Þá er lagt til að ráðuneytin verði sérnefndinni innan handar hvað varðar tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum sem sérnefndin taki svo til frekari vinnslu og leggi síðan fram sem hluta af heildarendurskoðun sinni á lögræðislögum.
    Þá telur nefndin einnig nauðsynlegt að gefa sérnefndinni lengri tíma til vinnu sinnar, sérstaklega í ljósi þess að von er á CPT-nefndinni um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (e. European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment) til landsins á þessu ári sem mun m.a. taka til skoðunar lögræðislögin. Þá hefur umboðsmaður Alþingis á höndum hið svokallaða OPCAT-eftirlit með frelsissviptum og vænta má skýrslu úr fyrsta eftirlitinu í þeim efnum. Nefndin leggur mikla áherslu á að við heildarendurskoðunina verði tekið mið af skýrslum þessara aðila við vinnuna. Í því ljósi leggur nefndin til að tímafrestur í 2. mgr. tillögugreinarinnar verði við lok árs 2020.
    Páll Magnússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að heildarendurskoðun lögræðislaga, nr. 71/1997, skuli fara fram með það að markmiði að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögunum sem og á öðrum lögum, þar á meðal lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, barnaverndarlögum, 80/2002, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Alþingi samþykkir að kjósa til þess sérnefnd þingmanna skv. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Í nefndina kjósi Alþingi þingmenn úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi og skuli nefndin hafa víðtækt samráð við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila við vinnu að endurskoðuninni, þar á meðal við samtök fatlaðs fólks. Nefndin hafi jafnframt samráð við dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið og skuli ráðuneytin vera nefndinni til ráðgjafar við mat á nauðsynlegum lagabreytingum. Auk almennrar heildarendurskoðunar verði sérstaklega litið til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um:
     a.      afnám allrar mismununar gagnvart fólki með fötlun,
     b.      rétt fatlaðra einstaklinga til þess að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra,
     c.      stuðning við ákvarðanatöku í stað staðgengilsákvarðanatöku,
     d.      rétt fatlaðra einstaklinga til frelsis til jafns við aðra,
     e.      afnám þvingandi meðferðar og lyfjameðferðar á grundvelli fötlunar og
     f.      rétt fatlaðs fólks til viðeigandi aðlögunar.
    
    Nefndin leggi fram frumvarp á grundvelli endurskoðunarinnar ásamt kostnaðargreiningu eigi síðar en við lok árs 2020. Nefndin leggi áherslu á að flýta eins og kostur er breytingum sem ætlað er að afnema ólögmæta mismunun gegn fötluðum og þeim sem sæta ýmiss konar þvingaðri meðferð, frelsissviptingu eða frelsisskerðingu og leggi fram frumvarp þar að lútandi svo fljótt sem auðið er. Forseti Alþingis tryggi nefndinni nauðsynlega aðstöðu og sérfræðiaðstoð til að sinna endurskoðuninni.

Alþingi, 14. júní 2019.

Páll Magnússon,
form.
Helgi Hrafn Gunnarsson, frsm. Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.