Ferill 704. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1900  —  704. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um laxa- og fiskilús.


     1.      Hvernig er fylgst með útbreiðslu og magni laxa- og fiskilúsar í sjókvíastöðvum og í grennd þeirra?
    Fiskeldisfyrirtæki sem ala lax í kvíum hafa tekið upp reglulegar lúsatalningar sem hluta af sínu verklagi. Upplýsingar úr talningum eru hjá mörgum fyrirtækjum birtar á vefsíðum þeirra en einnig sendar inn til Matvælastofnunar til upplýsinga. Þessu til viðbótar hefur Matvælastofnun einnig talið lús í reglubundnu heilbrigðiseftirliti þegar ástæða þykir til, m.a. til að staðfesta talningar eldisfyrirtækja. Einnig hafa ýmsar rannsóknir á stöðu lúsar í villtri náttúru verið gerðar á vegum rannsóknarstofnana eins og Hafrannsóknastofnunar, Náttúrustofu Vestfjarða og fleiri aðila í náttúrurannsóknum.

     2.      Finnast tölur yfir áætlað magn og útbreiðslu laxa- og fiskilúsar í sjókvíastöðvum og í grennd þeirra á árunum 2010 til 2019? Ef svo er, hvar er þá hægt að nálgast slík gögn?
    Slíkar tölur hafa ekki verið teknar saman sérstaklega af Matvælastofnun eða verið settar í gagnagrunn eða á upplýsingaveitur. Bent er á að mörg fiskeldisfyrirtæki hafa birt lúsatölur á vefsíðum sínum. Í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.) sem lagt var fram á 149. löggjafarþingi er sérstaklega fjallað um framkvæmd eftirlits og skýrslugjöf í 16. gr. og jafnframt er fjallað um birtingu upplýsingu úr eftirliti í 17. gr. b frumvarpsins. Þessi ákvæði mæla nánar fyrir um hvernig eftirliti og birtingu upplýsinga um sníkjudýr, svo sem laxalús skuli háttað. Þar er gert ráð fyrir skyldu Matvælastofnunar til opinberar birtingar upplýsinga.

     3.      Finnast tölur um árleg afföll eldisfisks í sjókvíaeldi af völdum laxa- og fiskilúsar? Ef svo er, hversu mikið af fiski drapst eða var dæmdur óhæfur til manneldis árlega frá 2010 til 2019 af þeim sökum og hve hátt hlutfall var þetta af heildarframleiðslu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun eru bein afföll af völdum lúsasmits ekki auðgreinanleg og hafa að öllum líkindum ekki verið mikil í ljósi þess hve lítið lúsasmit hefur verið á íslenskum eldisfiski. Banvænt lúsasmit telst þegar lúsamagn (þá er helst átt við laxalús) er orðið svo mikið að öll líkamsstarfsemi fisksins er komin úr ójafnvægi vegna streituviðbragða, bólguviðbragða og röskunar á seltujafnvægi þegar sár í húð þekja stóran hluta fisksins. Einnig eru áhrifin mismunandi eftir því hvaða lífsskeiði lúsin er á sem situr á laxinum. Þegar smit nær 0,12 lúsum á fersentimetra fisks telst það banvænt smit. Óbein afföll sem tengja má við lúsasmit felast helst í því að fiskur drepst vegna of mikillar meðhöndlunar, t.d. við talningu eða aflúsun. Jafnvel þá eru tölurnar ógegnsæjar því neikvæðu áhrifin geta verið lengi að koma fram. Því er ekki hægt að segja til um magn fisks í tonnum eða fjölda einstaklinga sem drepist hafa eða verið dæmdir óhæfir til manneldis af völdum laxa- og fiskilúsar á þessu árabili.

     4.      Hversu oft var Matvælastofnun tilkynnt árlega frá 2010 til 2019 af dýralækni um tilvik laxa- og fiskilúsar í samræmi við reglugerð um tilkynningar- og skráningarskyldu dýrasjúkdóma?
    Matvælastofnun hefur fengið reglulegar upplýsingar um heilbrigðisástand með tilliti til laxalúsar. Bæði hafa upplýsingarnar komið eftir reglulegar lúsatalningar fyrirtækja (sem taka mið af árstíma og þá sérstaklega með tilliti til sjávarhita) á lúsaástandi en Matvælastofnun hefur einnig talið lús í reglubundnu heilbrigðiseftirliti þegar ástæða þykir til, m.a. til að staðfesta talningar eldisfyrirtækja. Allt fram til vors 2017 hafði engri formlegri tilkynningu um lúsasmit verið komið á framfæri við Matvælastofnun, en vel var fylgst með bæði laxa- og fiskilús á þessum tíma án þess að tilefni væri til sérstakra tilkynninga. Þessi staða var sannreynd við hvert eftirlit dýralækna til eldisstöðvanna á sjókvíaeldissvæðum. Jafnframt er mikilvægt að benda á að báðar lúsategundirnar eru hluti af náttúrulegu vistkerfi sjávar og því má ávallt greina einhverja lús. Á árunum 2017–2018 bárust sex tilkynningar um hækkandi lúsasmit á Vestfjörðum og tók fisksjúkdómanefnd þessar tilkynningar til faglegrar afgreiðslu og gaf Matvælastofnun ráðgjöf um viðbrögð. Árið 2014 voru útbúnar leiðbeiningar fyrir sjókvíaeldisfyrirtæki um aðferðir og tíðni talninga sem tóku mið af sambærilegum leiðbeiningum frá Noregi.

