Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 309  —  146. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á viðbótarsamningi við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu að bandalaginu sem gerður var í Brussel 6. febrúar 2019.
    Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur alltaf verið umdeild. Þjóðin hefur aldrei fengið tækifæri til að láta í ljós skýra afstöðu sína um aðild að bandalaginu með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljóst er að bandalagið er hætt að skilgreina sig eingöngu sem varnarbandalag og hefur tekið að sér verkefni sem fara út fyrir upprunalegan tilgang sinn. Minni hlutinn telur ekki réttlætanlegt að stækka bandalagið frekar að svo stöddu, jafnvel þótt tekið sé tillit til breyttrar stöðu Norður-Makedóníu frá lokum kalda stríðsins. Þrátt fyrir að tekist hafi langþráð samkomulag milli Grikkja og Norður-Makedóníumanna í apríl sl. um nafn landsins eftir áratuga deilur er það álit minni hlutans að það ágæta samkomulag leiði ekki sjálfkrafa til aðildar að Atlantshafsbandalaginu þrátt fyrir náið samstarf beggja aðila frá 1995.
    Við þessa staðfestingu fjölgar aðildarríkjum bandalagsins í 30 og bendir minni hlutinn á að sterk öfl hafi ríkra hagsmuna að gæta að Atlantshafsbandalagið stækki. Er þar sérstaklega um að ræða vopnaframleiðendur, enda eru mörg af mestu vopnaframleiðslulöndum heims aðildarríki bandalagsins sem leggja ríkar skyldur á herðar aðildarríkja sinna varðandi framlög til vígbúnaðar og hermála.
    Að auki má benda á að skömmu fyrir aldamót breytti Atlantshafsbandalagið stefnu sinni á þann hátt að það beitir sér nú í auknum mæli utan landamæra sinna. Má þar nefna beina og óbeina þátttöku í styrjöldum og skærum í Afríku og Asíu. Afleiðingar þessara hernaðaríhlutana hafa reynst skelfilegar fyrir íbúa viðkomandi landa og eiga þær þátt í mikilli fjölgun fólks á flótta undan stríðsátökum og afleiðingum þeirra undanfarin ár.
    Fulltrúar minni hlutans árétta þá stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. Það er stefna hreyfingarinnar að hagsmunum Íslands sé best borgið með úrsögn úr bandalaginu. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Stækkun Atlantshafsbandalagsins er ekki grundvöllur friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum. Það væri heldur gert með styrkingu alþjóðastofnana á borð við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), Evrópuráðið og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
    Með þessa afstöðu að leiðarljósi mun minni hlutinn sitja hjá við afgreiðslu á tillögu þessari.

Alþingi, 21. október 2019.


Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.