Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 355  —  314. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um innheimtu opinberra skatta og gjalda.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um innheimtu á sköttum, gjöldum og sektum ásamt vöxtum, álagi og kostnaði sem lögð eru á af stjórnvöldum og sem innheimtumönnum ríkissjóðs er falið að innheimta.
    Þá gilda lögin um innheimtu erlendra skatta, gjalda og sekta sem innheimtumönnum er falið að innheimta á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki.
    Lögin gilda einnig um endurgreiðslur stjórnvalda vegna oftekinna skatta og gjalda og um endurgreiðslur vegna oftekinna sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum. Lögin gilda þó ekki um endurgreiðslu sekta sem innheimtar eru á grundvelli laga um fullnustu refsinga eða með vísan til þeirra laga.
    Sérákvæði annarra laga um skatta, gjöld og sektir sem mæla fyrir á annan veg, ganga framar ákvæðum laga þessara.

2. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
     1.      Afskrift: Afskrift krafna felur í sér að kröfur á hendur gjaldanda eru færðar niður að hluta eða öllu leyti samkvæmt lögum.
     2.      Eindagi: Síðasti dagur til að greiða kröfu áður en dráttarvextir eða álag leggjast á hana.
     3.      Gjaldandi: Greiðandi skatta, gjalda eða sekta.
     4.      Gjalddagi: Sá dagur sem fyrst er heimilt að krefja gjaldanda um greiðslu kröfu.
     5.      Greiðsluáætlun: Áætlun um greiðslu skatta, gjalda og sekta, sem gerð er m.a. í því skyni að létta greiðslubyrði gjaldanda og fresta innheimtuaðgerðum.
     6.      Skuldajöfnun: Þegar inneign er notuð til að greiða gjaldfallna skuld.
     7.      Þing- og sveitarsjóðsgjöld: Undir þing- og sveitarsjóðsgjöld falla m.a. tekjuskattur, útsvar, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjald, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa, ofgreiddar barnabætur, ofgreiddar vaxtabætur og önnur ótalin gjöld sem innheimt eru með vísan til laga um tekjuskatt og samsvarandi gjöld samkvæmt samningum við önnur ríki.

3. gr.

Hlutverk innheimtumanna ríkissjóðs.

    Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu skatta og gjalda hver í sínu umdæmi. Með sköttum og gjöldum er átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt. Þá annast innheimtumenn innheimtu sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum og þeim er falið að innheimta.
    Innheimtumenn ríkissjóðs eru ríkisskattstjóri í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu en sýslumenn í öðrum umdæmum.
    Auk þeirra verkefna sem ríkisskattstjóra er falið sem einum innheimtumanna ríkissjóðs skal hann m.a. annast eftirtalin verkefni er lúta að framkvæmd innheimtu skatta og gjalda:
     1.      Stefnumótun á sviði innheimtumála á landsvísu með hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi varðandi innheimtu opinberra gjalda að leiðarljósi. Í þessu skyni skal ríkisskattstjóri m.a. annast áhættugreiningu á sviði innheimtu opinberra gjalda.
     2.      Samræmingar- og eftirlitshlutverk gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs, m.a. með setningu verklagsreglna. Ríkisskattstjóra er heimilt að beina bindandi fyrirmælum til annarra innheimtumanna um innheimtuaðgerðir í einstökum málum eða málaflokkum ef settar reglur eru ekki virtar.
     3.      Umsjón og þróun tölvukerfa og rafrænnar stjórnsýslu á sviði innheimtu skatta og gjalda.
    Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að fela öðrum aðila en þeim sem um getur í 1. mgr. innheimtu skatta samkvæmt lögum um tekjuskatt í tilteknu umdæmi eða umdæmum. Á sama hátt getur ráðherra ákveðið að sami innheimtumaður annist innheimtu í fleiri en einu umdæmi.
    Þá er ráðherra, sveitarstjórnum og forráðamönnum annarra opinberra stofnana heimilt að semja svo um að innheimta skuli í einu lagi öll gjöld sem greiða ber þessum aðilum. Fela má innheimtuna innheimtumanni ríkissjóðs, sveitarfélagi eða sérstakri innheimtustofnun. Allar heimildir og skyldur innheimtumanna ríkissjóðs, sveitarfélaga og stofnana vegna gjaldheimtu skulu þá færast til þess aðila sem tekur gjaldheimtuna að sér.

4. gr.

Áfrýjun eða deila um skattskyldu.

    Áfrýjun eða deila um skattskyldu frestar hvorki eindaga skatta og gjalda né leysir gjaldanda undan viðurlögum við vangreiðslu þeirra. Innheimtumönnum ríkissjóðs ber að innheimta skattkröfur sem byggja á áætlunum skattyfirvalda með sama hætti og skuld samkvæmt skattskýrslum. Innheimtuúrræðum er ekki frestað þótt skattskýrslu hafi ekki verið skilað eða skattálagning verið kærð.

5. gr.

Kæruheimild og endurupptaka.

    Gjaldanda er unnt að fá ákvarðanir innheimtumanns ríkissjóðs endurskoðaðar með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins á grundvelli VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ákvörðun innheimtumanns er kæranleg innan þriggja mánaða frá því að aðila máls er tilkynnt um ákvörðun. Gjaldanda er jafnframt heimilt að fara fram á endurupptöku ákvörðunar hjá innheimtumanni í samræmi við ákvæði 24. gr. sömu laga.

6. gr.

Jafnræðisregla.

    Við úrlausn mála er varða innheimtu skatta, gjalda og sekta samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að allir gjaldendur sem eins stendur á um hljóti sömu málsmeðferð.

7. gr.

Dráttarvextir, álag og kostnaður.

    Hafi skattar og gjöld ekki verið greidd á eindaga skal greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Í lögboðnum tilvikum bætist við álag. Dráttarvextir og álag sem leggjast á skatta og gjöld eru hluti kröfunnar og fyrnast ekki sjálfstætt.
    Sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð, sbr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Ekki skal bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti.
    Óheimilt er að lækka eða fella niður dráttarvexti og álag nema lög mæli fyrir á annan veg.
    Gjaldandi skal greiða lögboðinn kostnað vegna innheimtuaðgerða og er óheimilt að fella hann niður.
    Innheimtumaður gefur ekki út skuldleysisvottorð til gjaldanda skuldi hann gjaldfallna skatta, gjöld eða sektir.

8. gr.

Endurgreiðsla oftekins fjár.

    Stjórnvöld sem innheimta skatta, gjöld eða sektir skulu endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af því fé sem oftekið var frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Vextir skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að fé var oftekið. Stjórnvöld skulu hafa frumkvæði að endurgreiðslu þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið.
    Sé kæra til meðferðar hjá yfirskattanefnd og nefndin kveður ekki upp úrskurð innan lögboðins frests skv. 1. mgr. 8. gr. laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, skal greiða gjaldanda dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af fjárhæð sem yfirskattanefnd úrskurðar að skuli endurgreiða, eða dæmd er síðar, frá þeim tíma þegar frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurð leið.
    Hafi dómsmál verið höfðað til endurgreiðslu skatta, gjalda eða sekta má krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað.
    Greiða skal gjaldanda dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Sé inneign í sköttum, gjöldum eða sektum til staðar þegar krafa um endurgreiðslu er gerð skal greiða dráttarvexti frá þeim degi sem krafa er gerð til greiðsludags, fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá þeim degi sem krafa var gerð.
     b.      Sé inneign í sköttum, gjöldum eða sektum ekki til staðar þegar krafa um endurgreiðslu er gerð skal greiða dráttarvexti frá þeim degi sem inneign myndaðist til greiðsludags, fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá þeim degi sem inneign myndaðist.
    Ákvæði 4. mgr. gengur framar 1. og 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Endurgreiðsla skal fara fram með innborgun á bankareikning gjaldanda, nema skilyrði séu til skuldajöfnunar.
    Krafa um endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum fellur úr gildi fyrir fyrningu þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað eða inneign myndaðist. Þegar krafa um endurgreiðslu fyrnist fyrnast jafnframt áfallnir vextir.

9. gr.

Skuldajöfnun.

    Skuldajafna skal inneignum á móti gjaldföllnum sköttum, gjöldum, sektum og sakarkostnaði nema lög mæli fyrir á annan veg.
    Skuldajafna skal inneignum á móti erlendum sköttum, gjöldum og sektum sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki nema lög mæli fyrir á annan veg.
    Skuldajafna skal barnabótum á móti fyrirframgreiddum barnabótum og ofgreiddum barnabótum. Skuldajafna skal barnabótum á móti kröfum um ofgreiddar barnabætur sem til innheimtu eru hér á landi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki.
    Skuldajafna skal inneignum á móti gjaldföllnum sköttum, gjöldum og sektum sem gjaldandi ber sjálfskuldarábyrgð á, nema lög mæli fyrir á annan veg. Hér undir fellur m.a. sjálfskuldarábyrgð skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og ábyrgð félagsmanna sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags.

10. gr.

Ábyrgð þriðja aðila.

    Beri gjaldandi ábyrgð á greiðslu skatta, gjalda eða sekta þriðja aðila samkvæmt lögum getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að honum til greiðslu þeirra skulda sem hann ber ábyrgð á. Hér undir fellur m.a. ábyrgð skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og ábyrgð félagsmanna sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags.
    Gera má aðför hjá þeim sem ábyrgð ber á sköttum, gjöldum eða sektum til tryggingar þeim skuldum er hann ber ábyrgð á samkvæmt lögum.
    Með ábyrgð samkvæmt þessari grein er átt við sjálfskuldarábyrgð.

11. gr.

Launaafdráttur.

    Öllum launagreiðendum er skylt að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs að halda eftir af launum launþega til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem lögð eru á launþega og innheimta ber samkvæmt lögum um tekjuskatt og IV. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Þá er launagreiðendum skylt að kröfu innheimtumanns að halda eftir af launum launþega til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem hann ber sjálfskuldarábyrgð á skv. 1. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Innheimtumaður ríkissjóðs sendir kröfu um launaafdrátt til launagreiðanda á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og er ríkisskattstjóra jafnframt heimilt að ákveða á hvaða formi skilagreinar launagreiðanda skuli vera.
    Frádráttur launagreiðanda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, þing- og sveitarsjóðsgjalda, lögbundinna iðgjalda í lífeyrissjóð og stéttarfélag og meðlags samkvæmt kröfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga skal aldrei vera meiri en sem nemur 75% af heildarlaunum launþega. Launþegi getur óskað eftir að gera greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda skv. 12. gr.
    Sex dögum eftir útborgun launa skal launagreiðandi ótilkvaddur standa skil á afdregnum launum eða launum sem honum bar að halda eftir skv. 1. mgr. Sé lokadagur skilafrests almennur frídagur lengist fresturinn til næsta virka dags.
    Launagreiðandi sem eigi hefur skilað á réttum degi fé er hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir skv. 1. mgr. skal greiða dráttarvexti skv. 7. gr. Gjalddagi er útborgunardagur launa og eindagi sá dagur sem launagreiðanda bar að skila fénu til innheimtumanns, sbr. 4. mgr.
    Launagreiðandi ber sjálfskuldarábyrgð á þing- og sveitarsjóðsgjöldum sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir skv. 1. mgr. Launagreiðandi og launþegi bera óskipta ábyrgð á greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda og getur innheimtumaður gengið að hvorum aðila fyrir sig. Launþegi ber þó ekki ábyrgð á greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem hann sannar að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans.
    Krafa vegna fjár sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt þessari grein er aðfararhæf samkvæmt lögum gagnvart launagreiðanda án undangengins dóms eða sáttar.
    Innheimtustofnun sveitarfélaga, stéttarfélög og lífeyrissjóðir skulu láta innheimtumanni ríkissjóðs í té upplýsingar og gögn vegna launaafdráttar með rafrænum hætti ef því verður við komið og án endurgjalds til að hann geti rækt hlutverk sitt samkvæmt ákvæði þessu. Innheimtumanni er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um greiðslur gjaldanda til stéttarfélags, lífeyrissjóðs og Innheimtustofnunar sveitarfélaga og upplýsinga á launaseðli sem gjaldandi lætur innheimtumanni í té í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt ákvæði þessu að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæði þessu.
    Launaafdráttur er heimill á meðan launþegi ber ábyrgð á kröfum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti skv. 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

12. gr.

Greiðsluáætlanir.

    Innheimtumanni ríkissjóðs er heimilt að gera greiðsluáætlun við gjaldanda um skatta, gjöld og sektir að beiðni gjaldanda. Greiðsluáætlun felur í sér viðurkenningu gjaldanda á kröfu og rýfur fyrningu hennar. Gild greiðsluáætlun frestar innheimtuaðgerðum vegna skatta, gjalda og sekta sem undir hana falla nema hætta leiki á að hagsmunir ríkissjóðs fari annars forgörðum.
    Lögboðnir dráttarvextir leggjast á skatta, gjöld og sektir þrátt fyrir að um þau hafi verið gerð greiðsluáætlun.
    Skuldajöfnun inneigna sem myndast í skattkerfinu skal fara fram þrátt fyrir gilda greiðsluáætlun. Skuldajöfnun upp í kröfur sem falla undir greiðsluáætlun hefur ekki áhrif á skyldu gjaldanda til að inna af hendi greiðslur samkvæmt henni. Gjaldandi hefur ekki forræði á ráðstöfun greiðslna inn á kröfur sem falla undir greiðsluáætlun.
    Ákvörðun um gerð greiðsluáætlana einstaklinga er heimil á grundvelli sjálfvirkrar gagnavinnslu. Gjaldandi á rétt til mannlegrar íhlutunar af hálfu innheimtumanns til að láta skoðun sína í ljós og til að vefengja ákvörðunina.
    Falli greiðsluáætlun úr gildi, sem gerð var eftir árangurslaust fjárnám, er innheimtumanni ríkissjóðs heimilt að skrá þær upplýsingar hjá fjárhagsupplýsingastofum sem hafa starfsleyfi til að miðla upplýsingum um vanskil skv. 15. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, en með því verður gjaldandi skráður á ný á vanskilaskrá.
    Ríkisskattstjóri setur verklagsreglur um greiðsluáætlanir og nánari skilyrði um gerð þeirra.

13. gr.

Stöðvun atvinnurekstrar.

    Þar sem lög kveða á um getur innheimtumaður ríkissjóðs látið lögreglu stöðva atvinnurekstur hjá þeim aðilum sem ekki gera fullnægjandi skil á sköttum og gjöldum, m.a. með innsigli á starfsstöðvar, skrifstofur, vörur og atvinnutæki. Gjaldanda skal tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar og gefinn sjö daga frestur frá dagsetningu tilkynningar til að greiða kröfu eða gera greiðsluáætlun.

14. gr.

Kyrrsetningar.

    Til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim sem rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi beinist að skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Með sama hætti er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og hjá aðilum sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags. Kyrrsetning skal framkvæmd á meðan mál er til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra.
    Ríkisskattstjóri annast rekstur mála að kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins skv. 1. mgr. Skal skattrannsóknarstjóri ríkisins í kyrrsetningarkröfu sinni til ríkisskattstjóra tilgreina ætlaðar fjárhæðir vantalinna skatta skattaðila samkvæmt rannsókn þess máls sem um ræðir svo sem hún þá stendur, sem og um fjárhæðir fésekta er kunni samkvæmt rannsókninni að verða gerðar skattaðila eða öðrum þeim sem rökstuddur grunur er um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Ríkisskattstjóra er heimill aðgangur að öllum nauðsynlegum upplýsingum og gögnum sem skattyfirvöld, fjármálastofnanir og aðrir aðilar búa yfir, sbr. 19. gr., og snerta ráðstafanir samkvæmt þessari grein.
    Um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fer sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja fyrir greiðslu bóta er gerðarþoli kann að öðlast rétt til, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu og gjöld skal ekki greiða fyrir ráðstafanir.
    Kyrrsetning fellur niður ef rannsókn leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi beinist að skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, verði gerð fésekt hvort sem er af skattyfirvöldum eða fyrir dómi. Sá er kyrrsetning beinist að á þá heimtingu á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til tryggingar kyrrsetningunni. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef inntar eru af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.
    Leggja má fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

15. gr.

Nauðasamningar.

    Innheimtumanni ríkissjóðs er heimilt að samþykkja nauðasamning gjaldanda við kröfuhafa að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Gjaldandi skuldi ekki virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald eða vörugjald af ökutækjum.
     2.      Skattar og gjöld séu ekki tilkomin vegna endurákvörðunar skattyfirvalda vegna skattsvika.
     3.      Skattar og gjöld séu ekki byggð á áætlunum stjórnvalda.
     4.      Gjaldandi skuldi hvorki skattsekt yfirskattanefndar eða skattrannsóknarstjóra né fésekt ársreikningaskrár ríkisskattstjóra.
     5.      Ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi.

16. gr.

Afskriftir eldri krafna.

    Ríkisskattstjóra er heimilt að afskrifa kröfur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga ásamt áfallandi dráttarvöxtum þegar tíu ár eru liðin frá stofnun kröfunnar að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Ljóst þyki að gjaldandi geti ekki greitt höfuðstól ásamt áföllnum dráttarvöxtum.
     2.      Greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar sé í gildi.
     3.      Gjaldanda hafi verið synjað um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara.
     4.      Ábyrgð samsköttunaraðila sé ekki fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
     5.      Gjaldandi hafi ekki áður fengið afskrifaðar kröfur á grundvelli þessa ákvæðis.
    Ríkisskattstjóri tekur umsóknir til afgreiðslu samkvæmt ákvæði þessu.

