Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 474  —  286. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristínu Traustadóttur um Rjóður og líknardeild í Kópavogi.


     1.      Eru uppi áform um að nýta betur húsnæði Landspítalans í Kópavogi sem hýsir Rjóður og líknardeild en stendur að öðru leyti að mestu autt? Ef svo er, hvernig er áformað að nýta húsnæðið?
    Landspítali hefur yfir fjórum húsum að ráða í Kópavogi. Þau eru eftirfarandi:
       a.      Kópavogsgerði 2 – þar er miðstöð Landspítala um sjúkraskrárritun og mötuneyti staðarins. Húsið er fullnýtt.
       b.      Kópavogsgerði 4 – það er nýtt sem geymsluhúsnæði fyrir ýmsan búnað Landspítala. Unnið er að innréttingu að aðstöðu fyrir Heru, sérhæfða líknarheimaþjónustu Landspítala í hluta hússins. Þá er unnið að innréttingu á æfinga- og tómstundaaðstöðu fyrir Rjóðrið í húsinu og er sú vinna á vegum Lionsklúbbs Kópavogs í samvinnu við Landspítala.
       c.      Kópavogsgerði 6a–d – þar er meðal annars líknardeild Landspítala með legudeild, svo kölluð fimm daga deild og dag- og göngudeild. Þá hefur Rjóðrið, hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn aðstöðu í húsinu. Húsið er fullnýtt.
       d.      Kópavogsbraut 5a–c – þar sér Ás styrktarfélag um rekstur sambýlis fyrir íbúa sem áður voru síðustu vistmenn á Kópavogshæli. Þá hefur Arnarskóli aðstöðu í húsinu. Húsið er fullnýtt.
    Húsnæði Landspítala í Kópavogi er ýmist fullnýtt eða fyrir liggur áætlun um frekari nýtingu, sbr. framangreint.

     2.      Hefur verið tekið til athugunar að bæta við úrræði Rjóðurs og bjóða upp á stuðning við ungt fólk með langvinn veikindi eða fötlun svo að það missi ekki alla þjónustu sem það hefur fengið þegar það verður 18 ára? Er stefnt að því að bjóða upp á frekari stuðning við ungt fólk með langvinn veikindi eða fötlun eftir 18 ára aldur?
    Heilbrigðisþjónusta er á vegum ríkisins en félagsleg heimaþjónusta á vegum sveitarfélaga, þar með þjónusta við fatlað fólk. Þjónusta á þessu sviði kallar því á ríka og góða samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga. Í nýrri heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sett fram það markmið að heilbrigðisþjónusta sé veitt út frá þörfum notenda á hverjum tíma. Þegar ungt fólk nær 18 ára aldri telst það til fullorðinna og á rétt á þeirri þjónustu sem er í boði fyrir þann aldurshóp – bæði heilbrigðisþjónustu og þjónustu á vegum sveitarfélaga. Ljóst er að þarfir og væntingar ungs fólks eru að mörgu leyti aðrar en þeirra sem komnir eru á efri ár og sú þjónusta sem í boði er nær ekki alltaf að mæta þeim þörfum. Í skoðun er hvernig megi betur mæta þörfum þeirra ungu einstaklinga sem þurfa á þjónustu í hjúkrunarrýmum að halda. Einnig er í gangi vinna milli ríkis og sveitarfélaga, m.a. um hvernig þessi tvö stjórnsýslustig geti unnið saman að því að fækka svokölluðum „gráum svæðum“ með það í huga að tryggja að fólk fái þá þjónustu sem það þarf á að halda, óháð því hver veitir hana.