Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 782  —  7. mál.
Leiðréttur texti.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Þór Hauksson og Kolbrúnu Benediktsdóttur frá héraðssaksóknara, Kristínu Edwald, Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur og Ellen Ósk Erlendsdóttur frá nefnd um eftirlit með lögreglu og Hauk Guðmundsson og Kjartan Ólafsson frá dómsmálaráðuneyti.
    Nefndinni bárust umsagnir frá héraðssaksóknara, nefnd um eftirlit með lögreglu, Runólfi Þórhallssyni og Snarrótinni, samtökum um borgaraleg réttindi.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að samið verði lagafrumvarp um bætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

Almennt.
    Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og styður markmið tillögunnar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela forseta Alþingis að leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis að semja lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Nefndin ræddi hvort rétt væri að ábyrgð á gerð slíks frumvarps yrði á hjá forsætisnefnd fremur en ráðherra málaflokksins. Dómsmálaráðherra tilkynnti nýverið um breytingar á málefnum lögreglunnar og m.a. um áform um að styrkja eftirlit með störfum lögreglu. Ráðherra hyggst skoða hvort rétt sé að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu fái sjálfstæðar rannsóknarheimildir, auknar fjárheimildir, aukið sjálfstæði, breiðara starfssvið sem og hvernig aðkomu þingsins að eftirliti með lögreglu sé best komið. Þá sé einnig til skoðunar hvernig sambærilegu eftirliti sé háttað annars staðar á Norðurlöndunum.
    Í ljósi framangreinds telur meiri hlutinn nærtækara að dómsmálaráðherra verði falið að vinna og leggja fram það frumvarp sem fjallað er um í tillögunni, fremur en forsætisnefnd Alþingis. Það liggur ljóst fyrir að ráðherra hefur þegar til skoðunar hver aðkoma Alþingis að slíku eftirliti ætti að vera. Því er mælst til þess að ráðherra haldi þeirri athugun sinni áfram, og ætti afstaða gagnvart stjórnskipulegu fyrirkomulagi eftirlitsins að liggja fyrir í frumvarpi sem lagt verði fyrir Alþingi, en endaleg ákvörðun um tilhögun þess í höndum löggjafans. Jafnframt beinir meiri hlutinn því til ráðherra að hafa til hliðsjónar niðurstöðu skýrslu frá 2017 sem gefin var út af lagadeild Kaupmannahafnarháskóla um mat á árangri af sjálfstæðu eftirliti með lögreglu við endurskoðun málaflokksins.

Núverandi fyrirkomulag.
    Nefndin fjallaði töluvert um núverandi fyrirkomulag við eftirlit með lögreglu og komu fram sjónarmið þess efnis að það væri ekki fullnægjandi. Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur verið starfrækt í þrjú ár en hlutverk hennar er afmarkað og felst í að koma kvörtunum og kærum í viðeigandi farveg og eftir atvikum að koma með athugasemdir við afgreiðslu og meðferð mála. Nefndin getur tekið atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði. Nefndinni er ekki ætlað að taka beinan þátt í meðferð máls en hún getur komið á framfæri athugasemdum við málsmeðferð eða niðurstöðu eða gert tillögur um aðrar aðgerðir til viðeigandi embættis eða annarra stjórnvalda. Slíkar athugasemdir eða tillögur eru þó ekki bindandi. Þá skortir verulega upp á að rannsóknar- og eftirlitsheimildir nefndarinnar séu fullnægjandi.
    Nefndin hefur fjallað um störf eftirlitsnefndarinnar í samhengi við efni tillögunnar og tekið til athugunar hvernig starfssvið þeirrar stofnunar sem tillagan leggur til að verði sett á fót gæti skarast á við starfssvið starfandi eftirlitsnefndar. Eftirlitsnefndin hefur með höndum öll verkefni sem tillagan leggur til að sjálfstæð stofnun um eftirlit muni hafa utan rannsóknar á tilvikum um einelti og kynferðislega áreitni innan lögreglu og er því að mörgu leyti um sambærilegar stjórnsýslueiningar að ræða. Hins vegar er með tillögunni lagt til að sjálfstæð stofnun um eftirlit með lögreglu hafi viðameira og víðtækara hlutverk en eftirlitsnefndin.
    Eftir umfjöllun nefndarinnar er það niðurstaða meiri hlutans að betur færi á því að byggja áfram á þeim góða grunni sem finna má í störfum nefndar um eftirlit með lögreglu fremur en að setja á fót nýja stofnun með tilheyrandi kostnaði, vinnu og tíma. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að ráðherra skuli við vinnu sína miða við að víkka út starfssvið og heimildir eftirlitsnefndarinnar í því skyni að uppfylla markmið tillögunnar.