17. gr.

Tilkynningar og upplýsingagjöf til skattrannsóknarstjóra ríkisins og annars stjórnvalds sem fer með rannsókn máls.

    Fái innheimtumaður ríkissjóðs vitneskju í starfi sínu um atvik sem hann telur vekja rökstuddan grun um að gjaldandi eða aðrir hafi gerst sekir um refsivert athæfi skal hann, ef ekki standa sérstök rök til annars, tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins, lögreglu, héraðssaksóknara eða öðru stjórnvaldi sem rannsókn háttseminnar heyrir undir.
    Innheimtumanni er skylt að veita skattrannsóknarstjóra ríkisins, lögreglu og héraðssaksóknara allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem þau óska eftir og unnt er að láta þeim í té. Innheimtumanni er skylt að veita öðru stjórnvaldi skv. 1. mgr. allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn um þau mál sem hann hefur tilkynnt því um á grundvelli 1. mgr.
    Ákvæði 20. gr. laga þessara sem og ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæðum þessarar greinar.

18. gr.

Rafræn þjónusta.

    Rafræn miðlun gagna og málsmeðferð er heimil, sbr. 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Ríkisskattstjóra er heimilt að ákveða að greiðsla skatta, gjalda og sekta skuli eingöngu fara fram með rafrænum hætti.

19. gr.

Upplýsingagjöf.

    Gjaldendum, stjórnvöldum og öðrum hlutaðeigandi aðilum er skylt að veita innheimtumanni ríkissjóðs án endurgjalds og á því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er innheimtumaður óskar eftir og unnt er að láta honum í té svo hann geti rækt hlutverk sitt skv. 3. gr.
    Innheimtumanni ríkissjóðs skal heimill aðgangur að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrám, verðbréfamiðstöð og vinnuvélaskrá Vinnueftirlitsins í því skyni að sannreyna eignastöðu einstakra gjaldenda. Jafnframt skal ríkisskattstjóri veita öðrum innheimtumönnum aðgang að skattframtölum gjaldanda í þeim tilgangi að kanna eignastöðu vegna innheimtuaðgerða.
    Auk þeirrar heimildar sem kveðið er á um í 2. mgr. hefur innheimtumaður ríkissjóðs heimild til að óska eftir upplýsingum um eignir sem varðveittar kunna að vera í bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum, þar með talin innlán og verðbréfaeign sem og upplýsingar um skuldastöðu í því skyni að sannreyna eignastöðu gjaldenda í tengslum við kyrrsetningargerðir og innheimtuaðgerðir. Fjármálafyrirtækjum er skylt að upplýsa innheimtumann ríkissjóðs án endurgjalds um eignastöðu viðskiptamanna sinna hjá fyrirtækinu samkvæmt beiðni þar um.
    Þá skal innheimtumanni heimill rafrænn aðgangur að yfirlitum um framvindu skipta dánarbúa hjá sýslumönnum án endurgjalds vegna innheimtu hjá erfingjum dánarbúa, endurgreiðslna inneigna dánarbúa og vegna afskrifta eignalausra dánarbúa.
    Ákvæði 1. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eiga við um innheimtumann á sama hátt og önnur skattyfirvöld.
    Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæðum þessarar greinar.

20. gr.

Þagnarskylda.

    Á innheimtumanni ríkissjóðs hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Innheimtumanni er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi, að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag gjaldenda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af störfum.

21. gr.

Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995.
    Sé mál tekið upp að nýju eða ákvörðun kærð til æðra stjórnvalds eftir gildistöku laga þessara skal beita lögunum um þau mál upp frá því. Um endurgreiðslukröfur sem berast fyrir gildistöku laganna fer samkvæmt ákvæðum laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995.

22. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003:
                  a.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 1. málsl. 2. mgr. 94. gr. laganna kemur: og lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
                  b.      111. gr. laganna orðast svo:
                      Skattar álagðir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð og annast innheimtumenn ríkissjóðs innheimtu þeirra.
                  c.      113. gr., 3. og 4. mgr. 114. gr. og 115. gr. laganna ásamt fyrirsögn falla brott.
     2.      Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987:
                  a.      Í stað tilvísunarinnar „111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
                  b.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna kemur: og lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda
                  c.      31. gr. a laganna fellur brott.
                  d.      Á eftir orðunum „ákvæði XIII. kafla laga um tekjuskatt“ í 1. mgr. 37. gr. laganna kemur: og laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     3.      Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996:
                  a.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: og lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
                  b.      20. gr. a laganna fellur brott.
     4.      Lög um erfðafjárskatt, nr. 14/2004:
                  a.      Í stað orðanna „lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda“ í 8. mgr. 14. gr. laganna kemur: lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
                  b.      9. og 10. mgr. 14. gr. laganna falla brott.
     5.      Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988:
                  a.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 1. málsl. 3. mgr. 38. gr. laganna kemur: og lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda .
                  b.      41. gr. a laganna fellur brott.
                  c.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 5. mgr. 49. gr. laganna kemur: og lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     6.      Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995:
                  a.      Á eftir orðunum „Ákvæði VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 2. mgr. 22. gr. laganna kemur: og laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
                  b.      4. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
                      Ákvæði 11. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda gildir um launaafdrátt vegna útsvars.
                  c.      5.–8. mgr. 28. gr. laganna falla brott.
     7.      Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006: Í stað tilvísunarinnar „111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 4. mgr. 39. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     8.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000: Í stað tilvísunarinnar „111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 4. mgr. 15. gr. a laganna kemur: 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     9.      Lög um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006: Í stað tilvísunarinnar „111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     10.      Lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016: Í stað tilvísunarinnar „111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     11.      Lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999: Á eftir orðunum „samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: og lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     12.      Lög um póstþjónustu, nr. 19/2002: Á eftir orðunum „ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 4. mgr. 28. gr. laganna kemur: og laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     13.      Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, nr. 40/2009: Í stað tilvísunarinnar „111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     14.      Lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013: Á eftir orðunum „ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 1. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna kemur: og laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     15.      Lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011: 20. gr. laganna orðast svo:
                      Að öðru leyti en greinir í þessum lögum skulu um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu framleiðslugjalds og kolvetnisskatts gilda ákvæði IX.– XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda en varðandi viðurlög er sérstaklega vísað til XII. kafla laga um tekjuskatt.
     16.      Lög um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015: Á eftir orðunum „Ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt“ í 2. málsl. 18. gr. laganna kemur: og eftir atvikum laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     17.      Lög um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015: Á eftir orðunum „sbr. IX.–XIV. kafla þeirra laga“ í 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: og ákvæðum laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     18.      Lög um stimpilgjald, nr. 138/2013: Í stað orðanna „lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda“ í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
     19.      Lög um veiðigjald, nr. 145/2018: Í stað orðanna „1. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003“ í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði og samvinnu við innheimtu- og skráasvið ríkisskattstjóra. Ásamt því var samráð haft við Fjársýslu ríkisins á vinnslustigi frumvarpsins. Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um innheimtu opinberra skatta, gjalda og sekta ásamt því að lagt er til að hluti ákvæða XIII. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, flytjist yfir í frumvarp þetta með ákveðnum breytingum. Einnig felur frumvarpið í sér tillögu um að ákvæði laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995, falli brott og fari með breytingum inn í frumvarp þetta. Þá eru lagðar til breytingar á ýmsum sérlögum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Reglur um innheimtu opinberra skatta og gjalda er nú að finna á víð og dreif í hinum ýmsu lagabálkum en aðallega í XIII. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Jafnframt gilda verklagsreglur fyrir alla innheimtumenn ríkissjóðs ásamt reglugerð frá fjármála- og efnahagsráðherra, nr. 1060/2014, sem að sumu leyti er orðin úrelt og þarfnast endurútgáfu. Þá gilda stjórnsýslulög um meðferð stjórnsýslumála hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Hlutverk stjórnsýslulaga er að tryggja vandaða stjórnsýslu og þau hafa að geyma lágmarksreglur um skyldur stjórnvalda og réttindi borgara. Þessar grunnreglur gilda um málsmeðferð hjá innheimtumanni ríkissjóðs líkt og hjá öðrum stjórnvöldum en lögin taka ekki til aðfarargerða, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Um innheimtu skatta og gjalda gilda einnig lög um aðför, nr. 90/1989, lög um nauðungarsölu, nr. 90/1991, og lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, ásamt ýmsum sérlögum um skatta og gjöld, reglum félagaréttarins og almennum reglum kröfuréttarins.
    Helsta markmiðið með gerð frumvarpsins er að tryggja sem best réttaröryggi gjaldenda gagnvart ríkissjóði þegar kemur að innheimtu opinberra skatta og gjalda og lögfesta gildandi framkvæmd. Þá felur frumvarpið í sér nokkrar breytingar á gildandi framkvæmd sem talið er að verði til bóta og auki jafnræði gjaldenda. Fyrirmynd að frumvarpinu er að einhverju leyti sótt til nágrannalanda Íslands.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Gildissvið frumvarpsins skv. 1. gr. nær til innheimtu á sköttum, gjöldum og sektum, ásamt vöxtum, álagi og öðrum þeim kostnaði sem lagður er á af stjórnvöldum og innheimtumönnum ríkissjóðs er falið að innheimta. Gildissviðið nær jafnframt til innheimtu erlendra skatta, gjalda og sekta sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta samkvæmt milliríkjasamningum. Þá tekur frumvarpið einnig til endurgreiðslna stjórnvalda vegna oftekinna skatta, gjalda og sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum. Lögin gilda þó ekki um sektir sem innheimtar eru á grundvelli laga um fullnustu refsinga eða með vísan til þeirra. Tekið er fram í ákvæði 1. gr. frumvarpsins að sérákvæði annarra laga um skatta, gjöld og sektir, sem mæla fyrir á annan veg, gangi framar ákvæðum laga þessara.
    Líkt og fram kemur í 3. gr. frumvarpsins er innheimta skatta og gjalda í höndum ríkisskattstjóra og sýslumannsembættanna. Ríkisskattstjóri er innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en sýslumenn í öðrum umdæmum. Í janúar 2015 tók tollstjóri við innheimtu skatta og gjalda af sýslumanninum í Kópavogi og sýslumanninum í Hafnarfirði og með því varð tollstjóri innheimtumaður ríkissjóðs á höfuðborgarsvæðinu. Hinn 1. maí 2019 fluttist innheimta opinberra skatta og gjalda á höfuðborgarsvæðinu til ríkisskattstjóra, sbr. 48. gr. laga nr. 142/2018.
     Í 4. gr. frumvarpsins kemur fram að áfrýjun eða deila um skattskyldu fresti ekki eindaga skatta og gjalda né leysi gjaldanda undan viðurlögum við vangreiðslu þeirra. Innheimtumönnum ríkissjóðs beri að innheimta skatta og gjöld sem byggja á áætlunum skattyfirvalda með sama hætti og skuld samkvæmt skattskýrslum. Innheimtuúrræðum verði ekki frestað þótt skattskýrslu hafi ekki verið skilað eða skattálagning verið kærð. Regla þessi er að meginstefnu samhljóma reglu 1. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem og 6. mgr. 29. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 7. mgr. 27. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og 2. mgr. 14. gr. laga um erfðafjárskatt, nr. 14/2004. Lagt er til að reglan falli brott úr 1. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og flytjist yfir í frumvarp þetta. Ekki er um efnisbreytingu að ræða þó svo að reglan sé orðuð með öðrum hætti.
    Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um kæruheimild til ráðuneytisins og endurupptöku. Ef gjaldandi er ósáttur við ákvörðun innheimtumanns ríkissjóðs eru honum leiðir færar til að fá hana endurskoðaða innan stjórnsýslunnar. Unnt er að fá ákvarðanir innheimtumanns ríkissjóðs endurskoðaðar með stjórnsýslukæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Kæra verður ákvörðun innan þriggja mánaða frá því að aðila máls er tilkynnt um ákvörðun. Þá er einnig hægt að fara fram á endurupptöku ákvörðunar hjá innheimtumanni.
    Jafnræðisregla kemur fram í 6. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að við úrlausn mála er varða innheimtu skatta, gjalda og sekta samkvæmt lögunum skuli þess gætt að allir gjaldendur, sem eins stendur á um, hljóti sams konar meðferð.
    Að sama skapi býr það sjónarmið að baki 3. mgr. 7. gr. frumvarpsins um greiðslu dráttarvaxta og álags að innheimtumenn ríkissjóðs eru bundnir af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar við innheimtu skatta og gjalda. Það þýðir að þeim ber að fara eins með alla gjaldendur sem eins er ástatt um. Því er ekki unnt að veita einstökum gjaldendum ívilnanir á borð við að lækka eða fella niður dráttarvexti án þess að þeim sé fundin stoð í lögum.
    Ákvæði 4. mgr. 7. gr. frumvarpsins um að gjaldandi skuli greiða lögboðinn kostnað vegna innheimtuaðgerða byggir jafnframt á jafnræðissjónarmiðum en óheimilt er að fella slíkan kostnað niður.
    Í 5. mgr. 7. gr. kemur fram sú meginregla að innheimtumaður gefur ekki út skuldleysisvottorð til gjaldanda skuldi hann gjaldfallna skatta, gjöld eða sektir.
    Í 8. gr. frumvarpsins er stefnt að því að gera reglur um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skýrari en nú eru í lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995, og sömuleiðis er lagt til í frumvarpinu að lögin falli brott, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til það nýmæli að ákvæðið um endurgreiðslur taki til endurgreiðslna stjórnvalda vegna oftekinna sekta. Lögð er áhersla á að greiðsla vaxta vegna endurgreiðslna er lögákveðin og ekki háð því að gjaldandi geri kröfu um endurgreiðslu eða greiði með fyrirvara um lögmæti kröfu. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 29/1995 komu fram þau sjónarmið að ekki ætti að skipta máli hvort gjaldandi gerði fyrirvara um lögmæti samhliða greiðslu skatts til þess að hann öðlaðist rétt til endurgreiðslu. Helsta breytingin með ákvæði þessu er að í 4.–5. mgr. 8. gr. frumvarpsins eru sett strangari skilyrði en í núgildandi lögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995, um hvenær dráttarvextir leggjast á endurgreiðslur hafi krafa verið gerð um endurgreiðslu. Markmiðið er að tryggja jafnræði gjaldenda og að þeir verði eins settir óháð því hvaða sérþekkingu eða sérfræðiaðstoð þeir búa yfir eða njóta. Jafnframt er lagt til að ákvæði 3. mgr. 114. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði fært yfir í frumvarp þetta og dráttarvaxtareglan taki þannig til fleiri skatttegunda en tekjuskatts. Enn fremur er lagt til að endurgreiðslur skuli fara fram með innborgun á bankareikning gjaldanda. Endurgreiðsla geti þó ekki farið fram ef skilyrði eru til skuldajöfnunar.
    Í samræmi við gildandi ákvæði laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda er lagt til í frumvarpi þessu að stjórnvöld hafi áfram frumkvæði að því að greiða gjaldendum oftekna skatta og gjöld. Í því skyni skulu gjaldendur láta stjórnvöldum í té upplýsingar um þann bankareikning sem þeir vilja fá inneignina greidda inn á og getur það einungis verið bankareikningur sem þeir eru skráðir fyrir. Í framkvæmd er það gert með þeim hætti að einstaklingar geta sett inn bankaupplýsingar með rafrænum hætti við skattskil á þjónustusíðu ríkisskattstjóra eða með því að senda innheimtumanni ríkissjóðs upplýsingar um bankareikninga. Lögaðilar verða þó, eins og sakir standa, að hafa samband við innheimtumann ríkissjóðs til að skrá bankareikning til að taka á móti inneignum. Reglan lögfestir heimild fyrir innheimtumann ríkissjóðs til að greiða inneignir einvörðungu út með millifærslu inn á bankareikninga en útgáfu ávísana var hætt fyrir nokkru síðan og inneignir eru ekki greiddar með reiðufé. Endurgreiðsla getur þó ekki farið fram ef skilyrði eru til skuldajöfnunar.
    Lagt er til að meginreglan verði áfram sú að vextir verði greiddir í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, á alla ofgreiðslu sem ekki er greidd út innan 30 daga frá því að hún átti sér stað, óháð því af hvaða orsökum hún stafar. Í samræmi við núgildandi lög er lögð til sú almenna regla að af ofteknum sköttum og gjöldum verði ekki greiddir dráttarvextir heldur vextir skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Þrátt fyrir framangreinda meginreglu í frumvarpinu getur gjaldandi öðlast rétt til dráttarvaxta vegna oftekinna skatta, gjalda og sekta í ferns konar tilvikum sem talin eru upp í 2.–4. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi getur gjaldandi átt rétt á dráttarvöxtum sé kæra hans til meðferðar hjá yfirskattanefnd og nefndin kveður ekki upp úrskurð innan lögboðins frests, sbr. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Dráttarvextir leggjast þá á endurgreiðsluna frá þeim tíma þegar frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurð leið. Í öðru lagi getur gjaldandi krafist dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til endurgreiðslu skatta, gjalda eða sekta, sbr. 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Endurgreiðsla getur þó aldrei farið fram fyrr en dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að fella beri niður kröfu eða henni skuli breytt. Í þriðja lagi getur gjaldandi átt rétt á dráttarvöxtum þegar hann gerir kröfu um endurgreiðslu eftir að inneign í sköttum, gjöldum eða sektum hefur myndast og leggjast þá dráttarvextir á inneignina frá þeim degi sem krafan er gerð til greiðsludags, fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá þeim degi sem krafan er gerð, sbr. a-lið 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Í fjórða lagi getur gjaldandi átt rétt á dráttarvöxtum þegar hann gerir kröfu um endurgreiðslu áður en inneign hefur myndast og leggjast þá dráttarvextir á inneignina frá þeim degi sem inneignin myndaðist til greiðsludags, fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá þeim degi sem inneignin myndaðist, sbr. b-lið 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Að baki framangreindri reglu um greiðslu dráttarvaxta býr það sjónarmið að tryggja jafnræði gjaldenda og að þeir verði eins settir óháð því hvaða sérþekkingu eða sérfræðiaðstoð þeir búa yfir eða njóta. Samkvæmt núgildandi lögum er það skilyrði sett í 2. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995, að gjaldandi leggi sannanlega fram kröfu um endurgreiðslu. Hefur þetta skilyrði valdið því að þeir gjaldendur sem njóta sérfræðiaðstoðar hafa frekar öðlast rétt til greiðslu dráttarvaxta af endurgreiðslum en aðrir. Reglunni er ætlað að koma í veg fyrir að gjaldendur sem ekki búa yfir þekkingu á reglum skattalöggjafarinnar eða reglum um endurgreiðslur séu í lakari stöðu til að fá greidda dráttarvexti af ofgreiddum sköttum, gjöldum eða sektum. Ákvæðið hefur að geyma sams konar reglu til greiðslu dráttarvaxta af endurgreiðslum og nú eru í 114. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en einnig má benda á dóm Hæstaréttar Íslands 19. desember 2017 í máli nr. 617/2016.
    Skilyrði ákvæðisins um að inneign í sköttum, gjöldum eða sektum hafi myndast eða sé til staðar þrengir réttinn til greiðslu dráttarvaxta verulega frá núgildandi lögum. Með því er ekki átt við það tímamark þegar fé var oftekið heldur það tímamark þegar krafan er viðurkennd af þar til bæru stjórnvaldi. Sá dagur markar upphaf greiðslu dráttarvaxta ef krafa um endurgreiðslu hefur verið gerð áður en inneignin myndaðist og hún ekki verið greidd innan 30 daga frá því hún myndaðist.
    Krafa um endurgreiðslu eða fyrirvari með greiðslu um lögmæti hennar hafa samkvæmt þessu aðeins þýðingu fyrir álagningu dráttarvaxta hafi inneign myndast og 30 dagar eru liðnir frá því að krafa um endurgreiðslu var gerð en krafan ekki greidd. Vextir skv. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins leggjast á ofgreiðsluna frá þeim tíma er fé var oftekið til greiðsludags og því fær gjaldandi bætur fyrir þann tíma sem féð var í vörslu ríkissjóðs.
    Rökin sem einnig mæla á móti greiðslu dráttarvaxta eru þau að ofgreiddum sköttum er ekki í öllum tilvikum hægt að jafna til greiðsludráttar, t.d. ef gjaldandi greiðir viljandi of mikið. Greiðsla dráttarvaxta vegna ofgreiðslu skatta býður upp á möguleika á að gjaldendur greiði meira en þeim ber til að ná hagstæðari ávöxtun á fé sitt en þeim stendur til boða annars staðar. Taka má sem dæmi ef áætluð skattskuld væri greidd samhliða kröfu um endurgreiðslu og skattframtal væri leiðrétt síðar. Óeðlilegt væri að gjaldandi ætti rétt til dráttarvaxta frá því tímamarki er endurgreiðslukrafan var gerð.
    Þá er í 9. gr. frumvarpsins lagt til að lögfesta skyldu til skuldajöfnunar með skýrum hætti. Innheimtumenn ríkissjóðs beita skuldajöfnun á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins og á grundvelli sérlaga um skyldu til skuldajöfnunar, svo sem 3. mgr. 25. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 36. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Jafnframt gilda reglur um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda, nr. 797/2016. Verði frumvarpið að lögum verður innheimtumönnum skylt að skuldajafna öllum inneignum á móti gjaldföllnum sköttum, gjöldum, sektum og sakarkostnaði, nema lög mæli fyrir á annan veg. Inneign getur stafað af lögbundnum endurgreiðslum úr skattkerfinu, t.d. vegna ofgreiðslu gjaldanda, vaxtabóta og barnabóta og ýmissa skattbreytinga til lækkunar. Það er gjaldanda í hag að beita skuldajöfnun þegar inneign gengur á móti skuld sem er farin að bera dráttarvexti. Skuldajöfnun er því innheimtuúrræði sem þjónar bæði hagsmunum ríkissjóðs og gjaldanda.
    Í ákvæðinu kemur fram að skuldajöfnun skuli þó ekki fara fram ef lög mæla fyrir á annan veg. Skylda til skuldajöfnunar á þannig ekki við um barnabætur að frátalinni skyldu innheimtumanns til að skuldajafna þeim lögum samkvæmt t.d. á móti fyrirframgreiddum barnabótum og ofgreiddum barnabótum, sbr. 4. málsl. 8. mgr. A-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 7. gr. reglugerðar um greiðslu barnabóta, nr. 555/2004. Jafnframt gildir sérstök regla um vaxtabætur, sbr. 14. mgr. B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en í reglugerð um greiðslu vaxtabóta, nr. 990/2001, eru talin upp þeir skattar og þau gjöld sem skylt er að skuldajafna á móti vaxtabótum.
    Þá er nýmæli í 9. gr. frumvarpsins að lögfesta skyldu til skuldajöfnunar inneignar á móti sakarkostnaði sem innheimtur er skv. 1.–3. mgr. 87. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Ákvæðið er sérregla um úrræði sem innheimtumanni ríkissjóðs er skylt að beita. Á þetta hefur reynt í framkvæmd, sbr. afstöðu umboðsmanns Alþingis sem fram kemur í bréfi hans, dags. 17. nóvember 1994. Í því kemur fram að á árinu 1994 hafi umboðsmanni borist kvörtun yfir því að sýslumaður hefði lokið aðalkröfu gjaldanda um endurgreiðslu oftekinna skatta með skuldajöfnun á móti greiðslu sakarkostnaðar samkvæmt tilteknum dómi Hæstaréttar frá árinu 1991. Afstaða umboðsmanns Alþingis var sú að í samræmi við almennar reglur um skuldajöfnun hefði skuldajöfnun verið heimil og væri því ekki grundvöllur fyrir frekari afskiptum hans af málinu.
    Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að lögfesta þá reglu að innheimtumönnum beri að skuldajafna inneignum á móti erlendum sköttum, gjöldum og sektum sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Enn fremur er áréttuð sú regla að skuldajafna skuli barnabótum á móti fyrirframgreiddum barnabótum og ofgreiddum barnabótum. Jafnframt er mælt fyrir um með skýrum hætti að skuldajafna skuli barnabótum á móti kröfu um ofgreiddar barnabætur sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Slík regla hefur ekki verið í reglugerð um greiðslu barnabóta, nr. 555/2004, en á sér stoð í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 frá 16. september 2009 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sbr. gildistöku þeirra með reglugerðum nr. 442 og 443/2012.
    Að lokum er lagt til að lögfest verði sú regla að skuldajafna skuli inneignum gjaldanda á móti gjaldföllnum sköttum, gjöldum og sektum sem gjaldandi ber sjálfskuldarábyrgð á, nema lög mæli fyrir á annan veg. Hér undir fellur m.a. ábyrgð skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og ábyrgð félagsmanna sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags, t.d. ábyrgðaraðilar samlagsfélaga.
    Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um ábyrgð á greiðslu skatta, gjalda og sekta. Með ábyrgð samkvæmt frumvarpi þessu er átt við sjálfskuldarábyrgð, þ.e. ábyrgð sem felur í sér að ábyrgðarmaður er skuldbundinn til greiðslu þeirra skatta sem lagðir eru á aðalskuldara á sama hátt og ef þeir væru lagðir á hann sjálfan. Því má gera aðför hjá ábyrgðarmanni til tryggingar þeim sköttum sem hann ber ábyrgð á samkvæmt lögum. Meginregla í skattarétti er að gjaldanda, sem ákvarðaður er skattur, hvort heldur sá gjaldandi er einstaklingur eða lögaðili, ber einn ábyrgð á greiðslu þeirra skatta. Innheimta skatta hjá þriðja manni er undantekningarregla og því þarf skýr lagaheimild að vera til staðar. Lögbundin sjálfskuldarábyrgð felur í sér að innheimtumaður ríkissjóðs getur gengið að hvorum aðila fyrir sig og er ekki hægt að undanskilja sig ábyrgð með samningi. Hér undir fellur ábyrgð skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem tekur m.a. til hjóna, samskattaðs sambúðarfólks og ábyrgðarmanna sameignarfélaga. Enn fremur fellur hér undir ábyrgð ábyrgðaraðila samlagsfélaga og annarra félagsmanna sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags.
    Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um skyldu launagreiðanda til að halda eftir af launum launþega sinna til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem lögð eru á launþega og innheimta ber samkvæmt lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Launagreiðanda ber einnig, að kröfu innheimtumanns, að draga af launum launþega þing- og sveitarsjóðsgjöld sem lögð eru á samsköttunaraðila og launþegi ber ábyrgð á skv. 1. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Launagreiðandi ber því sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þeirra gjalda sem honum ber að draga af skv. 1. mgr. 11. gr. hvort sem hann hefur sinnt þeirri skyldu sinni eður ei. Núgildandi lagaákvæði um launaafdrátt er að finna í 115. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en með frumvarpinu er lagt til að það falli brott, sbr. 22. gr. Ekki er um miklar efnislegar breytingar að ræða í 11. gr. frumvarps þessa frá 115. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem framkvæmdin verður með sambærilegum hætti og verið hefur. Ákvæðið hefur hins vegar verið gert skýrara. Helsta breytingin með ákvæðinu er sú að lagt er til að lögfesta skyldu launagreiðanda til að standa skil á afdregnum launum sex dögum eftir útborgun þeirra. Regluna er nú að finna í reglugerð um launaafdrátt, nr. 124/2001. Enn fremur er skýrt kveðið á um að dráttarvextir leggist á frá útborgunardegi skili launagreiðandi ekki fénu eða dragi það ekki af á réttum tíma. Jafnframt er lagt til það nýmæli í 9. mgr. 11. gr. að launaafdráttur sé heimill á meðan launþegi ber ábyrgð á kröfum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti skv. 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þá er einnig lagt til það nýmæli að Innheimtustofnun sveitarfélaga, stéttarfélög og lífeyrissjóðir skuli láta innheimtumanni í té upplýsingar og gögn vegna launaafdráttar, með rafrænum hætti, ef því verður við komið, til að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu við launaafdrátt. Enn fremur er nýmæli að mæla fyrir um að innheimtumaður ríkissjóðs sendi kröfu um launaafdrátt til launagreiðanda á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og jafnframt að ríkisskattstjóra sé heimilt að ákveða á hvaða formi skilagreinar launagreiðanda skuli vera. Með ákvæðinu er innheimtumönnum heimilað að senda kröfur til launagreiðanda einungis með rafrænum hætti ákveði ríkisskattstjóri svo.
