Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 354  —  313. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Orðin „og skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Orðin „eða skipa yfir 5 brúttótonnum“ í 2. málsl. falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      Orðin „eða skipi yfir 5 brúttótonnum“ í 4. og 5. mgr. falla brott.

3. gr.

    Í stað orðanna „eða skip er selt“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: er seld.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, sem fela í sér afnám stimpilgjalds af skjölum er varða eignayfirfærslu skipa. Þingmannafrumvarp sama efnis var lagt fram á síðasta löggjafarþingi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar þeirrar almennu umræðu sem átt hefur sér stað um skyldu til að greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu skipa. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, og er þeim ætlað að vera til hagsbóta fyrir rekstrarumhverfi skipa á Íslandi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði brott ákvæði úr lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, um skyldu til að greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu skipa en samkvæmt lögunum nær gjaldskyldan eingöngu yfir skip sem eru yfir fimm brúttótonn.
    Við gildistöku laga um stimpilgjald, nr. 138/2013, var felld brott skylda til að greiða stimpilgjald vegna lánsskjala, en slíkt hafði verið skylt í gildistíð eldri laga um stimpilgjald, nr. 36/1978. Þá var einnig felld brott skylda til að greiða stimpilgjald vegna kaupmála, vátryggingarskjala, aðfarargerða, kyrrsetningargerða, löggeymslna, leigusamninga um jarðir og lóðir, heimildarskjala um veiðiréttindi og skjala sem lögðu ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign. Í gildistíð eldri laga um stimpilgjald, nr. 36/1978, voru gerðar breytingar á lögunum þess efnis að eignayfirfærsla á loftförum, minni skipum og kaupskipum voru undanþegin stimpilgjaldi, en áfram var gert skylt að greiða stimpilgjald af skjölum er vörðuðu eignayfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum. Eftir gildistöku núgildandi laga um stimpilgjald, nr. 138/2013, eru skip yfir fimm brúttótonnum einu atvinnutækin sem enn bera stimpilgjald þegar eignayfirfærsla á sér stað, en í lögskýringargögnum laganna er ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir því.
    Með vísan til sjónarmiða um jafnræði atvinnugreina er talið rétt að ekki verði lengur innheimt stimpilgjald vegna skjala er varða eignayfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum. Slík breyting er jafnframt í samræmi við það regluverk sem fyrirfinnst á Norðurlöndunum varðandi stimpilgjöld, en þar takmarkast stimpilgjöld almennt við fasteignaviðskipti. Þá mun slík breyting bæta m.a. rekstrarumhverfi skipa á Íslandi, leiða til sambærilegra rekstrarumhverfis líkt og hjá erlendum samkeppnisaðilum og styðja sérstaklega við íslenskan sjávarútveg sem er í mikilli alþjóðlegri samkeppni.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu. Hinn 30. september 2019 birti fjármála- og efnahagsráðuneytið áform um lagasetningu ásamt frummati á áhrifum í opinni samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. 241/2019). Frestur til þess að senda inn umsagnir vegna áformanna var til 7. október 2019. Þá var frumvarpið kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opinni samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. 248/2019), þann 7. október 2019. Alls bárust fimm umsagnir. Umsagnirnar voru almenns eðlis og tóku þær nær allar undir frumvarpið með jákvæðum hætti ásamt því að hvetja til framgangs þess. Umsagnirnar gáfu ekki tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu ráðuneytisins.

6. Mat á áhrifum.
    Gert er ráð fyrir því að lagabreytingar frumvarpsins um afnám stimpilgjalds af skjölum er varða eignayfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum hafi óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hins vegar ættu þær breytingar sem stefnt er að með frumvarpinu að hafa jákvæð áhrif á hagsmunaaðila.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–3. gr.

    Í greinunum felst að felld eru brott þau atriði laganna sem kveða með hvers kyns hætti á um skyldu til að greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu skipa.

Um 4. gr.

Greinin þarfnast ekki skýringa.