Ferill 917. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2053  —  917. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um réttindi barna sem fæðast á Íslandi og eiga erlenda foreldra.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við vegna réttaróvissu barna sem fæðast hér á landi og eiga erlenda foreldra og njóta verndar gegn frávísun og brottvísun á grundvelli 102. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, en eiga þó ekki rétt á dvalarleyfi hér á landi?
    Dvalarleyfiskafli útlendingalaga er nú til skoðunar í heild sinni hjá dómsmálaráðuneytinu en nauðsynlegt þótti að yfirfara hann til þess að sníða af ýmsa vankanta sem m.a. hafa komið í ljós við framkvæmd laganna. Við þá vinnu stendur til að taka til skoðunar hvort rétt sé að bæta við nýju ákvæði í lögin sem taki til barna sem fæðast hér á landi meðan foreldrar þeirra eru með dvalarleyfi þó að leyfið veiti ekki rétt til fjölskyldusameiningar.

     2.      Telur ráðherra það samræmast lögum um réttindi barna, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og stjórnarskrá Íslands að neita barni, fæddu á Íslandi, um dvalarleyfi þrátt fyrir að foreldrar þess hafi slíkt leyfi við fæðingu barnsins? Ef svo er, á hvaða forsendum?
    Eins og áður segir hefur dómsmálaráðherra þegar sett af stað skoðun á dvalarleyfiskafla útlendingalaga í dómsmálaráðuneytinu og þar verður skoðað sérstaklega hvort börn sem svo er ástatt um ættu ekki að eignast sama rétt og foreldrar þeirra til þess að fá dvalarleyfi hér á landi.

     3.      Hvernig er hagsmunagæsla barna sem falla utan kerfis tryggð, þ.e. barna sem búsett eru á Íslandi, jafnvel frá fæðingu, en foreldrar þeirra eru án dvalarleyfis, með hliðsjón af skilgreiningu á hagsmunagæslu barns samkvæmt lögum um útlendinga sem felur m.a. í sér að sjá verði til þess að barn fái nauðsynlega aðstoð á meðan málsmeðferð stendur, þ.m.t. stuðning á grundvelli barnaverndarlaga og annarra laga, svo sem um félagslega aðstoð, skólaþjónustu og heilbrigðisþjónustu? Eru til sérstök úrræði fyrir börn í slíkum aðstæðum? Ef ekki, hyggst ráðherra beita sér svo réttindi barna í áðurnefndum aðstæðum verði tryggð í samræmi við lög og alþjóðaskuldbindingar Íslands?
    Í þeim tilvikum þegar börn eru hér á landi í leit að vernd, hvort sem það er með eða án foreldra sinna, eiga þau rétt á heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningi Útlendingastofnunar og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þau börn eiga svo rétt á annarri þjónustu, t.d. skólaþjónustu samkvæmt samningum sem Útlendingastofnun hefur gert við t.d. Rauða kross Íslands og sveitarfélögin Hafnarfjörð, Reykjavík og Reykjanesbæ. Í öðrum tilvikum, þegar börn dvelja hér á landi án dvalarleyfis og foreldrar þeirra eru ekki heldur með dvalarleyfi, er unnt að leita til félagsþjónustunnar eftir aðstoð þurfi þau á henni að halda og eftir atvikum til annarra kerfa ríkis og sveitarfélaga. Málefni og réttindi barna í þessari stöðu heyra m.a. undir félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.