    Launaafdráttur er hagkvæm, skilvirk og árangursrík leið við innheimtu skatta og gjalda til hagræðis fyrir launþega sem og ríkissjóð. Launaafdrætti vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda er ekki eingöngu beitt um laun í eiginlegri merkingu þess orðs heldur einnig vegna ágóðaþóknunar, ökutækjastyrkja og annarra fríðinda. Greiðsla staðgreiðslu opinberra gjalda samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda gengur framar launaafdrætti vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 45/1987. Mikilvægt er að greina á milli skyldu launagreiðanda til að halda eftir staðgreiðslu launa samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og launaafdráttar. Launagreiðanda ber að halda eftir og greiða til ríkissjóðs staðgreiðslu af launum sem er í raun bráðabirgðagreiðsla þar til uppgjör fer fram við álagningu ár hvert. Komi í ljós að gjaldandi skuldar við álagningu er launagreiðanda send krafa um afdrátt af launum umfram staðgreiðslu. Sú krafa er krafa um launaafdrátt.
    Launaafdráttur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda er lögbundið innheimtuúrræði sem lýtur ekki reglum stjórnsýsluréttar um andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Launagreiðanda er því skylt að verða við kröfu innheimtumanns um launaafdrátt vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda. Útreikningur launa fer að jafnaði fram nokkrum dögum fyrir útborgun þeirra og verður launagreiðandi því að fá upplýsingar um þing- og sveitarsjóðsgjöld launþega sinna með nokkrum fyrirvara. Til að launagreiðanda sé unnt að verða við kröfu innheimtumanns er eðli máls samkvæmt nauðsynlegt að innheimtumaður sendi launagreiðanda upplýsingar um þing- og sveitarsjóðsgjöld launþega fyrir fram, jafnvel áður en ríkisskattstjóri hefur birt álagningu opinberra gjalda einstaklinga skv. 98. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Áfrýjun skattákvörðunar eða deila um skattskyldu frestar ekki eindaga tekjuskatts, innheimtuúrræðum eða leysir undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu skatta og gjalda, sbr. 4. gr. frumvarps þessa, sbr. einnig 1. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem lagt er til að verði felldur brott með frumvarpi þessu. Launaafdráttur er því heimill í slíkum tilvikum. Sama gildir þegar gjaldandi hefur ekki skilað inn skattframtali til ríkisskattstjóra og skal þá beita launaafdrætti um áætlanir eins og um skuld samkvæmt skattskýrslum sé að ræða. Lögboðnir dráttarvextir leggjast einnig á skatta og gjöld þrátt fyrir að um þau hafi verið gerð greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar.
    Í 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild innheimtumanns ríkissjóðs til að gera greiðsluáætlanir við gjaldendur í vanskilum. Heimild innheimtumanna til gerðar greiðsluáætlana hefur ekki verið lögfest heldur hefur hún byggt á meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Á árinu 2018 voru gerðar 13.012 greiðsluáætlanir hjá tollstjóra, nú ríkisskattstjóra. Þetta er því virkt innheimtuúrræði sem kemur til móts við gjaldendur í vanskilum.
    Þrátt fyrir að reglur um greiðsluáætlanir hafi ekki verið lögfestar áður hefur regla um samningsgerð komið fram í reglugerð um launaafdrátt, nr. 124/2001. Með greiðsluáætlun er gjaldanda veittur greiðslufrestur með því að dreifa greiðslum og fresta þannig innheimtuaðgerðum á meðan gjaldandi stendur við greiðslur samkvæmt greiðsluáætlun. Hagsmunum ríkissjóðs er þjónað með viðtöku greiðsluáætlana þar sem gjaldandi viðurkennir skuldina með undirritun sinni og rýfur fyrningu hennar. Þar með eykst sá tími sem krafan nýtur lögverndar og unnt er að innheimta hana. Nauðsynlegt er að þessar mikilvægu heimildir innheimtumanns ríkissjóðs séu festar í lög enda um að ræða úrræði sem kemur til móts við gjaldendur í vanskilum. Gjaldandi getur nýtt úrræðið á öllum stigum innheimtu, nema þegar mál hans er komið í fjárnámsferli. Greiðsluáætlanir eru ekki samningar um lækkun eða niðurfellingu krafna á hendur gjaldendum heldur eru þær áætlanir um hvernig vanskilakrafa skuli greidd. Ríkisskattstjóri setur verklagsreglur um nánari skilyrði um gerð greiðsluáætlana.
    Í 13. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild innheimtumanns ríkissjóðs, þar sem lög kveða á um, til að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur hjá aðilum sem ekki gera fullnægjandi skil á sköttum og gjöldum. Um íþyngjandi heimild innheimtumanns ríkissjóðs er að ræða og eru því tilkynningar sendar til gjaldenda þar sem varað er við stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskila á tilteknum sköttum og gjöldum. Gjaldendum er gefinn kostur á að gera skil á gjöldunum innan tiltekins tíma áður en til stöðvunar atvinnurekstrar kemur. Í dag eru lagaheimildir til stöðvunar atvinnurekstrar m.a. í gildi varðandi staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts, sbr. 4. mgr. 18. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, staðgreiðslu tryggingagjalds, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, virðisaukaskatt, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, skilagjald af einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, gistináttaskatt, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um gistináttaskatt, nr. 87/2011, og fjársýsluskatt, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.
    Í 14. gr. frumvarpsins er lagt til að núgildandi heimildir ríkisskattstjóra til kyrrsetningar sem fram koma í skattalögum verði færðar yfir í frumvarp þetta með lítils háttar breytingum. Ákvæði sem heimila kyrrsetningu voru leidd í lög með lögum nr. 23/2010 og 24/2011. Þar með voru stjórnvöldum veittar auknar heimildir til kyrrsetningar til að koma í veg fyrir að aðilar sem væru til skattrannsóknar kæmu eignum undan eða færðu þær yfir í hendur annarra áður en rannsókn skattrannsóknarstjóra lyki. Eðlilegt þykir að slíkt ákvæði sé að finna í frumvarpi þessu ásamt ákvæðum um önnur innheimtuúrræði. Því er lagt til að ákvæðið falli brott úr lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. 22. gr. frumvarpsins, sem og öðrum skattalögum sem hafa að geyma ákvæði um kyrrsetningar, þ.e. úr 31. gr. a laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, 20. gr. a laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, og 41. gr. a laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Ríkisskattstjóri annast rekstur kyrrsetningarmála á landsvísu að kröfu skattrannsóknarstjóra.
    Ríkisskattstjóri hefur samkvæmt ákvæðinu heimild til að kyrrsetja eignir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum til að tryggja greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar þó svo að ekki sé búið að ákvarða kröfuna eða sektina. Kyrrsetning er bráðabirgðaaðgerð og tilgangur hennar er að tryggja að eignir verði fyrir hendi til að gera fjárnám í þegar skattákvörðun eða ákvörðun um sekt liggur fyrir. Málsmeðferð vegna skattalagabrota getur oft tekið mjög langan tíma og því getur verið hætta á að eignum sé komið undan enda má skattaðilum oft vera ljóst þegar við upphaf skattrannsóknar að til endurákvörðunar muni koma og fésektum verði beitt.
    Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði 4. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, um nauðasamning flytjist yfir í frumvarp þetta með ákveðnum breytingum. Nauðasamningur er samningur um greiðslu skulda eða eftirgjöf þeirra, sem kemst á milli skuldara og nauðsynlegs meirihluta kröfuhafa. Til að slíkur samningur öðlist gildi þarf hann að vera staðfestur fyrir dómi. Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, gilda um nauðasamninga. Markmið nauðasamnings er að ráða bót á ógjaldfærni skuldara og þá einkum með því að lækka skuldir þannig að skuldari verði frekar fær um að standa í skilum. Í ákvæðinu eru talin upp í fimm töluliðum þau skilyrði sem verða að vera uppfyllt svo innheimtumanni ríkissjóðs sé heimilt að samþykkja nauðasamning. Bætt hefur verið við skilyrðum fyrir samþykki nauðasamnings og þeim breytt. Horfið er frá aðkomu ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar auk þess sem sett eru þau skilyrði að skattar og gjöld séu ekki byggð á áætlunum stjórnvalda og að gjaldandi skuldi ekki skattsekt yfirskattanefndar, skattsekt skattrannsóknarstjóra eða fésekt ársreikningaskrár ríkisskattstjóra. Með skýrum lagaskilyrðum eru innheimtumönnum ríkissjóðs settar skorður um hvenær heimilt sé að samþykkja nauðasamning. Í ljósi sérstaks hlutverks ríkisskattstjóra sem innheimtumanns, sbr. 3. gr. þessara laga, skal hann setja verklagsreglur um framkvæmd innheimtumanna við mat á hvort samþykkja eigi nauðasamning. Bæði einstaklingar og lögaðilar geta fengið nauðasamning samþykktan en þó gæti greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara verið skilvirkara og hentugra úrræði fyrir einstaklinga í mörgum tilfellum.
    Þá er að finna nýmæli í 16. gr. frumvarpsins sem varðar heimild ríkisskattstjóra til að afskrifa eldri kröfur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum þegar ljóst þykir að kröfurnar verði aldrei að fullu greiddar. Hér er um að ræða undantekningarheimild sem skýra ber þröngt þar sem meginreglan er að gildar kröfur eru ekki afskrifaðar. Þessi heimild kæmi til greina í undantekningartilvikum að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins. Umsóknir um þessa undanþágu skulu berast til ríkisskattstjóra.
    Í 17. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um skyldu innheimtumanns ríkissjóðs til að tilkynna grun um refsiverða háttsemi gjaldenda eða annarra til skattrannsóknarstjóra ríkisins, lögreglu, héraðssaksóknara eða annarra stjórnvalda sem rannsókn háttseminnar heyrir undir, með þeirri undantekningu að ekki þarf að tilkynna standi sérstök rök til annars. Jafnframt er mælt fyrir um skyldu innheimtumanns til að veita þessum stjórnvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem þau óska eftir og unnt er að láta þeim í té. Ákvæðið gengur framar trúnaðar- og þagnarskylduákvæðum frumvarps þessara og annarra laga.
    Í 18. gr. frumvarpsins kemur fram að miðlun gagna og málsmeðferð sé heimil með rafrænum hætti, sbr. 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Rafræn birting tilkynninga um álagningu skatta og gjalda er nú þegar meginreglan, sbr. lög um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda, nr. 132/2018. Á rafrænni þjónustugátt verður unnt að birta öll samskipti og tilkynningar, t.d. um gjaldfallnar kröfur, inneignir, vaxta- og barnabætur, fjárnám og um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar. Jafnframt er að því stefnt að gjaldendur geti gert greiðsluáætlanir með rafrænum hætti. Rafræn birting er almennt mun einfaldari í framkvæmd en bréfasendingar og hefur hagræði í för með sér. Enn fremur er rafræn birting öruggari birtingarmáti en bréfasendingar. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að ríkisskattstjóra sé heimilt að ákveða að greiðsla skatta, gjalda og sekta skuli eingöngu fara fram með rafrænum hætti.
    Lagt er til að lögfest verði í 19. gr. ákvæði sem lýtur að heimildum innheimtumanns til þess að fá upplýsingar frá þriðja aðila. Markmiðið er að innheimtumenn ríkissjóðs hafi sambærilegar heimildir til aðgangs að nauðsynlegum upplýsingum og skattyfirvöld hafa skv. 1. og 5. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Jafnframt er lagt til að innheimtumanni verði tryggður sambærilegur aðgangur að upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum og veittur er með 2. mgr. 93. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Nauðsynlegt er að innheimtumaður hafi víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar um eignir og skuldir við innheimtu skatta og gjalda svo hann geti rækt lögbundið hlutverk sitt m.a. við innheimtuaðgerðir og eignakönnun. Gæta skal reglna stjórnsýsluréttar um meðalhóf og jafnræði við beitingu heimildar þessarar. Hafa ber í huga að skattgreiðendur njóta friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Því ber að gæta að ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Opinberum starfsmönnum ber að gæta þagnarskyldu í störfum sínum. Hingað til hefur 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verið látin taka til innheimtumanns ríkissjóðs en þar er ekki vísað til hans með beinum hætti. Því þykir ástæða til að setja lagaákvæði sem tekur sérstaklega til innheimtumanns og ítreka þar með þagnarskyldu starfsmanna innheimtumanna ríkissjóðs, sbr. 20. gr. frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta fjallar um innheimtu skatta, gjalda og sekta sem lögð eru á af stjórnvöldum og sem innheimtumönnum ríkissjóðs er falið að innheimta. Gildissvið laganna felur í sér að gæta þarf að samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar, sér í lagi er varða 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, um að skattamálum skuli skipað með lögum. Þá varða lögin einnig 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Einnig hefur samræmis verið gætt vegna alþjóðlegra samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki í skattamálum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir alla gjaldendur opinberra skatta, gjalda og sekta sem innheimt eru af innheimtumönnum ríkissjóðs, sem og þá sem skulda skatta, gjöld og sektir í ríkjum sem gert hafa samninga við Ísland.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við innheimtu- og skráasvið ríkisskattstjóra. Samráð var jafnframt haft á vinnslustigi við Fjársýslu ríkisins.
    Áform um lagasetningu ásamt frummati á áhrifum lagasetningar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda hinn 2. júlí 2019 og lauk 16. júlí 2019, sbr. mál nr. 221/2019. Tvær umsagnir bárust um áformin, frá sýslumanninum á Norðurlandi vestra og Sýslumannafélagi Íslands þar sem áformunum var fagnað og hvatt til frekara samráðs á vinnslustigi frumvarpsins.
    Drög að ákvæðum frumvarpsins ásamt greinargerð voru birt í samráðsgátt stjórnvalda hinn 24. júlí 2019 með fresti til 28. ágúst til umsagna, sbr. mál nr. 196/2019. Umsagnir sem bárust í samráðsgáttina og var einnig beint til ráðuneytisins voru fjórar talsins frá sex aðilum: Ríkisendurskoðun, Persónuvernd, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum fjármálafyrirtækja og Nasdaq CSD. Athugasemdirnar lutu aðallega að ákvæðum frumvarpsins sem varða persónuvernd og Ríkisendurskoðun gerði nokkrar efnislegar athugasemdir við önnur ákvæði, m.a. um aðkomu stofnunarinnar að nauðasamningum og afskriftum. Þá lutu athugasemdir samtakanna að reglum frumvarpsins um endurgreiðslur oftekinna skatta og gjalda sem og ákvæði 7. gr. er varða útgáfu skuldleysisvottorða og hvenær gjaldandi telst vera í vanskilum. Í kjölfar úrvinnslu umsagna var birt sérstakt skjal á samráðsgátt stjórnvalda þar sem afdrif hverrar athugasemdar og áhrifa hennar á frumvarpið koma skýrt fram. Tekin var ákvörðun um að veita hagsmunaaðilum tækifæri til að koma með frekari athugasemdir við drögin eftir það með birtingu frumvarpsins á samráðsgátt öðru sinni hinn 11. september 2019 með fresti til athugasemda til 19. september 2019, sbr. mál nr. 221/2019.
    Tvær umsagnir bárust í samráðsgátt við birtingu frumvarpsins í annað sinn. Annars vegar barst sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum verslunar og þjónustu og hins vegar barst umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Athugasemdir samtakanna fimm lutu áfram að endurgreiðsluákvæði frumvarpsins, útgáfu innheimtumanna á skuldleysisvottorðum og lögð var áhersla á að gæta að reglum laga um meðferð persónuupplýsinga og ákvæðum upplýsingalaga í hvívetna. Jafnframt lögðu samtökin til að með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga mætti bæta við ákvæði í lögin um takmörkun á aðgangi almennings að upplýsingum um eignir, skuldir, tekjur og fjárhagsstöðu.
    Samband íslenskra sveitarfélaga kom á framfæri athugasemdum um innheimtuþóknun sveitarfélaga til ríkisins ásamt því að sjónarmið um aðgang sveitarfélaga að álagningarskrá voru tíunduð svo sveitarfélögin hefðu betri upplýsingar um heildarálagningu í sveitarfélaginu og áætlaðar tekjur af skattheimtu. Enn fremur kom fram í umsögn sambandsins að tilefni væri til að kanna hvort bæta megi við frumvarpið ákvæði um formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga, mögulega með aðkomu fleiri aðila, um bætt skattskil. Þá kom einnig fram að það teldi ráð að vinna að því að fækka áætlunum sér í lagi vegna erlendra ríkisborgara og finna leiðir til að þeir skili inn skattframtölum áður en þeir skrá sig úr landi hjá Þjóðskrá. Margar athugasemdanna vörðuðu efni frumvarpsins ekki beint. Samráð var haft á vinnslustigi við persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins og ríkisskattstjóra. Ráðuneytið lagði sig að auki eftir umsögn Persónuverndar og barst umsögn stofnunarinnar hinn 15. október 2019. Fram kom í umsögninni að með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru milli fyrri og seinni birtingar frumvarpsdraganna í samráðsgátt væru ekki gerðar athugasemdir við þá vinnslu persónuupplýsinga sem kveðið væri á um í drögunum. Þá fékk ráðuneytið einnig athugasemdir frá skattrannsóknarstjóra ríkisins eftir að umsagnarfresti lauk, sem leiddu til smávægilegra breytinga á kyrrsetningarákvæði frumvarpsins, auk þess sem ákvæði frumvarpsins um tilkynningar til skattrannsóknarstjóra og ákæruvalds var breytt með þeim hætti að innheimtumaður hafi skyldu til þess að tilkynna grun um refsivert athæfi gjaldanda eða annarra en ekki aðeins heimild, með ákveðinni takmörkun svo meðalhófs sé gætt.
    Efni frumvarpsins hefur aðeins óbeina skörun við stjórnarmálefni annarra ráðuneyta.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Gert er ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi jákvæð áhrif á almannahagsmuni og helstu hagsmunaaðila, þar sem leiddar eru í lög skýrar reglur sem innheimtumönnum ríkissjóðs ber að fara eftir við innheimtu opinberra skatta, gjalda og sekta en sumar þeirra voru hvergi birtar. Sömuleiðis hafa eldri reglur verið endurskoðaðar og skýrðar.
    Vænta má að samþykkt frumvarpsins hafi einnig jákvæð áhrif á stjórnsýslu ríkisins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er gildissviði frumvarpsins lýst í fjórum málsgreinum.
    Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lögin taki til innheimtu á sköttum, gjöldum og sektum ásamt vöxtum, álagi og kostnaði sem lögð eru á af stjórnvöldum og sem innheimtumönnum ríkissjóðs er falið að innheimta. Með sköttum og gjöldum er átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt og innheimtumönnum ríkissjóðs er falið að innheimta, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Helstu skattar og gjöld sem innheimtumenn innheimta eru tekjuskattur, útsvar sem innheimt er fyrir sveitarfélög, virðisaukaskattur, fjármagnstekjuskattur, tryggingagjald, staðgreiðsla, bifreiðagjald, aðflutningsgjöld, þing- og sveitarsjóðsgjöld einstaklinga og þinggjöld lögaðila. Með sektum sem lagðar eru á af stjórnvöldum og sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta er átt við stjórnvaldssektir og dagsektir. Dómsektir og lögreglustjórasektir falla ekki hér undir þar sem þær eru innheimtar á grundvelli laga um fullnustu refsinga. Helstu sektir sem innheimtumenn innheimta eru fésekt ársreikningaskrár, skattsekt yfirskattanefndar, skattsekt skattrannsóknarstjóra og ýmsar aðrar stjórnvaldssektir og dagsektir. Innheimtumanni getur verið falið að innheimta sektir með lögum, reglugerðum eða að beiðni annarra þar til bærra stjórnvalda.
    Í 2. mgr. 1. gr. segir að lögin gildi jafnframt um innheimtu erlendra skatta, gjalda og sekta sem innheimtumanni er falið að innheimta á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Helstu samningar sem Ísland hefur gert við önnur ríki um gagnkvæma aðstoð við innheimtu skatta og gjalda eru samningur milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum frá árinu 1989, sbr. lög nr. 46/1990, og milliríkjasamningur milli Evrópuráðsins og OECD um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 74/1996. Með erlendum sektum í ákvæði þessu er eingöngu átt við sektir sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Undir ákvæðið falla ekki erlendar sektir sem Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar er falið að innheimta.
    Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að lögin gildi um endurgreiðslur stjórnvalda vegna oftekinna skatta og gjalda. Þá taka lögin einnig til endurgreiðslna vegna oftekinna sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum. Lögin gilda þó ekki um endurgreiðslu sekta sem innheimtar eru á grundvelli laga um fullnustu refsinga eða með vísan til þeirra. Ákvæði þetta á ekki við ef sérákvæði annarra laga um skatta, gjöld og sektir mæla fyrir á annan veg, sbr. 4. mgr. 1. gr. Ákvæði um endurgreiðslu er í 8. gr. frumvarpsins en gildissvið ákvæðisins er afmarkað í 3. mgr. 1. gr. Ákvæðið tekur til endurgreiðslna stjórnvalda en með stjórnvöldum er átt við stjórnvöld í skilningi stjórnsýslulaga, þ.e. ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra. Þá hefur ákvæðið víðtækara gildissvið en önnur ákvæði frumvarpsins þar sem það tekur ekki eingöngu til innheimtumanna ríkissjóðs. Þannig tekur það t.d. til endurgreiðslna sýslumanna vegna oftekins erfðafjárskatts og stimpilgjalds. Enn fremur er það nýmæli að ákvæðið taki til endurgreiðslna vegna oftekinna sekta sem lagðar hafa verið á af stjórnvöldum og tekur því ákvæðið t.d. til endurgreiðslna Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar vegna ýmissa stjórnvaldssekta. Með sektum sem lagðar eru á af stjórnvöldum er átt við stjórnvaldssektir og dagsektir.
    Með ákvæðinu er lagt til að ákvæði 8. gr. frumvarpsins um endurgreiðslur gildi um allar endurgreiðslur stjórnvalda vegna oftekinna skatta, gjalda og sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum, nema sérstaklega sé tekið fram í öðrum lögum að önnur regla gildi. Slíkar sérreglur eru t.d. í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sbr. 4. mgr. 28. gr., 3.–4. mgr. 25. gr. og 3. mgr. 29. gr. laganna, og hafa þær að geyma sérreglur um dráttarvexti sem ganga framar ákvæði 8. gr. frumvarpsins. Jafnframt er sérstök regla um endurgreiðslu í 36. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og í 10. gr. a og b í lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.
    Ákvæði 8. gr. frumvarpsins kemur til fyllingar 125. gr. tollalaga, nr. 88/2005, þar sem ákvæði tollalaga er ekki jafn ítarlegt. Í 125. gr. er sams konar regla um endurgreiðslu og lögð er til í frumvarpi þessu en ákvæði 4.–7. mgr. 8. gr. koma henni til fyllingar. Ákvæðið kemur að auki til fyllingar sérlagaákvæðum um endurgreiðslur sem ekki hafa að geyma ítarleg ákvæði um endurgreiðslu, t.d. 2. mgr. 114. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, 2. mgr. 13. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, 2. mgr. 11. gr. laga um fjársýsluskatt, nr. 165/2011 og 6. mgr. 17. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004. Þá skal ákvæðið gilda um endurgreiðslur þar sem sérlagaákvæði um skatta og gjöld hafa engar reglur um endurgreiðslu, t.d. lög um veiðigjald, nr. 145/2018. Enn fremur skal ákvæðið gilda þegar sérlagaákvæði vísa með almennum hætti til laga um tekjuskatt eða frumvarps þessa verði það að lögum.
    Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að sérákvæði annarra laga um skatta, gjöld og sektir, sem mæla fyrir á annan veg, gangi framar ákvæðum laga þessara. Helstu sérlög um skatta og gjöld eru lög um virðisaukaskatt, lög um tekjuskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög um tryggingagjald, lög um tekjustofna sveitarfélaga, tollalög og lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Í þessari takmörkun á gildissviðinu felst m.a. að sérákvæði annarra laga um skatta og gjöld sem hafa að geyma annars konar ákvæði um gjalddaga, álagningu dráttarvaxta o.fl. ganga framar 7. gr. frumvarpsins. Sem dæmi má nefna að 1. mgr. 125. gr. tollalaga mælir fyrir um sérreglu um álagningu dráttarvaxta vegna endurákvörðunar. Dráttarvextir geta einnig lagst á sektir í ákveðnum tilvikum samkvæmt sérlögum og ganga þau ákvæði framar lögum þessum.