     5.      Hversu oft var beitt lyfjum eða eitri gegn laxalús í sjókvíaeldi hér við land á árunum 2010–2019? Óskað er upplýsinga um hvert tilvik fyrir sig; dagsetningar, staði, fyrirtæki, tegund lyfja/eiturs og magn þessa í hverju tilviki sem leyfi ná yfir.
    Samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma fyrir árið 2018 kemur fram að í byrjun sumars 2018 hafi reynst nauðsynlegt í annað skiptið í tæp 30 ár að meðhöndla lax gegn laxalús hér á landi. Þegar öll gögn lágu fyrir og eftir jákvæða umfjöllun fisksjúkdómanefndar veitti Matvælastofnun heimild til staðböðunar með Alpha Max (Deltametrin 10%) á tveimur sjókvíaeldissvæðum við sunnanverða Vestfirði, annars vegar í Tálknafirði og hins vegar í Arnarfirði (alls 5,1 kg af virku efni). Í september og október var síðan einnig talið nauðsynlegt að meðhöndla lax á tveimur öðrum svæðum í Arnarfirði, en nú gegn fiskilús. Í kjölfar jákvæðrar umsagnar fisksjúkdómanefndar heimilaði MAST meðhöndlun sem að þessu sinni fór fram með þeim hætti að laxinn var fóðraður með tilbúnu SLICE-fóðri (Emamectin benzoate 0,2%) í vikutíma (alls 2,5 kg af virku efni). Í báðum tilvikum var um fiskeldisstöðvar í eigu Arnarlax að ræða.
    Árið 2017 var tvisvar meðhöndlað gegn lús. Fyrra tilfellið var með Alpha Max gegn laxalús hjá Arnarlaxi í Hringsdal í Arnarfirði, var það fyrsta meðhöndlun gegn lús í tæp 30 ár hér á landi. Sú seinni var með Slice-lyfjafóðri gegn fiskilús hjá Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Arnarlax notaði samtals 2,4 kg af virku efni en Arctic Sea Farm notaði alls 0,13 kg af virku efni.

     6.      Hefur í einhverjum tilvikum á framangreindu árabili verið beitt lyfjum eða eiturefnum gegn laxa- og fiskilús sem vitað er til að geti haft skaðleg áhrif á vistkerfi, þ.m.t. annað dýralíf, svo sem krabbadýr á borð við rækju?

    Öll notkun lyfja í lagareldisdýr er óheimil nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar. Ef slíkt leyfi er veitt skal dýralæknir stöðvarinnar einnig sækja um sérstaka undanþágu til Lyfjastofnunar, í þessu tilfelli um notkun á forblöndunni Slice vet. (premix). Lyfjastofnun þarf að samþykkja notkunina skv. 7. mgr. 7. gr. lyfjalaga. Áður en Lyfjastofnun samþykkir notkun skal hún senda undanþágulyfseðil til Matvælastofnunar og óska umsagnar. Matvælastofnun veitir umsögn að höfðu samráði við fisksjúkdómanefnd og Lyfjastofnun veitir einungis heimild ef slík umsögn er jákvæð. Að auki þarf að fylla út sérstakan lyfseðil vegna innflutnings á lyfjablönduðu fóðri, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 608/2013, og skal sá lyfseðill í framangreindum tilfellum berast til fóðurframleiðanda með afriti til Lyfjastofnunar. Útflutningsvottorð fóðurframleiðanda, sbr. fylgiskjal 2 við reglugerð nr. 608/2013, skal innflytjandi geyma og hafa aðgengilegt fyrir Lyfjastofnun í þrjú ár.
    Þau lyf sem notuð eru til meðhöndlunar gegn laxa- og fiskilús hafa farið í gegnum framleiðslu- og leyfisveitingarferli hjá Evrópsku lyfjastofnuninni. Í því felst m.a. að lyfjaframleiðandi þarf að sýna fram á öryggi lyfsins fyrir umhverfi og vistkerfi. Flest lyf sem notuð eru gegn laxa- og fiskilús hafa neikvæða virkni á lífeðlisfræðilega þætti sem eru sameiginlegir lúsum og öðrum krabbadýrum. Mismunandi er hversu alvarleg sú virkni er en ýmis öryggisatriði eru höfð til hliðsjónar við notkun lyfjanna til að draga úr þeim áhrifum. Sem dæmi má nefna að styrkur baðlyfja sem gefin eru í sérstök meðhöndlunarböð er mestur þegar lyfin komast í snertingu við lúsasmitaðan fisk. Virkni lyfjanna minnkar svo hratt með tíma (á mín. og klst.) þegar þau brotna niður. Auk þess á sér stað svo mikil þynning á virkum efnum þegar lausnin fer í sjóinn að baðmeðhöndlun lokinni að skaðleg áhrif á lífverur eru takmörkuð. Í leiðbeiningatexta sem fylgir lyfjunum eru tiltekin fleiri öryggisatriði sem eiga að draga úr áhættu fyrir umhverfið, svo sem leiðbeiningar um hvenær sé best að nota baðlyfin með tilliti til sjávarfalla til að draga úr hættu á að efni berist upp í fjörur. Samspil lyfja og vistkerfa hefur mikið verið rannsakað í Noregi þar sem dregið hefur úr notkun lyfja í baráttunni við lús. Ábyrg notkun lyfja út frá umhverfis- og heilbrigðissjónarmiðum er mikilvægt verkefni yfirvalda sem heimila notkun lyfja og þeirra dýralækna sem ávísa lyfjum.