Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 533  —  396. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (viðurlög o.fl.).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    Í stað orðsins „Samgöngustofa“ í 5. mgr. 64. gr. laganna kemur: Útgefandi ökuréttinda.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 65. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ökugerða og ökukennara“ í 1. málsl. kemur: og ökugerða.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Útgefandi ökuréttinda getur afturkallað starfsleyfi ökukennara ef skilyrðum fyrir útgáfu leyfis er ekki lengur fullnægt.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 94. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2. og 3. mgr. 80. gr.“ kemur: 80. gr.
     b.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr. 82. gr.“ kemur: 1., 2. og 5. mgr. 82. gr.
     c.      Á eftir orðunum „90. gr.“ kemur: 3. og 4. mgr. 91. gr., 92. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „fíkniefna“ í 5. mgr. kemur: og/eða lyfja.
     b.      Orðin „nema ákvæði 4. og 6. mgr. eigi við um síðara brot ökumanns“ í lokamálslið 7. mgr. falla brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nýjum umferðarlögum sem samþykkt voru á 149. löggjafarþingi og taka gildi um áramót. Lagfærðar eru tilvísanir til tiltekinna ákvæða er varða sektum skv. 94. gr. laganna, en þar skortir tilvísanir til brota á 1. og 4. mgr. 80. gr. og 5. mgr. 82. gr. sem fjalla um flutning farms og reglugerð ráðherra um breidd, lengd, hæð og þyngd ökutækja. Einnig skortir tilvísanir til 3. og 4. mgr. 91. gr. og 92. gr. um skyldu til að hlíta fyrirmælum vegaeftirlitsmanna og um upplýsingaskyldu vegna vegaeftirlits. Gerðar eru breytingar á ákvæði 101. gr. laganna er varðar ítrekunaráhrif endurtekinna brota á banni við að keyra með tiltekið magn vínanda í blóði, auk þess sem gert er skýrara að akstur undir áhrifum lyfseðilsskyldra lyfja sem skerða ökuhæfni varði einnig sviptingu ökuréttinda, sbr. 50. gr. Þá er lagt til að í stað þess að færa útgáfu starfsleyfa ökukennara til Samgöngustofu verði hún áfram hjá útgefendum ökuréttinda, þ.e. sýslumönnum líkt og í dag samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
    Nefndin leggur því til framantaldar breytingar á lögunum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að útgefandi ökuréttinda gefi út starfsleyfi ökukennara í stað Samgöngustofu. Samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum, fara sýslumenn með löggildingu ökukennara, að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer með það hlutverk. Eftir samþykkt frumvarps til nýrra umferðarlaga á 149. löggjafarþingi hafa komið fram sjónarmið þess efnis að flutningur verkefnisins til Samgöngustofu geti haft í för með sér óhagræði fyrir umsækjendur starfsleyfa til ökukennslu og flóknari stjórnsýslu. Starfsréttindi ökukennara eru gefin til kynna með tákntölu í ökuskírteini viðkomandi ökukennara. Gildistími réttinda er að auki háður öðrum réttindum í ökuskírteini sem haldið er utan um í skírteinaskrá ríkislögreglustjóra. Útgáfa starfsréttinda fer fram hjá sýslumönnum sem, fyrir hönd ríkislögreglustjóra, sjá um útgáfu ökuskírteina og hafa til staðar nauðsynlega gagnagrunna, kerfi og verklagsreglur. Má því telja að óhagræði geti falist í að færa þann hluta verkefna útgefanda ökuréttinda er snýr að starfsleyfum ökukennara til Samgöngustofu líkt og 64. gr. laganna gerir ráð fyrir. Íslandi er skipt í níu umdæmi sýslumanna sem hafa skrifstofur um allt land og embættið því betur til þess fallið að þjóna þörfum umsækjenda um leyfi en ef verkefnið er fært til Samgöngustofu í Reykjavík.

Um 2. gr.

    Þar sem í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að útgefandi ökuréttinda gefi út starfsleyfi til ökukennslu þykir rétt að gætt sé samræmis og sami aðili hafi vald til að afturkalla leyfi ef skilyrðum fyrir útgáfu er ekki lengur fullnægt.

Um 3. gr.

    Lagfærðar eru tilvísanir til refsiákvæða skv. 94. gr. laganna um brot er varða sektum.
    Í frumvarpi til hinna nýju umferðarlaga var ekki að finna tilvísanir til ákvæða sem varða reglur um hleðslu og farm ökutækja, reglugerð um hámark breiddar, lengdar og hæðar ökutækja, skyldu til að stöðva ökutæki vegna merkjagjafar við vegaeftirlit með ástandi, stærð, þyngd og hleðslu ökutækja, til að veita aðgang að upplýsingum úr ökurita og um skyldu til að fara eftir fyrirmælum við vegaeftirlit. Ekki stóð til að gera framangreind brot gegn lögunum refsilaus.

Um 4. gr.

    Gert er skýrara að svipting ökuréttinda fyrir brot gegn 50. gr. laganna um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja taki auk aksturs undir áhrifum fíkniefna til aksturs undir áhrifum lyfseðilsskyldra lyfja sem skerða ökuhæfni.
    Felldar eru brott reglur um ítrekunaráhrif af háttsemi sem ekki telst refsiverð samkvæmt lögunum. Við meðferð frumvarps þess er samþykkt var sem ný umferðarlög á 149. löggjafarþingi voru gerðar breytingar á ákvæðum þess þannig að refsimörk vegna ölvunaraksturs voru ekki lækkuð heldur haldast þau óbreytt frá gildandi umferðarlögum. Þar sem ekki voru gerðar breytingar á ítrekunarreglum frumvarpsins kveða lögin nú á um að þrátt fyrir að refsilaust sé að aka meðan vínandamagn er undir 0,5‰ eða 0,25 millilítrum í útöndunarlofti, geti það haft áhrif á sviptingartíma ökuréttinda ef einstaklingur hefur einu sinni verið stöðvaður við akstur með vínandamagn undir refsimörkum en yfir 0,2‰ vínanda í blóði eða 0,1 millilítra í lofti og hann er stöðvaður aftur og vínandamagn mælist 1,20‰ eða meira. Færa má rök fyrir því að í ítrekunaráhrifum fyrra brots, þegar einstaklingur hefur hvorki hlotið dóm né gengist undir viðurlagaákvörðun vegna þess, felist að vissu leyti refsing eða refsikennd viðurlög fyrir það. Í ákveðnum tilvikum væri því jafnvel verið að heimila að beita refsikenndum viðurlögum fyrir háttsemi sem ekki er refsiverð samkvæmt lögunum.

Um 5. gr.

    Mikilvægt er að þær breytingar sem felast í frumvarpinu taki strax gildi þar sem nýju umferðarlögin taka gildi um áramót.