Um 2. gr.

    Í þessari grein eru skilgreind í sjö töluliðum helstu hugtök og orð sem vísað er til í ákvæðum frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins segir að innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtu skatta og gjalda. Fram kemur að með sköttum og gjöldum sé átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt. Þá kemur fram það nýmæli að innheimtumenn annist innheimtu sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum og þeim er falið að innheimta.
    Í 2. mgr. segir að ríkisskattstjóri sé innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu og sýslumenn í öðrum umdæmum. Ráðherra geti þó með reglugerð falið öðrum innheimtu tiltekinna gjalda. Þá er hér vísað í hlutverk innheimtumanna sem fram kemur í 2. gr. reglugerðar um innheimtumenn ríkissjóðs, nr. 1060/2014.
    Í 3. mgr. er hlutverk ríkisskattstjóra við innheimtu skilgreint. Tekið er fram að auk verkefna sem ríkisskattstjóra eru falin í 2. mgr. skuli ríkisskattstjóri annast nánar tiltekin verkefni er lúta að framkvæmd innheimtu skatta og gjalda. Verkefnin eru í þremur liðum, sem eru þau helstu sem ríkiskattstjóra eru sérstaklega falin. Þriðja atriðið varðar umsjón og þróun tölvukerfa og rafrænnar stjórnsýslu. Þau verkefni lúta að aukinni rafrænni þjónustu og einföldun á regluverki og framkvæmd innheimtunnar. Þá hafa þessi verkefni skörun við verkefni Fjársýslu ríkisins, sem annast rekstur sameiginlegra upplýsingakerfa sem tengjast fjármálum hjá ríkisaðilum í A-hluta, svo sem innheimtu, sbr. 64. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.
    Í 3. gr. reglugerðar um innheimtumenn ríkissjóðs, nr. 1060/2014, er fjallað um sérstakt hlutverk tollstjóra, nú ríkisskattstjóra, en þar eru nefnd fleiri sérstök verkefni sem honum eru falin sem innheimtumanni ríkissjóðs. Þau eru í fyrsta lagi birting almennra greiðsluáskorana skv. 8. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, fyrir hönd innheimtumanna ríkissjóðs. Í öðru lagi er það ákvarðanataka um boð innheimtumanna ríkissjóðs í eignir fyrir hönd ríkissjóðs á nauðungaruppboðum en við þá ákvörðun skal tekið mið af því hvernig hagsmunum ríkissjóðs er best borgið. Í þriðja lagi taka ákvarðana um ábyrgð á auknum skiptakostnaði vegna endurheimtu verðmæta við gjaldþrotaskipti. Í fjórða lagi eftirlit með afskriftum skatta og gjalda á landsvísu. Í fimmta lagi greiningarstarf vegna áhættustjórnunar við innheimtu opinberra gjalda og í sjötta lagi fræðslustarf fyrir starfsfólk innheimtuembætta um innheimtumálefni. Ríkisskattstjóri fer jafnframt með ákveðin verkefni á landsvísu, sbr. 4.–7. gr. reglugerðarinnar.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um þá meginreglu tekjuskattslaga með örlítið breyttum hætti úr 1. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að áfrýjun eða deila um skattskyldu fresti ekki eindaga skatta og gjalda né leysi undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu þeirra. Innheimtumönnum ríkissjóðs ber að innheimta skatta og gjöld sem byggja á áætlunum skattyfirvalda með sama hætti og skuld samkvæmt skattskýrslum. Með skattskýrslum er átt við þær skýrslur sem skila ber til álagningaraðila, t.d. framtöl og skilagreinar. Þá kemur fram að innheimtuúrræðum er ekki frestað þótt skattskýrslu hafi ekki verið skilað eða skattálagning verið kærð. Ekki er hér um efnisbreytingu að ræða frá núgildandi ákvæði 1. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, heldur er orðalagi breytt til frekari skýringar. Með innheimtuúrræðum er m.a. átt við skuldajöfnun, launaafdrátt, fjárnámsbeiðni og stöðvun atvinnurekstrar.
    Í ákvæðinu felst að ágreiningur um skattskyldu frestar ekki innheimtuúrræðum og innheimtumönnum ríkissjóðs ber að innheimta skatta og gjöld sem byggjast á áætlunum með sama hætti og skuld samkvæmt skattskýrslum. Innheimtumanni ríkissjóðs ber að gæta jafnræðis við innheimtu skatta og gjalda og það leiðir af jafnræðisreglu að ekki er hægt að veita einstökum gjaldendum fresti umfram aðra. Þessi regla tryggir að gjaldendur sem ekki sinna lögboðinni skyldu um skattskil njóti þannig ekki betri réttar en þeir sem skila inn skýrslum og framtölum í samræmi við lög. Kæra á áætlun eða beiðni um endurskoðun skatta og gjalda kemur ekki í veg fyrir innheimtu hinna áætluðu skatta og frestar ekki innheimtu. Á grundvelli þessa ákvæðis frestar innheimtumaður ríkissjóðs almennt ekki fyrirtöku málsins hjá sýslumanni eftir að fjárnámsbeiðni hefur verið send sýslumanni, jafnvel þótt öllum gögnum hafi verið skilað til skattyfirvalda.
    Innheimtumenn ríkissjóðs eiga að gæta að meginreglum stjórnsýsluréttarins um meðalhóf og jafnræði við innheimtu. Í því sambandi er bent á að áður en fjárnámsbeiðni er send sýslumanni hafa almennar greiðsluáskoranir verið birtar í blöðum, álagningarseðill hefur verið birtur og gjaldandi hefur almennt haft þann kost að gera greiðsluáætlun til að fresta útsendingu fjárnámsbeiðni auk þess sem almenn innheimtubréf eru send reglulega þar sem skorað er á gjaldanda að greiða skuldina. Þá geta gjaldendur að eigin frumkvæði aflað upplýsinga um skuldastöðu sína með rafrænum hætti. Ef um er að ræða áætlun skatta og gjalda getur gjaldandi einnig lagt fram staðfestingu á framtalsskilum og bráðabirgðaútreikning á gjöldunum. Greiðsluáætlun er þá gerð með hliðsjón af þeim gögnum sem hann leggur fram og getur innheimtumaður þar með frestað því að senda fjárnámsbeiðni til sýslumanns.
    Hafi fjárnámsbeiðni verið send sýslumanni er almennt ekki hægt að gera greiðsluáætlun fyrr en beiðnin hefur verið tekin fyrir hjá sýslumanni. Eftir að fjárnámsbeiðnin hefur verið tekin fyrir hjá sýslumanni getur gjaldandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum gert greiðsluáætlun hjá innheimtumanni og frestað þannig frekari innheimtuaðgerðum, svo sem útsendingu nauðungarsölubeiðni og gjaldþrotaskiptabeiðni.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. frumvarpsins er áréttuð sú meginregla að unnt sé að skjóta ákvörðun innheimtumanns til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga sem og að krefjast endurupptöku. Að auki hafa sveitarfélög sama rétt og gjaldendur til að kæra útsvarsálagningu til ríkisskattstjóra og áfrýja úrskurðum til yfirskattanefndar, sbr. 31. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

Um 6. gr.