Eftirlits- og rannsóknarheimildir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ljóst er af umfjöllun nefndarinnar, sjónarmiðum gesta og umsögnum að ástæða er til að skoða leiðir til að koma á öflugra eftirliti og ríkari rannsóknarheimildum en þeim sem nú eru til staðar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu. Þær valdheimildir sem tillagan leggur til að færa eftirlitsnefndinni eru til þess fallnar að efla verulega heimildir hennar til rannsókna innan málaflokksins. Meiri hlutinn beinir því til dómsmálaráðherra að tryggja eins og mögulegt er nægilegt fjármagn til reksturs eftirlitsnefndarinnar svo að hægt sé að tryggja að nefndin geti sinnt þeim verkefnum sem lagt er til að henni verði falin með lögum. Þá beinir meiri hlutinn því til ráðherra að beita sér fyrir því að tryggja að rannsakendur og starfsmenn stofnunarinnar hafi viðeigandi menntun eða starfsreynslu svo að hægt sé að treysta á faglegan grundvöll eftirlitsins. Nefndin ræddi nokkuð um þann hluta tillögunnar sem snýr að því að færa hinni nýju stofnun ákæruvald. Þau sjónarmið komu fram fyrir nefndinni að það væri ekki rétt að eftirlitsnefndin hefði sjálfstætt ákæruvald, heldur ættu málin að vera unnin upp í hendurnar á þar til gerðri deild innan þeirra stofnana sem nú fara með ákæruvald.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að hæfilegrar fjarlægðar verði gætt á milli hefðbundinna handhafa ákæruvalds og þeirra sem rannsaka og ákæra brot lögreglu í starfi. Nauðsynlegt er að það lagafrumvarp sem lagt verður fram samkvæmt tillögunni tryggi þá fjarlægð. Meiri hlutinn telur þó ekki ástæðu til þess að kveða á um að nefndin skuli fá slíkt ákæruvald og leggur því til að tilmæli þess efnis verði felld úr tillögugreininni. Þá telur meiri hlutinn rétt að veita rýmri tíma til að semja frumvarpið og leggur því til að ráðherra leggi það fram eigi síðar en á vorþingi 2021.
    Að öðru leyti telur meiri hlutinn að fullt tilefni sé til þess að hefja vinnu við að bæta sjálfstætt eftirliti með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Nauðsynin fyrir slíkt eftirlit er bæði skýr og brýn og er því rétt að stíga strax frekari skref í þá átt. Meiri hlutinn leggur því til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að undirbúa lagafrumvarp um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Við gerð frumvarpsins verði þess gætt að eftirlitsaðili samkvæmt fyrirhuguðu frumvarpi fái m.a. þau verkefni að:
     a.      hefja athugun að eigin frumkvæði,
     b.      taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum,
     c.      rannsaka ætluð brot lögreglumanna í starfi,
     d.      rannsaka tilkynningar um einelti og kynferðislega áreitni innan lögreglu,
     e.      rannsaka efni nafnlausra ábendinga innan lögreglu eða stjórnsýslu.
    Í frumvarpinu verði kveðið sérstaklega á um sjálfstæði eftirlitsaðilans.
    Ráðherra leggi frumvarpið, ásamt kostnaðargreiningu, fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2021.

Alþingi, 16. desember 2019.

Páll Magnússon,
form.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Jón Steindór Valdimarsson. Oddný G. Harðardóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.