Ferill 715. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1904  —  715. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um birtingu dóma og úrskurða héraðsdómstóla.


     1.      Hversu oft hafa dómstjórar nýtt ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglna dómstólasýslunnar um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu héraðsdómstólanna, nr. 3/2018, um að þegar sérstaklega standi á geti dómstjóri ákveðið að vikið skuli frá ákvæði 1. mgr. 3. gr. um takmarkanir á birtingu? Yfirlit óskast um öll slík tilvik frá því að þessi eða sambærileg regla tók fyrst gildi.
    Tekið skal fram að eftirfarandi svar miðast við fjölda tilvika frá því að umrædd 2. mgr. 3. gr. reglna dómstólasýslunnar tók gildi þann 4. desember 2017 og fram til loka apríl 2019. Ekki eru tilgreind þau mál sem um ræðir. Þá tekur svarið mið af því að eldra málaskrárkerfi héraðsdómstóla, sem nú er unnið að því að skipta út fyrir nýtt upplýsingakerfi, bauð ekki upp á samantekt tölfræðiupplýsinga af því tagi sem óskað er eftir í fyrirspurninni. Engu að síður má ráða af eftirfarandi yfirliti að téðu ákvæði 2. mgr. 3. gr. er sjaldan beitt. Fjöldi tilvika, flokkuð eftir héraðsdómstólum, er eftirfarandi:
          Héraðsdómur Reykjavíkur: Eitt tilvik.
          Héraðsdómur Vesturlands: Ekki haldin skráning eða yfirlit yfir fjölda tilvika.
          Héraðsdómur Vestfjarða: Ekki haldin skráning eða yfirlit yfir fjölda tilvika.
          Héraðsdómur Norðurlands vestra: Ekkert tilvik.
          Héraðsdómur Norðurlands eystra: Eitt tilvik.
          Héraðsdómur Austurlands: Ekki haldin skráning eða yfirlit yfir fjölda tilvika.
          Héraðsdómur Suðurlands: Ekkert tilvik.
          Héraðsdómur Reykjaness: Eitt tilvik.

     2.      Hver hefur eftirlit með réttmæti slíkrar ákvörðunar dómstjóra skv. 1. tölul.?
    Dómstjóri tekur ákvörðun um og ber ábyrgð á beitingu undantekningarákvæðis 2. mgr. 3. gr. um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu héraðsdómstólanna. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir sérstöku eftirliti með beitingu ákvæðisins í reglum dómstólasýslunnar.
    Aftur á móti skal bent á að lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, gilda um vinnslu persónuupplýsinga hjá dómstólum nema þegar þeir fara með dómsvald sitt, sbr. 4. gr. laganna. Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu í málum 2016/1783 og 2017/1999 að birting dóma á internetinu feli ekki í sér dómsathöfn, enda lúti slíkar ákvarðanir ekki að efni dóma heldur afmarkist við hvaða upplýsingar skuli birtar á internetinu. Birting dóma og úrskurða felur þar af leiðandi í sér meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar að hafa eftirlit með.

     3.      Hafa borist beiðnir um að aflétta nafnbirtingu þegar eitt ár er liðið frá birtingu dóms, sbr. 4. gr. reglna nr. 3/2018, og ef svo er, hvernig er skipting á milli brotaflokka?
    Meðfylgjandi eru umræddar upplýsingar, sundurliðaðar eftir héraðsdómstólum. Áréttað skal að ekki hefur verið haldið markvisst utan um tölfræði slíkra beiðna eða skiptingu eftir brotaflokkum. Þá skal tekið fram að nafnbirtingu er aflétt sjálfkrafa samkvæmt beiðni enda er ekki gert ráð fyrir mati dómstóla þar að lútandi.
          Héraðsdómur Reykjavíkur: Reglulega berast beiðnir um afléttingu nafnleyndar þegar eitt ár er liðið frá birtingu dóms. Aftur á móti hefur ekki verið haldið sérstaklega utan um fjölda tilvika eða skiptingu þeirra eftir brotaflokkum.
          Héraðsdómur Vesturlands: Engin beiðni borist.
          Héraðsdómur Vestfjarða: Engin beiðni borist.
          Héraðsdómur Norðurlands vestra: Engin beiðni borist.
          Héraðsdómur Norðurlands eystra: Fá dæmi um beiðnir um afléttingu nafnbirtingar þegar eitt ár er liðið frá birtingu dóms. Aftur á móti hefur ekki verið haldið sérstaklega utan um fjölda tilvika eða skiptingu þeirra eftir brotaflokkum.
          Héraðsdómur Austurlands: Engin beiðni borist.
          Héraðsdómur Suðurlands: Nokkrar beiðnir hafa borist um afléttingu nafnbirtingar, fyrst og fremst í sakamálum. Aftur á móti hefur ekki verið haldið sérstaklega utan um fjölda tilvika eða skiptingu þeirra eftir brotaflokkum.
          Héraðsdómur Reykjaness: Ein beiðni.