    Kveðið er á um jafnræðisreglu í 6. gr. frumvarpsins, þar sem segir að gæta skuli þess að allir gjaldendur sem eins stendur á um hljóti sams konar meðferð. Um grundvallarreglu er að ræða sem er einnig undirstaða annarra ákvæða í frumvarpi þessu, svo sem 8. gr. um endurgreiðslu ofgreiddra skatta, gjalda og sekta, 7. gr. um álagningu dráttarvaxta, 4. gr. um að innheimtuúrræðum sé ekki frestað o.fl. Ákvæðinu er ætlað að koma í stað 2. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en er þó orðað með almennari hætti.
    Ríkisskattstjóra er falið samræmingar- og eftirlitshlutverk gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs sem felur m.a. í sér að setja verklagsreglur um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Hlutverk verklagsreglna er að tryggja samræmt verklag hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Þannig er stuðlað að samræmdum innheimtuaðgerðum hjá öllum innheimtumönnum ríkissjóðs og jafnræði gjaldenda óháð búsetu þeirra.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að hafi skattar eða gjöld ekki verið greidd á eindaga skuli greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Í lögboðnum tilvikum bætist við álag, t.d. skv. 27. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 28. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Þá er tekið fram að dráttarvextir sem leggjast á skatta og gjöld eru hluti kröfunnar og fyrnast ekki sjálfstætt. Sú regla hefur verið staðfest í dómaframkvæmd, t.d. með dómi Hæstaréttar Íslands 20. apríl 2018 í máli nr. 238/2017, þar sem vísað var til 1. mgr. 2. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007. Rétt þykir að árétta regluna í frumvarpi þessu til skýringar fyrir gjaldendur. Í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um að dráttarvextir leggist á sektir þótt slíkt geti átt við samkvæmt sérlögum.
    Í 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að vextir leggist við höfuðstól í samræmi við 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Í 3. mgr. ákvæðisins segir að óheimilt sé að lækka eða fella niður dráttarvexti og álag nema lög mæli fyrir á annan veg. Innheimtumenn ríkissjóðs eru bundnir af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar við innheimtu skatta og gjalda. Það þýðir að þeir gjaldendur sem eins er ástatt um skulu hljóta sömu meðferð. Því er ekki unnt að veita einstökum gjaldendum ívilnanir á borð við að lækka eða fella niður dráttarvexti án þess að þeim sé fundin stoð í lögum.
    Þá segir í 4. mgr. 7. gr. að gjaldandi skuli greiða lögboðinn kostnað vegna innheimtuaðgerða og óheimilt sé að fella hann niður. Kostnaður er lagður á kröfu á grundvelli laga og reglna, sbr. t.d. lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, og verður því ekki felldur niður. Gjaldandi ber því ábyrgð á kostnaði sem fellur til vegna aðfarargerða, t.d. fjárnámsgjaldi og þinglýsingargjaldi. Þó svo að krafa lækki við skattbreytingu ber gjaldandi ábyrgð á þeim innheimtukostnaði sem hefur stofnast vegna innheimtuaðgerða. Um ábyrgð gjaldanda á kostnaði vísast m.a. til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2777/1999, þar sem fram kemur m.a. að það sé almenn regla að kröfuhafi geti krafið skuldara um þann kostnað sem stafar af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila skuldara, þannig að kröfuhafi verði skaðlaus.
    Í 5. mgr. 7. gr. kemur fram að innheimtumaður gefi ekki út skuldleysisvottorð til gjaldanda skuldi hann gjaldfallna skatta, gjöld eða sektir. Þetta á við þrátt fyrir að eindagi sé ekki kominn. Í dómi Hæstaréttar Íslands 23. febrúar 2012 í máli nr. 525/2011 kom fram að skattkröfur sem ekki voru greiddar á gjalddaga væru í vanskilum. Þá má einnig vísa til 1. mgr. 83. gr. a laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, þar sem segir að með yfirlýsingu um skuldleysi skuli fylgja vottorð frá toll- og skattyfirvöldum um að félagið skuldi ekki opinber gjöld. Þar er átt við allar gjaldfallnar skuldir hvort sem komið er fram yfir gjalddaga eða eindaga. Skuldleysisvottorð og yfirlit yfir stöðu skulda gjaldanda hafa jafnframt þýðingu við umsókn um ríkisborgararétt og vegna þátttöku í opinberu útboði, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, og 3. og 4. mgr. 68. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016. Á yfirliti um stöðu skulda frá innheimtumanni koma fram allar gjaldfallnar kröfur og er þar sérstaklega tekið fram að ef vextir hafa ekki verið lagðir á kröfurnar sé eindagi þeirra ekki kominn. Undantekning frá því eru ýmsar skattsektir og fésektir.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stjórnvöld skuli endurgreiða skatta, gjöld og sektir sem ofgreidd reynast lögum samkvæmt. Með stjórnvöldum er átt við ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra í skilningi stjórnsýslulaga. Ákvæðið tekur bæði til þess fjár sem kann að vera oftekið að kröfu stjórnvalda og þess sem greitt er umfram lagaskyldu af ástæðum sem eru gjaldanda sjálfum um að kenna. Í báðum tilvikum á gjaldandi rétt á endurgreiðslu og óháð því hvort hann hafi innt af hendi greiðslu með fyrirvara um lögmæti kröfu eða gert kröfu um endurgreiðslu. Þá segir að endurgreiðslan skuli greidd með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Gildir það óháð orsökum ofgreiðslunnar. Vextir eru greiddir frá þeim tíma sem ofgreitt var og þar til endurgreiðsla á sér stað, þ.e. fyrir allan þann tíma sem féð er í vörslu ríkissjóðs. Þá segir að vextir skuli þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að fé var oftekið. Ef gjaldandi á rétt á dráttarvöxtum leggjast vextir skv. 1. mgr. 8. gr. þó ekki á frá þeim tíma sem dráttarvextir leggjast á. Stjórnvöld skulu sjálf hafa frumkvæði að endurgreiðslum skv. 1. mgr. um leið og ofgreiðslan verður ljós enda hafi gjaldandi veitt stjórnvöldum upplýsingar um bankareikning.
    Í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins er lagt til að 3. mgr. 114. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, flytjist yfir í frumvarp þetta, sbr. 22. gr. frumvarpsins, og haldist óbreytt að öðru leyti. Dráttarvextir eru þannig greiddir frá því tímamarki sem yfirskattanefnd ber að vera búin að kveða upp úrskurð sinn, af fjárhæð sem yfirskattanefnd úrskurðar að skuli endurgreiða, eða dæmd er síðar. Fram að þeim tíma leggjast vextir á kröfuna í samræmi við 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Regla þessi tryggir að gjaldendur sem greiða umdeilda kröfu hafi sem mesta hagsmuni af því að fara strax með mál til yfirskattanefndar. Dráttur á slíku frumkvæði af hálfu gjaldanda leiði þannig ekki til hærri dráttarvaxtagreiðslna.
    Í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins segir að hafi dómsmál verið höfðað til endurgreiðslu skatta, gjalda eða sekta megi krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma sem dómsmál telst höfðað. Endurgreiðsla getur þó aldrei farið fram fyrr en dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að fella beri niður kröfu eða henni skuli breytt. Fram að málshöfðunardegi leggjast vextir á kröfuna í samræmi við 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins eru sett strangari skilyrði en í núgildandi lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, um hvenær greiða skuli gjaldanda dráttarvexti vegna oftekinna skatta, gjalda og sekta hafi krafa verið gerð um endurgreiðslu. Sjónarmið að baki þessari nýju reglu er að tryggja jafnræði gjaldenda og að þeir verði eins settir óháð því hvaða sérþekkingu eða sérfræðiaðstoð þeir búa yfir eða njóta. Ákvæði 4. mgr. 8. gr. frumvarps þessa hafa að geyma sérreglur sem ganga framar ákvæði 1. og 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, verði þau að lögum, sbr. 5. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði a-liðar 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins tekur til þeirra tilvika þegar krafa um endurgreiðslu er gerð eftir að inneign hefur myndast en ákvæði b-liðar 4. mgr. 8. gr. tekur til þeirra tilvika þegar krafa um endurgreiðslu er gerð áður en inneign hefur myndast. Kveðið er á um í a-lið 4. mgr. að sé inneign í sköttum, gjöldum eða sektum til staðar þegar krafa um endurgreiðslu er gerð skuli greiða gjaldanda dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem krafa er gerð til greiðsludags, fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá þeim degi sem krafa er gerð. Dráttarvextir leggjast því ekki á kröfuna ef hún er endurgreidd innan 30 daga frá því krafa er gerð. Í b-lið 4. mgr. segir að sé inneign í sköttum, gjöldum eða sektum ekki til staðar þegar krafa um endurgreiðslu er gerð skuli greiða gjaldanda dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem inneign myndaðist til greiðsludags, fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá þeim degi sem inneign myndaðist. Í þessu tilviki leggjast dráttarvextir ekki á kröfuna ef hún er endurgreidd innan 30 daga frá því inneignin myndaðist.
    Með inneign í sköttum, gjöldum eða sektum er til staðar eða myndun inneignar er átt við þann dag sem þar til bært stjórnvald hefur úrskurðað um inneigna. Með myndun inneignar er ekki átt við það tímamark þegar fé var oftekið.
    Krafa um endurgreiðslu eða fyrirvari með greiðslu hafa þannig ekki þýðingu fyrir álagningu dráttarvaxta nema inneign hafi myndast og 30 dagar séu liðnir frá því að krafa um endurgreiðslu var gerð. Þessi regla hvetur gjaldendur til að gera reka að endurgreiðslu eftir að inneign hefur myndast en eftir sem áður hvílir sú skylda á stjórnvöldum að hafa frumkvæði að endurgreiðslu svo fljótt sem ljóst verður að ofgreiðsla hafi átt sér stað. Kröfu um endurgreiðslu skal almennt beint til innheimtumanns ríkissjóðs, sem sér um endurgreiðslur vegna ofgreiddra skatta og annarra inneigna sem myndast í skattkerfinu.
    Í 5. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ákvæði 4. mgr. ákvæðisins gangi framar 1. og 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Með þessu er áréttuð sú regla sem lögð er til í 4. mgr. um að krafa um endurgreiðslu hafi ekki þýðingu fyrr en inneign hefur myndast. Gjaldandi getur því ekki öðlast ríkari rétt til dráttarvaxta með því að byggja á lögum um vexti og verðtryggingu.
    Í 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins er lagt til að endurgreiðsla skuli eingöngu fara fram með innborgun á bankareikning á nafni gjaldanda. Sé gefinn upp erlendur bankareikningur er innheimtumanni ríkissjóðs heimilt að draga frá inneign þóknun banka fyrir millifærslu til útlanda. Eðlilegt er að slíkur viðbótarkostnaður leggist á viðtakanda greiðslunnar. Þá er jafnframt kveðið á um að innborgun á bankareikning gjaldenda geti ekki farið fram ef skilyrði til skuldajöfnunar eru fyrir hendi. Með vísan til sjónarmiða um viðtökudrátt getur gjaldandi ekki öðlast rétt til dráttarvaxta hafi hann ekki veitt upplýsingar um bankareikning til útborgunar. Gjaldendur eiga ekki að hafa hag af því að draga að veita upplýsingar um bankareikning.
    Í 7. mgr. 8. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að fjórum árum eftir greiðslu eða eftir að inneign myndast falli endurgreiðslukrafa niður fyrir fyrningu og er sú regla sambærileg núgildandi reglu í 4. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995, og í samræmi við almennan fyrningarfrest krafna samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er kveðið á um að skuldajafna skuli inneignum á móti gjaldföllnum sköttum, gjöldum, sektum og sakarkostnaði, nema lög mæli fyrir á annan veg. Barnabætur eru undanþegnar, sbr. 4. málsl. 8. mgr. A-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en þó er skylt að skuldajafna þeim á móti fyrirframgreiddum barnabótum og ofgreiddum barnabótum. Með inneignum er átt við lögbundnar endurgreiðslur úr skattkerfinu, t.d. vegna ofgreiðslu gjaldanda, vaxtabóta og barnabóta og ýmissa skattbreytinga til lækkunar.
    Þá segir í 2. mgr. 9. gr. að skuldajafna skuli inneignum á móti erlendum sköttum, gjöldum og sektum sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki, nema lög mæli fyrir á annan veg.
    Í 3. mgr. 9. gr. er mælt fyrir um að barnabótum skuli skuldajafnað á móti fyrirframgreiddum barnabótum og ofgreiddum barnabótum. Regla þessi er í samræmi við 7. gr. reglugerðar um greiðslu barnabóta, nr. 555/2004, sbr. 4. málsl. 8. mgr. A-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lagt er til að lögfesta regluna sem nú er í reglugerðarákvæði til skýringar fyrir gjaldendur sem hafa oft mikilla hagsmuna að gæta. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að skuldajafna skuli barnabótum á móti kröfu um ofgreiddar barnabætur sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Rétt þykir einnig að veita þessari reglu skýra lagastoð.
    Í 4. mgr. 9. gr. kemur fram að skuldajafna skuli inneignum gjaldanda á móti gjaldföllnum sköttum, gjöldum og sektum sem gjaldandi ber sjálfskuldarábyrgð á, nema lög mæli fyrir á annan veg. Hér undir fellur skuldajöfnun á inneignum gjaldanda á móti gjaldföllnum sköttum, gjöldum og sektum sem gjaldandi ber sjálfskuldarábyrgð á skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Enn fremur fellur undir ákvæðið ábyrgð félagsmanna sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags, t.d. ábyrgðaraðilar sameignar- og samlagsfélaga, sbr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 1. mgr. 8. gr. laga um sameignarfélög, nr. 50/2007, og a-lið 1. mgr. 33. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903. Með frumvarpi þessu er áréttað að ofgreiddri staðgreiðslu er skuldajafnað á móti gjaldföllnum þing- og sveitarsjóðsgjöldum samskattaðs sambúðarfólks og hjóna, með vísan til sjálfskuldarábyrgðar þeirra, sbr. 116. gr. laga um tekjuskatt og 1. mgr. 36. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Sama gildir um inneignir í þing- og sveitarsjóðsgjöldum.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. 10. gr. kemur fram að beri gjaldandi ábyrgð á greiðslu skatta, gjalda eða sekta þriðja aðila samkvæmt öðrum lögum geti innheimtumaður ríkissjóðs gengið að honum til greiðslu þeirra skulda sem hann ber ábyrgð á. Með lögum er m.a. átt við 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. 30. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, 1. mgr. 8. gr. laga um sameignarfélög, nr. 50/2007, og a-lið 1. mgr. 33. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903. Ábyrgð skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, tekur m.a. til hjóna og samskattaðs sambúðarfólks, ábyrgðarmanna sameignarfélaga, lögráðamanna vegna skulda ófjárráða einstaklinga og erfingja þegar dánarbú er tekið til einkaskipta. Undir ákvæði frumvarpsins fellur ábyrgð annarra félagsmanna sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags, t.d. eiganda einkafirma og ábyrgðaraðila samlagsfélaga.
    Ábyrgð hjóna og samskattaðs sambúðarfólks skv. 1. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, tekur eingöngu til þing- og sveitarsjóðsgjalda. Ábyrgð félagsmanna sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð tekur til heildarskuldbindinga félags, þ.e. skatta, gjalda og sekta, sbr. t.d. 1. mgr. 8. gr. laga um sameignarfélög, nr. 50/2007, og a-lið 1. mgr. 33. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903. Ábyrgð erfingja vegna dánarbús sem er skipt einkaskiptum tekur til allra skatta, gjalda og sekta, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, og 2. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Í 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins segir að gera megi aðför hjá þeim, sem ábyrgð beri á sköttum, gjöldum eða sektum, til tryggingar þeim skuldum er hann ber ábyrgð á samkvæmt lögum.
    Í 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins segir að með ábyrgð samkvæmt þessari grein sé átt við sjálfskuldarábyrgð. Innheimtumanni er heimilt að hefja innheimtu gagnvart ábyrgðaraðila þrátt fyrir að innheimta hafi ekki verið fullreynd gagnvart þeim gjaldanda er álagning beinist að.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu launagreiðanda að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs að halda eftir af launum launþega til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem lögð eru á launþega og innheimta ber samkvæmt lögum um tekjuskatt og IV. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Þá er launagreiðendum skylt að kröfu innheimtumanns að halda eftir af launum launþega til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem hann ber sjálfskuldarábyrgð á skv. 1. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Skilgreiningu á þing- og sveitarsjóðsgjöldum er að finna í 2. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 11. gr. er mælt fyrir um að innheimtumaður sendi kröfu um launaafdrátt til launagreiðanda á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Þegar litið er til þróunar rafrænna möguleika í stjórnsýslunni verður að horfa til aukinna rafrænna skila. Með ákvæðinu er innheimtumanni ríkissjóðs heimilað að senda kröfur á launagreiðanda einungis með rafrænum hætti. Sama gildir um skil launagreiðanda á sundurliðunum um launaafdrátt til innheimtumanns.
    Í 3. mgr. 11. gr. er kveðið á um að frádráttur launagreiðanda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, þing- og sveitarsjóðsgjalda, lögbundinna iðgjalda í lífeyrissjóð og stéttarfélag og meðlags samkvæmt kröfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga skuli aldrei vera meiri en sem nemur 75% af heildarlaunum launþega. Launþegi skuli því halda eftir að lágmarki 25% til framfærslu. Lífeyrissjóðsiðgjöld umfram 4% af iðgjaldsstofni falla ekki undir þessa reglu. Ef launþegi sem skuldar þing- og sveitarsjóðsgjöld vill lækka þá fjárhæð sem haldið er eftir af launum hefur hann möguleika á að gera greiðsluáætlun hjá innheimtumanni ríkissjóðs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Á grundvelli sérákvæða í lögum ganga skil launagreiðanda á staðgreiðslu og vangoldnum meðlagsgreiðslum framar kröfu innheimtumanna um launaafdrátt, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga, nr. 491/1996, og 3. mgr. 15. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
    Í 4. mgr. 11. gr. er lögfest skylda launagreiðanda til að standa skil á afdregnum launum skv. 1. mgr. sex dögum eftir útborgun þeirra. Beri lokadag skilafrests upp á almennum frídegi lengist fresturinn til næsta virka dags þar á eftir. Að öðru leyti ber að telja frídaga með þegar fresturinn er reiknaður, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þeim tilvikum sem um er að ræða fleiri en einn útborgunardag í mánuði, skal miða við fyrsta útborgunardag. Regluna er nú að finna í reglugerð um launaafdrátt, nr. 124/2001. Lagt er til að ákvæði reglugerðarinnar verði fært í lög. Ætla má að framkvæmdin verði skilvirkari enda er skýr ábyrgð lögð á launagreiðanda um skil innan sex daga frá útborgunardegi. Sex daga reglan byggir á því sjónarmiði að launagreiðandi fari ekki með vörslur fjár sem er í eigu ríkissjóðs lengur en nauðsyn krefur. Telja verður að sex daga frestur sé nægilegur fyrir launagreiðanda og sé einnig launþega í hag í þeim tilvikum sem launaafdráttur er rangur og hann á von á endurgreiðslu. Einnig er það gjaldanda í hag að greitt sé sem fyrst eftir útborgunardag í þeim tilvikum þar sem um eldri þing- og sveitarsjóðgjöld er að ræða sem vextir leggjast á daglega.
    Í 5. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að launagreiðandi, sem eigi hefur skilað fé á réttum degi er hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir skv. 1. mgr. skuli greiða dráttarvexti skv. 7. gr. Gjalddagi er útborgunardagur launa og eindagi sá dagur sem launagreiðanda bar að skila fénu til innheimtumanns, sbr. 4. mgr. Dráttarvextir leggjast því á frá útborgunardegi launa hafi launagreiðandi ekki skilað fénu eða dregið það af sex dögum eftir útborgun launa. Launagreiðendur eiga ekki að hagnast á því ef fénu er ekki skilað á réttum tíma eða ekki hefur verið dregið af launum. Það er auk þess launagreiðanda í hag að staðið sé rétt að skilum þing- og sveitarsjóðsgjalda í ljósi þeirrar sjálfskuldarábyrgðar er hvílir á honum skv. 6. mgr. þessarar greinar.
    Í 6. mgr. 11. gr. er kveðið á um sjálfskuldarábyrgð launagreiðanda ef hann hefur vanrækt skyldu sína um launaafdrátt skv. 1. mgr. ákvæðisins. Með sjálfskuldarábyrgð er átt við að ábyrgðarmaður er skuldbundinn til greiðslu þeirra skatta sem lagðir eru á aðalskuldara á sama hátt og ef þeir væru lagðir á hann sjálfan. Lögbundin sjálfskuldarábyrgð felur í sér að innheimtumaður ríkissjóðs getur gengið að hvorum aðila fyrir sig og er ekki hægt að undanskilja sig ábyrgð með samningi. Þrátt fyrir ábyrgð launagreiðanda getur launþegi ekki firrt sig ábyrgð vegna þessa þar sem um óskipta ábyrgð er að ræða. Ábyrgðin nær einnig til dráttarvaxta. Launþega ber að fylgjast með afdrætti launagreiðanda vegna greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda, til að mynda á launaseðli. Launþegi ber þó ekki ábyrgð á greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem hann sannar að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans en ekki skilað til ríkissjóðs. Geri launagreiðandi ekki skil á afdregnu fé er staða launþegans með þeim hætti að hann hefur í raun innt skattgreiðslu sína af hendi en hún ekki komist til skila til innheimtumanns vegna vanrækslu launagreiðanda. Með framvísun launaseðils er innheimtumanni heimilt að færa þá fjárhæð sem launagreiðandi dró af launum launþega en skilaði ekki til innheimtumanns ríkissjóðs yfir á launagreiðanda en fella hana að sama skapi niður hjá launþega. Innheimta beinist þá að launagreiðanda en ekki launþega.
    Í 7. mgr. 11. gr. segir að krafa vegna fjár sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt þessari grein sé aðfararhæf samkvæmt lögum gagnvart launagreiðanda án undangengins dóms eða sáttar. Ekki er um efnisbreytingu að ræða frá núgildandi ákvæði.
    Í 8. mgr. 11. gr. kemur fram það nýmæli að Innheimtustofnun sveitarfélaga, stéttarfélög og lífeyrissjóðir skuli láta innheimtumanni í té upplýsingar og gögn vegna launaafdráttar með rafrænum hætti ef því verður við komið og án endurgjalds í þeim tilgangi að innheimtumaður geti rækt hlutverk sitt samkvæmt ákvæði þessu. Á grundvelli þessara upplýsinga og með framvísun launaseðils getur innheimtumaður ákvarðað fjárhæð þeirrar kröfu sem launagreiðandi ber ábyrgð á. Þar sem launaafdráttur vegna vangoldins meðlags nýtur forgangs fram yfir launaafdrátt vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda er innheimtumanni nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar til þess að unnt sé að ákvarða fjárhæð þeirrar kröfu sem launagreiðandi ber ábyrgð á, sbr. 6. mgr. ákvæðisins. Með ákvæðinu er tekið mið af þeim kröfum sem gerðar eru í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en upplýsingar um aðild að stéttarfélögum teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga.
    Ákvæðinu er m.a. ætlað að tryggja heimild innheimtumanns til upplýsinga frá Innheimtustofnun sveitarfélaga sem býr yfir upplýsingum sem nauðsynlegar eru svo innheimtumaður geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Upplýsingar um meðlagsgreiðslur er dæmi um upplýsingar sem nauðsynlegar eru í ákveðnum tilvikum við beitingu launaafdráttar skv. 11. gr. frumvarpsins. Til að unnt sé að ganga á launagreiðanda á grundvelli þeirrar ábyrgðar sem lögð er á hann verður að liggja fyrir hvort launagreiðandi sé jafnframt að beita launaafdrætti vegna meðlagsgreiðslna að beiðni Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Sama gildir um önnur launatengd gjöld, þ.m.t. iðgjöld í lífeyrissjóði og stéttarfélög.
    Í 9. mgr. 11. gr. segir að launaafdráttur sé heimill á meðan launþegi ber ábyrgð á kröfum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti skv. 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að beita launaafdrætti hjá einstaklingi sem úrskurðaður hefur verið gjaldþrota í tvö ár eftir skiptalok en þá fellur krafan almennt niður fyrir fyrningu. Í þessu samhengi vísast til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2016 í máli nr. E-1899/2015.
    Í 10. mgr. 11. gr. ákvæðisins segir að ráðherra skuli með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Í dag er í gildi reglugerð um launaafdrátt, nr. 124/2001, en sú reglugerð þarfnast endurskoðunar.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins segir að innheimtumanni sé heimilt að gera greiðsluáætlun við gjaldanda að beiðni hans. Um er að ræða heimild fyrir innheimtumann en ekki skyldu og frumkvæðið að gerð greiðsluáætlunar kemur frá gjaldanda. Greiðsluáætlun er ívilnandi úrræði sem kemur til móts við gjaldendur sem geta ekki greitt skatta, gjöld eða sektir á gjalddaga. Greiðsluáætlun er gerð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem koma fram í verklagsreglum. Með greiðsluáætlun er greiðslubyrðinni dreift yfir ákveðið tímabil. Þá viðurkennir gjaldandi kröfuna með gerð greiðsluáætlunar og rýfur fyrningu þeirra krafna sem falla undir hana. Ef aðrir innheimtumenn eru umsjónarmenn krafna sem falla undir greiðsluáætlun þarf samþykki þeirra fyrir greiðsluáætlun.
    Gild greiðsluáætlun frestar innheimtuaðgerðum vegna skatta, gjalda og sekta sem undir hana falla nema hætta leiki á að hagsmunir ríkissjóðs fari annars forgörðum. Gild greiðsluáætlun stendur ekki í vegi fyrir kyrrsetningu hjá gjaldanda enda tekur hún ekki til krafna sem falla undir kyrrsetningu. Innheimtumaður ríkissjóðs metur í hverju tilviki fyrir sig hvort hægt sé að fallast á greiðsluáætlun með hliðsjón af verklagsreglum. Í ákveðnum tilvikum á gjaldandi þess ekki kost að gera greiðsluáætlun og fresta þar með innheimtuaðgerðum. Það á t.d. almennt við eftir að fjárnámsbeiðni hefur verið send til sýslumanns en þá getur gjaldandi ekki gert greiðsluáætlun fyrr en sýslumaður hefur tekið beiðnina fyrir. Gjaldandi á þó kost á að lækka launaafdrátt með gerð greiðsluáætlunar á því tímamarki en sú greiðsluáætlun frestar þó ekki fyrirtöku málsins hjá sýslumanni þar sem hún snýr eingöngu að lækkun launaafdráttar. Ástæðan er sú að um launaafdrátt skv. 11. gr. frumvarpsins gilda sérsjónarmið en gjaldendum getur verið nauðsynlegt að gera greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar vegna heimildar innheimtumanns til að senda kröfu til launagreiðanda um 75% afdrátt af launum. Greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar hefur ekki áhrif á innheimtuaðgerðir sem þegar eru hafnar vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem undir hana falla.
    Eftir að greiðsluáætlun hefur verið gerð getur í ákveðnum tilvikum verið hætta á að hagsmunir ríkissjóðs fari forgörðum, sbr. t.d. 60. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, eða þegar ábyrgð samsköttunaraðila skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er að falla niður. Samkvæmt ákvæði 60. gr. laga um aðför þarf að senda út nauðungarsölubeiðni vegna fjárnáms í lausafé innan árs frá því að fjárnám var gert, ella fellur það sjálfkrafa niður. Við þessar aðstæður verður að senda út nauðungarsölubeiðni til að koma í veg fyrir að tryggingarréttur innheimtumanns tapist og skiptir þá ekki máli þó gjaldandi sé með gilda greiðsluáætlun. Greiðsluáætlanir falla úr gildi ef ekki er staðið við þær, t.d. ef greiðslur berast ekki á réttum tíma. Greiðsluáætlun veitir einungis frest á innheimtuaðgerðum á meðan gjaldandi greiðir inn á kröfuna samkvæmt greiðsluáætlun.
    Í 2. mgr. 12. gr. segir að lögboðnir dráttarvextir leggist á skatta, gjöld og sektir þrátt fyrir að um þau hafi verið gerð greiðsluáætlun. Dráttarvextir leggjast þó ekki á allar sektir lögum samkvæmt. Greiðsluáætlun kemur ekki í veg fyrir að dráttarvextir haldi áfram að leggjast á kröfur sem eru í greiðsluáætluninni. Það væri ósanngjarnt gagnvart skilvísum gjaldendum ef önnur regla gilti. Það er því gjaldanda í hag að greiða skuld upp sem fyrst þar sem hún ber dráttarvexti þrátt fyrir að um hana hafi verið gerð greiðsluáætlun.
    Í 3. mgr. 12. gr. segir að gerð greiðsluáætlunar hafi ekki áhrif á skuldajöfnun hvers konar inneigna sem myndast í skattkerfinu og gjaldandi hafi ekki forræði á ráðstöfun greiðslna inn á kröfur sem falla undir greiðsluáætlun. Skuldajöfnun kemur ekki í veg fyrir skyldu gjaldanda til greiðslu samkvæmt greiðsluáætlun nema þegar skuldin greiðist upp með skuldajöfnun.
    Í 4. mgr. 12. gr. segir að ákvörðun um gerð greiðsluáætlana einstaklinga sé heimil á grundvelli sjálfvirkrar gagnavinnslu, þ.m.t. á grundvelli persónusniðs. Gjaldandi á rétt til mannlegrar íhlutunar af hálfu innheimtumanns til að láta skoðun sína í ljós og vefengja ákvörðunina. Hér er tekið tillit til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, en í 22. gr. laganna segir að skráður einstaklingur skuli eiga rétt á því að ekki sé tekin ákvörðun eingöngu á grundvelli sjálfvirkrar gagnavinnslu, þ.m.t. gerðar persónusniðs, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Undantekningar frá þessari reglu er að finna í 2. mgr. 22. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB (almennu persónuverndarreglugerðinni), þar sem segir að heimilt sé að taka ákvörðun á grundvelli sjálfvirkrar gagnavinnslu ef heimild er í lögum sambandsins eða í lögum aðildarríkis sem ábyrgðaraðili heyrir undir og þar sem einnig er kveðið á um viðeigandi ráðstafanir til að vernda réttindi, frelsi og lögmæta hagsmuni hins skráða. Skv. 3. mgr. sömu greinar skal ábyrgðaraðili gagna gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda réttindi og frelsi og lögmæta hagsmuni hins skráða, a.m.k. réttinn til mannlegrar íhlutunar af hálfu ábyrgðaraðilans til að láta skoðun sína í ljós og til að vefengja ákvörðunina.
    Í 5. mgr. 12. gr. er mælt fyrir um heimild innheimtumanns til þess að skrá upplýsingar um ógilda greiðsluáætlun hjá fjárhagsupplýsingastofu sem hefur starfsleyfi skv. 15. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, til að miðla upplýsingum um vanskil. Með því verður gjaldandi skráður á vanskilaskrá á ný. Fjárhagsupplýsingastofa samkvæmt framangreindu safnar upplýsingum úr málaskrá sýslumanns, til að mynda um árangurslaus fjárnám. Geri viðkomandi gjaldandi greiðsluáætlun hjá innheimtumanni ríkissjóðs getur innheimtumaður, að beiðni gjaldanda, óskað eftir að gjaldanda sé haldið utan við vanskilaskrá. Falli sú greiðsluáætlun úr gildi er lagt til í frumvarpi þessu að innheimtumaður hafi heimild til þess að skrá upplýsingar um vanskil vegna ógildrar greiðsluáætlunar hjá starfsleyfishafa. Tilgangurinn með heimild þessari er að tryggja jafnræði gjaldenda. Gjaldendur sem hafa gert greiðsluáætlun í kjölfar árangurslauss fjárnáms og ekki staðið við hana eða endurnýjað hana að gildistíma hennar loknum eru þannig ekki í betri stöðu en þeir gjaldendur sem gerðu enga greiðsluáætlun í kjölfar árangurslauss fjárnáms, þ.e. báðir aðilar eru skráðir á vanskilaskrá.
    Í 6. mgr. 12. gr. segir að ríkisskattstjóri setji verklagsreglur um greiðsluáætlanir og nánari skilyrði um gerð þeirra. Meta þarf til að mynda hvort greiðsluáætlunin þjóni hagsmunum ríkissjóðs. Ýmis atriði þarf að kanna samhliða, m.a. aldur og fjárhæð skuldar og hverrar tegundar og hvers eðlis skuldin er. Þá þarf að kanna í hvaða ferli vanskilin eru komin, t.d. hvort aðfararbeiðni hafi verið send til sýslumanns. Eftir að aðfararbeiðni hefur verið send til sýslumanns til fullnustu kröfu er ekki hægt að gera greiðsluáætlun um gjöldin fyrr en sýslumaður er búinn að taka beiðnina fyrir. Þó er heimilt að gera greiðsluáætlun um launaafdrátt í þeim tilvikum sem aðfararbeiðni hefur þegar verið send til sýslumanns. Það frestar þó ekki fyrirtöku beiðninnar.
    Við ákvarðanatöku um gerð greiðsluáætlunar verður innheimtumaður að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Ekki gilda að öllu leyti sömu skilyrði við gerð greiðsluáætlunar hjá einstaklingum og lögaðilum. Þegar gerð er greiðsluáætlun við einstaklinga er t.d. tekið mið af framfærslusjónarmiðum en það á ekki við um lögaðila. Sjónarmið um vörsluskatta og skattsektir skipta máli. Þá geta niðurstöður áhættugreiningar haft áhrif á mat á því hvort og hvernig greiðsluáætlun er gerð. Ekki er heimilt að gera greiðsluáætlun um öll gjöld, svo sem erfðafjárskatt, þar sem erfðafjárskattur er ekki lagður á nema að í dánarbúi finnist eignir. Erfingjum ber að greiða skatt af þessum eignum. Einnig eru takmarkanir á gerð greiðsluáætlunar vegna bifreiðagjalda þar sem greiðsla bifreiðagjalda er skilyrði fyrir því að ökutæki fái skoðun hjá skoðunarstöðvum og eigendaskipti geta ekki farið fram ef bifreiðagjöld af ökutækinu eru í vanskilum, sbr. 5. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988.
    Ef forsendur fyrir gerð greiðsluáætlunar eru brostnar er innheimtumanni heimilt að ógilda greiðsluáætlun. Í texta greiðsluáætlunar sem gjaldandi samþykkir kemur fram í hvaða tilvikum innheimtumenn geta fellt greiðsluáætlun úr gildi auk þess sem þau tilvik eru tilgreind í verklagsreglu. Innheimtumanni er heimilt að fella greiðsluáætlun úr gildi uppfylli gjaldandi ekki lengur skilyrði greiðsluáætlunar, m.a. ef greiðslur berast ekki í samræmi við greiðsluáætlun og ef vanskil verða á nýjum álagningum, áætlunum, hækkunum eða breytingum.

