Ferill 942. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2006  —  942. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um málefni fólks með ADHD.


     1.      Hversu mörg börn eru á biðlista eftir greiningu og þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöð og hvernig hefur biðlistinn þróast sl. tvö ár?
    Í byrjun júní 2019 voru 350 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðinni. Þau börn sem fara í forgang bíða í um það bil fjóra til sex mánuði en biðtíminn getur verið allt að 12 til 14 mánuðir fyrir þau börn sem bíða lengst. Þrátt fyrir 60 millj. kr. hækkun fjárveitinga til Þroska- og hegðunarstöðvarinnar frá og með árinu 2016 hefur biðlistinn því miður verið að lengjast en í lok árs 2017 var 271 barn á biðlistanum. Helstu ástæður þess eru að þau mál sem vísað er til Þroska- og hegðunarstöðvarinnar eru þyngri og flóknari en áður. Fleiri börn eru með einkenni á einhverfurófi og fleiri börn eru með flókinn vanda á mörgum sviðum. Greiningarferlið er því flóknara, tekur lengri tíma og fleiri fagaðilar þurfa að koma að því. Mannafli stöðvarinnar hefur því ekki að fullu náð að halda í við þann fjölda sem vísað er til stöðvarinnar.

     2.      Hvernig skiptist biðlistinn milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins og hvernig hefur sú skipting þróast sl. tvö ár?
    Um það bil 25% tilvísana koma frá landsbyggðinni og hefur það verið nokkuð stöðugt undanfarin ár.

     3.      Hvert er skilgreint hlutverk Þroska- og hegðunarstöðvar hvað varðar þjónustu og greiningu á börnum með ADHD þegar horft er til höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar?
    Þroska- og hegðunarstöðin heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er fjármögnuð af henni. Þjónusta Þroska- og hegðunarstöðvarinnar fellur því undir almennar lagalegar skilgreiningar um þjónustu heilsugæslunnar. Vísa má barni í greiningu til Þroska- og hegðunarstöðvarinnar ef vísbendingar eru um frávik í þroska eða hegðun sem hamla því í daglegu lífi og tiltæk íhlutun dugar ekki. Þjónustan miðast aðallega við höfuðborgarsvæðið en einnig við önnur landsvæði ef ekki býðst sambærileg þjónusta á heimaslóð. Ef vandinn er ekki því flóknari er hægt að sinna börnum með ADHD og skyldar raskanir á þeim stöðum þar sem eru starfandi sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn með þekkingu á því sviði.

     4.      Hversu margir fullorðnir eru á biðlista eftir greiningu og þjónustu hjá ADHD-teymi Landspítala og hvernig hefur biðlistinn þróast sl. tvö ár?
    Í byrjun júní 2019 voru 566 einstaklingar á biðlista eftir greiningu hjá ADHD-teymi Landspítala. Biðlistinn hefur haldist nokkurn veginn stöðugur síðastliðin tvö ár en í árslok 2018 voru 566 á biðlista eftir greiningu og í árslok 2017 voru 584 á biðlista. Teymið fær á bilinu 300–350 tilvísanir á hverju ári.

     5.      Hvernig skiptist biðlistinn milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins og hvernig hefur sú skipting þróast sl. tvö ár?
    Langflestar tilvísanir koma af höfuðborgarsvæðinu eða á bilinu 73–78% allra tilvísana. Næstflestar tilvísanir koma af Suðurlandi eða um 12–14 % allra tilvísana. Um 4–7% koma frá Vesturlandi, 2–3% frá Norðurlandi og 1–3 % frá Austurlandi. Þessi skipting hefur haldist nokkuð stöðug síðastliðin tvö ár.

     6.      Hvaða áform hefur ráðherra, ef einhver, um að eyða biðlistum eftir greiningu og þjónustu vegna ADHD, annars vegar hjá börnum og hins vegar fullorðnum, og þá hver?
    Alþingi samþykkti nýlega þingsályktunartillögu sem heilbrigðisráðherra lagði fram um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Heilbrigðisstefnan markar þau áhersluatriði sem stefnt er að í veitingu heilbrigðisþjónustu á þessu tímabili. Fram undan er því að vinna að aðgerðum sem leiða að því marki sem stefnan vísar á. Í nýsamþykktri heilbrigðisstefnu kemur meðal annars fram að veita eigi heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi og tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Hvort tveggja er grundvallaratriði sem einnig mun hafa áhrif á möguleika til að efla greiningu og þjónustu við fólk með ADHD.
    Eins og áður hefur komið fram voru fjárveitingar til Þroska- og hegðunarstöðvarinnar auknar á árinu 2016. Með þeirri aukningu var stefnt að því að stytta biðtíma eftir þjónustunni. Í ljósi þess að biðtími er enn of langur þarf líka að skoða aðra þætti sem áhrif geta haft á þjónustuna, biðlista og biðtíma.
    Með eflingu geðheilsuteyma, sem verið er að koma á fót í öllum heilbrigðisumdæmum landsins og veita 2. stigs heilbrigðisþjónustu, ætti biðtími eftir greiningu á ADHD að styttast þegar fram líða stundir.