Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 77  —  77. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (afnám skerðingar lífeyris vegna miskabóta).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við útreikning á fjárhæð bóta samkvæmt þessum kafla og ráðstöfunarfjár skv. 48. gr. skal ekki reikna með miskabætur sem lífeyrisþega eru dæmdar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að miskabætur sem einstaklingum eru dæmdar komi ekki til skerðingar á lífeyri þeirra samkvæmt lögunum. Frumvarpið var lagt fram á 149. löggjafarþingi (451. mál) og er lagt fram að nýju óbreytt.
    Markmið frumvarpsins er að styðja við öryrkja og ellilífeyrisþega með því að koma í veg fyrir skerðingu lífeyris vegna miskabóta sem þeim eru dæmdar vegna áfalla sem þeir lenda í.
    Þau tilvik sem geta orðið til þess að einstaklingi verði greiddar miskabætur eru ófyrirsjáanleg. Ekki er því um eiginlegan kostnað að ræða fyrir ríkissjóð heldur verður kostnaðurinn í formi þess að ekki kemur til endurgreiðslu á lífeyri vegna dæmdra miskabóta. Er kostnaður því ekki meiri en hefði verið hefðu miskabætur ekki verið dæmdar.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2020. Flutningsmenn beina því til þingnefndarinnar, sem fær málið til umfjöllunar, að skoða hvort unnt sé að flýta þeirri vinnu, enda um mikilvæga lagabreytingu að ræða.