Um 13. gr.

    Í 13. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild innheimtumanns ríkissjóðs, þar sem lög kveða á um, til að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur hjá aðilum sem ekki gera fullnægjandi skil á sköttum og gjöldum. Um íþyngjandi heimild innheimtumanns ríkissjóðs er að ræða og er því send tilkynning til gjaldanda þar sem varað er við stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskila á tilteknum sköttum og gjöldum. Gjaldendum er gefinn sjö daga frestur til að greiða kröfurnar eða gera greiðsluáætlun um greiðslu þeirra áður en til stöðvunar atvinnurekstrar kemur. Um útreikning frests gildir 8. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta virka dags. Að öðru leyti ber að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar fresturinn er reiknaður.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins segir að til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sé heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi beinist að skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Með sama hætti er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum skv. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og hjá aðilum sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags. Í lokamálslið 1. mgr. er lagt til að lögfesta skýra heimild fyrir ríkisskattstjóra til kyrrsetningar hjá aðilum sem bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags. Hér undir falla t.d. ábyrgðaraðilar samlagsfélags. Ákvæðið veitir heimild til kyrrsetningar til tryggingar væntanlegri skattkröfu, fésekt og sakarkostnaðar. Með þessu móti er gætt að jafnræði við beitingu kyrrsetningar og tryggt að sambærilegar reglur gildi milli félagaforma þar sem aðilar bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags, t.d. milli sameignar- og samlagsfélaga.
    Greinin er að mestu leyti sambærileg núgildandi 6. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem mælt er fyrir um heimild ríkisskattstjóra til kyrrsetningar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Lagt er til að nýjum málslið verði bætt við ákvæðið þar sem fram kemur að kyrrsetning skuli framkvæmd á meðan mál er til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra. Með því er tryggt að ríkisskattstjóra sé heimilt að framkvæma kyrrsetningu eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra er formlega lokið að því skilyrði uppfylltu að málið sé enn til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra. Málið kann t.d. að vera enn til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra vegna refsiþáttar málsins þó svo rannsókn málsins sé formlega lokið.
    Þegar grunur leikur á um brot gegn skattalögum getur rannsókn eðli máls samkvæmt tekið langan tíma. Skattaðilum er oftast ljóst við upphaf rannsóknar að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma og að lögbundnum fésektum verði beitt. Vegna þessa er hætta á að eignum sé komið undan áður en mál er fullrannsakað. Mikilvægt er að tryggt sé að þeir aðilar sem eru til rannsóknar geti ekki með skipulegum hætti komið eignum undan og er ákvæðinu ætlað að koma í veg fyrir það. Þannig er greiðsla í ríkissjóð vegna yfirvofandi skattkrafna ríkisins og fésekta mun betur tryggð. Gert er ráð fyrir að heimilt sé að beita kyrrsetningu gagnvart skattaðilanum sjálfum og öðrum þeim er bera ábyrgð á skattgreiðslum hans, sem og öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi beinist að og kann þar af leiðandi að vera gert að greiða fésekt vegna refsiverðra brota.
    Í 2. mgr. 14. gr. segir að ríkisskattstjóri annist rekstur mála að kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins skv. 1. mgr. Skattrannsóknarstjóri sendir sérstaka tilkynningu til ríkisskattstjóra með ósk um kyrrsetningu. Í kyrrsetningarkröfu sinni tilkynnir skattrannsóknarstjóri ætlaðar fjárhæðir vantalinna skatta samkvæmt rannsókn þess máls sem um ræðir svo sem hún þá stendur, sem og um fjárhæðir fésekta er kunni samkvæmt rannsókninni að verða gerðar skattaðila eða öðrum þeim sem rökstuddur grunur beinist að um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 14. gr. verði orðuð með öðrum hætti en 7. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en ekki er þó um efnisbreytingu að ræða.
    Í 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins segir að um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim undantekningum að tryggingu þurfi ekki að setja, mál þurfi ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu og gjöld skuli ekki greiða fyrir ráðstafanir. Almennar reglur um kyrrsetningu fjármuna gilda um kyrrsetningu samkvæmt greininni eftir því sem við á, en þar er einkum vísað til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Þó er gert ráð fyrir að reglur um tryggingu fyrir kyrrsetningu, málshöfðun og lögboðin gjöld vegna ráðstafananna taki ekki til kyrrsetningar ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri þarf þannig ekki að greiða gjöld fyrir að senda kyrrsetningarbeiðni til sýslumanns eða fyrir að þinglýsa kyrrsetningargerð. Í samræmi við 15. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, gilda ákvæði 36.–50. gr., 2. mgr. 51. gr., 62. og 63. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, um þær eignir sem kyrrsettar verða, virðingu þeirra og rétt málsaðila til að vísa í þær og um heimildir til að ljúka kyrrsetningaraðgerð án árangurs. Meginreglan er að heimilt er að kyrrsetja hvers konar eignir eða réttindi kyrrsetningarþola sem hafa fjárhagslegt gildi og hægt er að tilgreina nægilega. Þannig er t.d. hægt að kyrrsetja reiðufé, innstæður á bankareikningum, fasteignir, ökutæki, hlutafjáreignir, annað lausafé og kröfu gerðarþola á hendur öðrum.
    Ákvæðið tekur mið af 88. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem lögreglu er fengin heimild til kyrrsetningar eigna. Skv. 7. mgr. 103. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, fer skattrannsóknarstjóri ríkisins með rannsókn mála eftir lögum um meðferð sakamála, með takmörkunum þó. Því er nærtækt að heimild til kyrrsetningar verði fengin vegna rannsóknar mála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og kyrrsetningu beitt meðan málið er til meðferðar hjá því embætti, enda liggi fyrir mat embættisins á væntanlegri enduráætlun og sektarfjárhæð. Sömu undantekningar gilda og í lögum um meðferð sakamála, en þær eru að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu og að gjöld skulu ekki greidd fyrir ráðstafanirnar.
    Í 4. mgr. segir að kyrrsetning falli niður ef rannsókn leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi beinist að skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 og 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, verði gerð fésekt af skattyfirvöldum eða fyrir dómi. Sá er kyrrsetning beinist að á þá heimtingu á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til tryggingar kyrrsetningunni. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef inntar eru af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja. Ákvæðið tekur mið af 88. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
    Í 5. mgr. segir að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Um 15. gr.

    Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um skilyrði þess að innheimtumanni ríkissjóðs sé heimilt að samþykkja nauðasamning gjaldanda við kröfuhafa.
    Í 1. tölul. ákvæðisins er gert að skilyrði að gjaldandi skuldi ekki virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og vörugjald af ökutækjum. Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur eru vörsluskattar, þ.e. skattar sem lagðir eru á vöru og þjónustu og söluaðila ber að innheimta við sölu á hinni skattskyldu vöru eða þjónustu og skila til ríkissjóðs. Einkenni vörsluskatta er að refsivert er að gera ekki skil á þeim í ríkissjóð. Innheimtumanni er einnig óheimilt að samþykkja nauðasamning ef gjaldandi skuldar vörugjald af ökutækjum en þeim fylgir lögveð.
    Í 2. tölul. ákvæðisins er gert að skilyrði að ekki megi samþykkja nauðasamning vegna skattkrafna sem tilkomnar eru vegna endurákvörðunar skattyfirvalda á gjöldum vegna skattsvika. Hugtakið skattsvik er ekki skilgreint í lögum en í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, nr. 373/2001, kemur fram að það teljist skattsvik þegar aðili gefur af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangar eða villandi upplýsingar sem ætlaðar eru til að nota við skattákvarðanir. Sama gildir ef aðili vanrækir að gefa upplýsingar sem kunna að hafa þýðingu við skattákvarðanir.
    Í 3. og 4. tölul. ákvæðisins eru lögð til nýmæli. Í 3. tölul. ákvæðisins er sett skilyrði um að skattar og gjöld séu ekki byggð á áætlunum stjórnvalda því skuld sem byggir á slíkum áætlunum gefur ekki rétta mynd af skuldastöðu gjaldanda.
    Í 4. tölul. ákvæðisins er sett skilyrði um að gjaldandi skuldi ekki skattsekt yfirskattanefndar eða skattrannsóknarstjóra eða fésekt ársreikningaskrár ríkisskattstjóra.
    Í 5. tölul. ákvæðisins kemur fram það skilyrði að ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi. Innheimtumaður leggur heildstætt mat á það hverju sinni með hliðsjón af verklagsreglum.

