Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 541  —  1. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Eins og kom fram í nefndaráliti 1. minni hluta við 2. umræðu einkennist þetta fjárlagafrumvarp af skammsýni og brostnum loforðum. Eftir að frumvarpið var afgreitt aftur til fjárlaganefndar eftir 2. umræðu hefur það ekki tekið neinum teljanlegum breytingum. Og aftur er umhugsunarvert hvert hlutverk fjárlaganefndar er í raun og veru eftir fjöldann allan af fundum með hagsmunaaðilum sem virðast ekki skila neinu í breytingum á viðkomandi frumvarpi umfram það sem sjálf ríkisstjórnin leggur til.

Allar breytingartillögur felldar.
    Einnig er vert að vekja athygli á hallærislegheitunum hjá núverandi stjórnarflokkum að fella sérhverja breytingartillögu sem minni hluti þingsins lagði til við 2. umræðu. Meira að segja var felld tillaga Samfylkingarinnar um að auka fjármuni til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra vegna Samherjamálsins en stuttu seinna sögðu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að þeir vildu tryggja viðbótarfjármuni til þessara embætta. Það er mjög gagnrýnisvert að ráðherrar nálgist fjárlögin eins og sinn einkavasa. Fjárveitingarvaldið liggur hjá Alþingi en ekki hjá ráðherrunum. Í tillögum meiri hlutans við 3. umræðu er ekki lögð til króna til viðbótar til þessara embætta og er það sérstaklega gagnrýnisvert.

Enn brostin loforð.
    Enn treystir meiri hluti þingsins sér ekki til að bregðast við því allra versta sem finna má í þessu frumvarpi. Má þar nefna brot stjórnarflokkanna á eigin loforði í stjórnarsáttmála um að fjármögnun háskólastigsins verði sambærileg og finna má hjá öðrum OECD-ríkjum strax á næsta ári. Þá er einnig brotið á framhaldsskólum sem fá raunlækkun á milli ára, Landspítalinn er enn í spennitreyju aðhalds og öryrkjar enn þá látnir bíða eftir réttlætinu.
    Kvikmyndageirinn fær kaldar kveðjur frá stjórnarflokkunum enda er endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar lækkuð um tæp 30% og þá eru raunframlög til Tækniþróunarsjóðs, Innviðasjóðs, Lýðheilsusjóðs, Sprotasjóðs, Markáætlunar á sviði vísinda og tækni og Jafnréttissjóðs lækkuð.
    Þessi ríkisstjórn leggur einnig til lækkun til hjálpartækja, lækkun til endurhæfingarþjónustu og lækkun til verndaðra vinnustaða og lækkun til vinnusamninga öryrkja. Framlög til persónuverndar, Ríkisendurskoðunar og almennrar löggæslu lækka þrátt fyrir að færri lögreglumenn séu nú en fyrir tíu árum. Einungis er gert ráð fyrir að opinberir starfsmenn fái 3% launahækkun sem þýðir kjararýrnun hjá opinberum starfsmönnum ef verðbólga fer yfir 3%. Þá er viðbótin til aldraðra fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeirra hópi. Sérstök ástæða er til að lýsa yfir miklum áhyggjum af stöðu einstakra heilbrigðisstofnana úti á landi og hjúkrunarheimila. Svona mætti lengi telja.
    Sérstaklega er sorglegt að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki tilbúnir til að láta þær kjarabætur sem fengust með svokölluðum lífskjarasamningum ná að fullu til hópa öryrkja og aldraðra.

Helmingslækkun veiðileyfagjalda á kjörtímabilinu.
    Síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum hefur veiðileyfagjaldið lækkað um meira en helming og verður 5 milljarðar kr. á næsta ári. Sú lækkun er í samræmi við lög sem ríkisstjórnarflokkarnir breyttu þegar þeir tóku við stjórnartaumunum.
    Samkvæmt lögum eiga veiðileyfagjöld m.a. að mæta kostnaði sem ríkið verður fyrir vegna greinarinnar, svo sem vegna eftirlits, rannsókna og stjórnunar. Nú vill svo til að kostnaður hins opinbera er 5,1 milljarður kr. eða hærri en það sem veiðileyfagjöldin verða.
    Veiðileyfagjaldið er því orðið það lágt að það nær ekki einu sinni að dekka kostnað skattgreiðenda af þjónustu hins opinbera við sjálfa atvinnugreinina. Gjaldið sem útgerðarmenn þurfa að greiða fyrir aðgang að þessari auðlind, sem þeir eiga ekki heldur þjóðin samkvæmt lögum, er orðið að engu. Í raun eiga skattgreiðendur nú að borga með stórútgerðinni þegar kemur að veiðileyfagjaldi. Með þessari breytingu verður veiðileyfagjaldið orðið lægra en tóbaksgjaldið. Stangveiðimenn greiddu svipaða upphæð fyrir veiðileyfi í vötnum og ám og það sem útgerðarmenn þurfa að greiða á næsta ári fyrir aðgang að einum bestu fiskimiðum jarðar.
    Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að frá árinu 2010 hafa arðgreiðslur til útgerðarmanna verið um 100 milljarðar kr. og þá hefur hagur sjávarútvegsins (aukið eigið fé og arðgreiðslur) vænkast um 450 milljarða kr. á einum áratug. Því til viðbótar sjáum við að 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna og yfir 40% af nýjum auði sem hefur myndast á Íslandi síðan 2010 hefur endað hjá ríkustu 10% landsmanna. Stór hluti af þessu fólki er stórútgerðarmenn.

Hvorki félagslegur né efnahagslegur stöðugleiki.
    Nú þegar samdráttur er hafinn í hagkerfinu er enn brýnna en áður að vel sé gætt að innviðum samfélagsins og jöfnuði. 1. minni hluti hefur áður bent á að hlutverk stjórnvalda sé að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Þetta fjárlagafrumvarp tryggir því miður hvorugt. Ríkisstjórnin ætlar hvorki að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né í nauðsynlega tekjuöflun fyrir hið opinbera sem kemur niður á velferðarkerfi okkar allra.

Brostnar forsendur.
    Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru afar veikar að mati 1. minni hluta. Einnig er það mat mjög margra umsagnaraðila. Gert er ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar, talsverðum hagvexti strax á næsta ári, svipuðu atvinnuleysi, óbreyttu olíuverði og lágri verðbólgu svo að eitthvað sé nefnt. 1. minni hluti lýsir sérstökum áhyggjum af auknu atvinnuleysi en um 7.000 manns eru núna atvinnulaus. Samfylkingin minnir á þær aðgerðir sem vinstri stjórnin síðasta greip til til að bregðast við atvinnuleysi en þá voru skólarnir m.a. opnaðir fyrir þessum hópi og ráðist var í margvíslegar aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi.

Hópar skildir eftir og sviknir.
    Barnafólk, milli- og lágtekjufólk, sjúklingar og skólafólk, aldraðir og öryrkjar og í raun þorri almennings er illa svikinn af þessu fjárlagafrumvarpi. Þá eru tekjumöguleikar hins opinbera illa nýttir og bitnar það á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Fjárlagafrumvarpið svarar því engan veginn kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem stjórnarflokkarnir lofuðu í kosningunum og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
    Eftir þessi fjárlög á sitjandi ríkisstjórn einungis ein fjárlög eftir og er því tíminn á þrotum þegar kemur að því að standa við gefin loforð við hina ýmsu hópa í samfélaginu. Þá er þolinmæðin sömuleiðis á þrotum.

Alþingi, 25. nóvember 2019.

Ágúst Ólafur Ágústsson.