Um 16. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til það nýmæli að heimilt sé að afskrifa kröfur í þing- og sveitarsjóðsgjöldum einstaklinga, ásamt áfallandi dráttarvöxtum, þegar tíu ár eru liðin frá stofnun kröfunnar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjónarmiðið að baki ákvæðinu eru að það þjónar ekki hagsmunum ríkissjóðs að halda kröfum í gildi sem ljóst er að verða ekki innheimtar að fullu. Um undantekningarheimild er að ræða sem ber að skýra þröngt. Heimildin á einungis við um þing- og sveitarsjóðsgjöld einstaklinga. Ástæðan er sú að með undirritun greiðsluáætlunar um lækkun launaafdráttar er kröfunni haldið við í ótiltekinn tíma þar sem undirritun greiðsluáætlunar rýfur fyrningu kröfunnar, sbr. 14. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, og 12. gr. frumvarpsins. Sé greiðsluáætlun gerð um lækkun launaafdráttar hefst nýr fjögurra ára fyrningarfrestur við undirritun gjaldanda á greiðsluáætlun. Í ákvæðinu er það skilyrði sett að gjaldandi sé með gilda greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar. Ákvæðið tekur ekki til gjaldanda sem er með annars konar greiðsluáætlun í gildi. Ástæðan er sú að greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar er gerð í kjölfar þess að launagreiðandi hefur heimild til að draga 75% af launum til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda, sbr. 11. gr. frumvarps þessa. Gjaldendur í þessari stöðu eiga því yfirleitt ekki annan kost en að gera greiðsluáætlun og viðurkenna kröfuna. Að öðrum kosti ber launagreiðanda að draga allt af 75% af launum hans til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda.
    Til þess að heimilt sé að afskrifa kröfur á grundvelli þessa ákvæðis þurfa að vera liðin tíu ár frá stofnunardegi kröfu. Hafi skattbreyting verið gerð vegna eldri ára er afskrift ekki heimil fyrr en í fyrsta lagi tíu árum eftir að sú breyting var gerð. Gjaldandi þarf að uppfylla þau skilyrði sem koma fram í greininni. Í fyrsta lagi að ljóst þyki að gjaldandi geti ekki greitt höfuðstól ásamt áfallandi dráttarvöxtum. Þannig sé fyrirséð að tekjur hans dugi ekki til að greiða upp alla skuldina innan eðlilegs tíma. Í öðru lagi að greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar sé í gildi. Þetta skilyrði lýtur að því að verið sé að rjúfa fyrningu með undirritun greiðsluáætlunar um lækkun launaafdráttar og viðhalda þannig gildi kröfu sem annars myndi fyrnast á fjórum árum. Í þriðja lagi að gjaldandi hafi sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og verið synjað. Skilyrði þetta er sett með vísan til tilgangs laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem eru í verulegum greiðsluerfiðleikum og hefur þann tilgang að þeir geti endurskipulagt fjármál sín. Því þykir rétt að gjaldendur hafi reynt það úrræði áður en gripið er til afskriftar. Í fjórða lagi er það skilyrði sett að ábyrgð samsköttunaraðila sé ekki fyrir hendi. Hér er átt við ábyrgð skv. 1. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í fimmta lagi er sett það skilyrði að gjaldandi hafi ekki áður fengið afskrifaðar kröfur á grundvelli þessa ákvæðis, þar sem um undantekningu sé að ræða frá þeirri meginreglu að gildar kröfur séu ekki afskrifaðar. Um er að ræða ívilnandi eins skiptis aðgerð til að gjaldandi eigi möguleika á að rétta stöðu sína.
    Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að beina skuli umsóknum til ríkisskattstjóra sem tekur þær til afgreiðslu.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins segir að fái innheimtumaður vitneskju í starfi sínu um atvik sem hann telur gefa tilefni til rökstudds gruns um að gjaldandi eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skal hann, ef ekki standa sérstök rök til annars, tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins, lögreglu, héraðssaksóknara eða öðru stjórnvaldi sem rannsókn háttseminnar heyrir undir. Í ákvæðinu eru tilgreind helstu stjórnvöld sem tilkynningum skal beint til og vísast í því sambandi m.a. til 103. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 1. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og 1. mgr. 8. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Í daglegri starfsemi innheimtumanns ríkissjóðs geta komið fram upplýsingar um tilvik þar sem grunur leikur á um refsivert athæfi. Í slíkum tilvikum má telja eðlilegt að innheimtumanni sé gert kleift að miðla þeim upplýsingum áfram til viðeigandi stofnunar þrátt fyrir reglur um trúnaðar- og þagnarskyldu. Bent er á að skiptastjórar í gjaldþrotaskiptamálum hafa einnig ákveðna tilkynningarskyldu til héraðssaksóknara vegna gruns um refsivert athæfi, sbr. 84. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Eðlilegt er að stjórnvöld og stofnanir hafi samstarf í málum þessum en almenn heimild til að tilkynna til skattrannsóknarstjóra hefur verið í 11. gr. reglugerðar um eftirlit um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, nr. 373/2001. Innheimtumenn skulu á grundvelli þessa ákvæðis tilkynna grun um brot sem ekki teljast vera skattalagabrot, t.d. skilasvik. Innheimtumaður þarf ekki að tilkynna háttsemi sem varðar óverulega hagsmuni, t.d. þegar um óverulegar fjárhæðir er að ræða. Enn fremur þarf innheimtumaður ekki að tilkynna háttsemi ef aðrar gildar ástæður búa að baki. T.d. þarf ekki að tilkynna um öll mál þar sem gjaldendur skulda vörsluskatta þar sem umfang tilkynninganna yrði þá of mikið og hætta á að þær yrðu ómarkvissar. Vinnsla upplýsinganna er nauðsynleg vegna lagaskyldu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. einnig 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. sömu laga.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er lagt til að lögfesta skyldu innheimtumanna til að veita skattrannsóknarstjóra ríkisins, lögreglu og héraðssaksóknara allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem þeir óska eftir og unnt er að láta þeim í té. Sama gildir um önnur stjórnvöld sem rannsaka refsivert athæfi, óski þau eftir upplýsingum og gögnum um mál sem innheimtumaður hefur tilkynnt þeim um á grundvelli ákvæðis 1. mgr. Ef beiðni berst frá þessum stjórnvöldum um gögn eða upplýsingar sem nauðsynleg eru við rannsókn mála er innheimtumanni heimilt að afhenda gögn, svo sem greiðsluáætlanir sem varpað geta ljósi á hverjir eru raunverulegir stjórnendur félags, og önnur gögn sem nauðsynleg eru við rannsókn máls. Vinnsla upplýsinganna er nauðsynleg vegna lagaskyldu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. einnig 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. sömu laga.
    Í 3. mgr. ákvæðisins segir að þagnarskylduákvæði 20. gr. frumvarpsins sem og ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víki fyrir ákvæðum þessarar greinar. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.

    Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um heimild til miðlunar gagna og málsmeðferðar með rafrænum hætti, sbr. 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með miðlun gagna er m.a. átt við útsendingu tilkynninga um gjaldfallnar kröfur, inneignir, vaxta- og barnabætur, fjárnám og fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar. Einnig er átt við gerð greiðsluáætlana.
    Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að ríkisskattstjóra sé heimilt að ákveða að greiðsla skatta, gjalda og sekta skuli eingöngu fara fram með rafrænum hætti.
    Með ákvæðunum er markvisst stefnt að auknum rafrænum samskiptum í samræmi við þá þróun sem á sér um þessar mundir stað varðandi rafræn samskipti við stofnanir ríkisins.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um upplýsingaskyldu. Innheimtumanni eru veittar sambærilegar heimildir og skattyfirvöldum eru veittar með 1. og 5. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Heimild fyrir innheimtumenn er nú að finna í 5. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og flyst ákvæðið yfir í frumvarp þetta, sbr. 22. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að gjaldendum, stjórnvöldum og öðrum hlutaðeigandi aðilum sé skylt að veita innheimtumanni ríkissjóðs, án endurgjalds og á því formi sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem innheimtumaður óskar og unnt er að láta honum í té svo hann geti rækt hlutverk sitt, skv. 3. gr. frumvarpsins. Með stjórnvöldum er hér átt við ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra. Ákvæðinu er m.a. ætlað að tryggja heimild innheimtumanns til upplýsinga frá stjórnvöldum sem búa yfir upplýsingum sem nauðsynlegar eru innheimtumanni svo hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Dæmi um upplýsingar sem geta verið nauðsynlegar innheimtumanni eru úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar vegna mála þar sem innheimtumaður þarf að taka stjórnvaldsákvörðun. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 1. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Skv. 2. mgr. ákvæðisins er innheimtumönnum ríkissjóðs heimill aðgangur að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá ásamt verðbréfamiðstöð og vinnuvélaskrá Vinnueftirlitsins í því skyni að sannreyna eignastöðu einstakra gjaldenda. Jafnframt ber ríkisskattstjóra skylda til að veita innheimtumanni aðgang að skattframtölum gjaldanda í þeim tilgangi að kanna eignastöðu vegna innheimtuaðgerða. Heimild þessi til aðgangs að skattframtölum á sér fyrirmynd í 5. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en er þó ekki einskorðuð við aðgang löglærðra fulltrúa innheimtumanns. Raunin er sú að fulltrúar innheimtumanns sem koma að undirbúningi aðfarargerða eru ekki alltaf löglærðir og á það sérstaklega við hjá minni sýslumannsembættum. Verður ekki séð hvers vegna nauðsynlegt er að einskorða heimildina við löglærða fulltrúa. Allir starfsmenn innheimtumanns eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir verða vitni að í störfum sínum, sbr. 20. gr. frumvarps þessa. Telja verður að núverandi fyrirkomulag takmarki skilvirkni vinnslu á grundvelli þeirrar heimildar sem innheimtumanni var veitt með 5. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og því er lagt til að skilyrðið verði fellt brott.
    Heimildin í 5. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, kom ný inn í lögin með lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., sbr. 8. gr. laga nr. 112/2016. Með breytingalögunum voru innheimtumönnum ríkissjóðs fengnar auknar heimildir til að sannreyna eignastöðu gjaldenda í vanskilainnheimtu og tryggja þannig rétta framkvæmd við innheimtu skatta og gjalda til hagsbóta fyrir ríkissjóð og samfélagið allt. Markmið með ákvæðinu var að veita innheimtumanni sambærilegar heimildir til eignakönnunar og innheimtumenn á öðrum Norðurlöndum hafa en Ríkisendurskoðun gagnrýndi takmarkaðar heimildir innheimtumanna til eignakönnunar í skýrslu um innheimtu opinberra gjalda í mars 2011 og taldi það vera eitt helsta vandamál sem innheimtumenn ríkissjóðs stæðu frammi fyrir við innheimtu opinberra skatta og gjalda.
    Í 3. mgr. ákvæðisins segir að auk þeirrar heimildar sem kveðið er á um í 2. mgr. hafi innheimtumaður heimild til að óska eftir upplýsingum um eignir sem varðveittar kunni að vera í bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum. Þar með talin eru innlán og verðbréfaeign sem og upplýsingar um skuldastöðu í því skyni að sannreyna eignastöðu gjaldenda vegna innheimtuaðgerða og kyrrsetningargerða. Með innheimtuaðgerðum er m.a. átt við fjárnámsgerðir og nauðungaruppboð en eigna- og skuldastöðu þarf að kanna við undirbúning gerðanna. Þá segir að fjármálafyrirtækjum sé skylt að upplýsa innheimtumann án endurgjalds um eignastöðu viðskiptamanna sinna hjá fyrirtækinu samkvæmt beiðni þar um. Þagnarskylda takmarkar ekki aðgang að upplýsingum samkvæmt ákvæðinu, sbr. 6. mgr. ákvæðisins. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 2. mgr. 93. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, með það að markmiði að skýra betur þær heimildir sem innheimtumanni voru veittar með lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., nr. 112/2016, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.
    Tollstjóri, sem þáverandi innheimtumaður ríkissjóðs fyrir höfuðborgarsvæðið, sendi bréf til nokkurra viðskiptabanka í maí 2017 til að kanna afstöðu þeirra til upplýsingaöflunar byggðri á hinni nýfengnu heimild. Umleitun um samstarf var í flestum tilvikum hafnað með þeim rökum að ekki væri nægilega skýr lagaheimild fyrir hendi til upplýsingagjafar. Nauðsynlegt er því að skýra frekar heimild innheimtumanns til upplýsingaöflunar frá fjármálafyrirtækjum í tengslum við eignakönnun og innheimtuaðgerðir. Aðgangur að skattframtölum sýnir áramótastöðu eigna en inniheldur engar upplýsingar um nákvæma stöðu frá fjármálafyrirtækjum. Innheimtumanni reynist því erfitt að benda á t.d. innlán og verðbréfaeignir þar sem eignastaða gæti hafa breyst frá því sem fram kemur á skattframtali. Eðli máls samkvæmt er því nauðsynlegt að innheimtumanni sé tryggður aðgangur að upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum svo hægt sé að nýta þær heimildir til eignakönnunar sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar. Í samræmi við 3. gr. frumvarpsins um hlutverk innheimtumanna mótar ríkisskattstjóri verklagið við upplýsingaöflun við eignakönnun samkvæmt þessu ákvæði. Miðað er við að heimildinni verði beitt m.a. vegna kyrrsetningargerða, þegar niðurstöður áhættugreiningar gefa tilefni til, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 3. gr. laganna, og þegar gjaldendur hafa fengið háa álagningu en eiga engar eignir samkvæmt opinberum skrám. Ákvæðinu er þannig ætlað að ná til tilvika þar sem grunur leikur á að gjaldendur kunni að eiga inneignir hjá fjármálafyrirtækjum en greiða ekki skatta og gjöld.
    Í 4. mgr. ákvæðisins er lagt til að innheimtumanni ríkissjóðs verði veittur rafrænn aðgangur að yfirlitum um framvindu skipta dánarbúa sem eru í upplýsingakerfi sýslumanna án endurgjalds. Upplýsingarnar eru innheimtumönnum nauðsynlegar vegna innheimtu hjá erfingjum dánarbúa, endurgreiðslna inneigna dánarbúa og vegna afskrifta krafna í eignalausum dánarbúum. Á yfirlitunum koma m.a. fram upplýsingar um einkaskipti og búsetuleyfi. Framkvæmdin í dag er sú að innheimtumenn óska eftir þessum yfirlitum og fá þau send frá sýslumanni í tölvupósti. Telja verður að rafrænn aðgangur létti álagi af sýslumönnum og hafi í för með sér hagræði og öryggi í upplýsingagjöf. Miðað er við að aðgangurinn verði takmarkaður við þann starfsmann sem sinnir málaflokknum.
    Í 5. mgr. segir að ákvæði 1. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eigi við um innheimtumenn á sama hátt og önnur skattyfirvöld. Sambærilegt ákvæði er nú í lokamálslið 5. mgr. 111. gr. sömu laga.
    Í 6. mgr. segir að ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víki fyrir ákvæðum þessarar greinar. Er hér m.a. átt við ákvæði um bankaleynd, sbr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ákvæðið er samhljóða 5. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. og 5. mgr. 111. gr. sömu laga. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 20. gr.

    Í ákvæðinu segir að á innheimtumanni ríkissjóðs hvíli þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Honum er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi, að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag gjaldenda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af störfum.
    Ákvæðið tekur mið af 19. gr. laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 44. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eins og þeim var breytt með lögum nr. 71/2019. Með ákvæði þessu er lögð áhersla á mikilvægi þess að starfsmenn innheimtumanna ríkissjóðs gæti þagnarskyldu.

Um 21. gr.

    Í 21. gr. er kveðið á um gildistöku laganna og öðlast þau þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að sé mál tekið upp að nýju eða ákvörðun kærð til æðra stjórnvalds eftir gildistöku laganna skuli beita lögunum um þau mál. Lögin taka því ekki til þeirra mála sem berast innheimtumanni ríkissjóðs fyrir gildistöku laganna, þótt þeim málum ljúki eftir gildistöku þeirra. Sé mál endurupptekið skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eða ákvörðun kærð til æðra stjórnvalds skv. 5. gr. frumvarps þessa eftir gildistöku laganna skal þó meðferð þeirra mála fara upp frá því eftir ákvæðum laganna. Ákvæði þetta er samið að fyrirmynd lagaskilareglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 49. gr. þeirra. Þá gilda ákvæði laga nr. 29/1995 um endurgreiðslukröfur sem berast fyrir gildistöku laganna en ákvæði 8. gr. um endurgreiðslukröfur sem berast eftir gildistöku laganna.

Um 22. gr.

    Í 22. gr. frumvarpsins eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum XIII. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þannig er lagt til 111. gr. laganna, að undanskildum 1. málsl. 1. mgr., verði felld brott. Þá er lagt til að 113. gr., 3. og 4. mgr. 114. gr. og 115. gr. laganna falli brott.
    Í ákvæðinu eru einnig lagðar til ýmsar breytingar á ákvæðum laga þar sem vísað er til laga um tekjuskatt varðandi innheimtu.
    Þá er lagt til að ákvæði annarra laga um kyrrsetningar falli brott, þ.e. 31. gr. a laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, 20. gr. a laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, og 41. gr. a laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.