Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 841  —  478. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur um launamun hjúkrunarfræðinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er launamunur hjá hjúkrunarfræðingum eftir því á hvaða sjúkrahúsi þeir starfa? Ef svo er, telur ráðherra slíkan mun óeðlilegan hjá aðilum sem vinna sömu eða sambærileg störf hjá ríkinu og hvernig hyggst ráðherra þá bregðast við til að útrýma launamuninum?

    Einhver launamunur er milli hjúkrunarfræðinga eftir því á hvaða sjúkrahúsi þeir starfa.
    Fjármála- og efnahagsráðherra fer með ábyrgð á kjarasamningum fyrir hönd ríkisins. Á vefsvæði ráðuneytisins kemur fram hvernig kjarasamningar ríkisins eru uppbyggðir. Fram kemur að í miðlægum kjarasamningi sé samið um þætti eins og vinnutíma, orlof, veikindarétt og fleira auk almennra launahækkana. Í miðlægum kjarasamningi er hins vegar ekki gengið frá forsendum launasetningar. Lokahönd er lögð á gerð kjarasamninga með stofnanasamningum sem eru hluti af kjarasamningum. Stofnanasamningar eru sérstakir samningar milli stofnana og stéttarfélaga um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamninga að þörfum stofnana og starfsmanna með hliðsjón af eðli starfseminnar, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnunum sérstöðu. Markmið þessa kerfis er að færa ákvarðanir um launasetningu nær vettvangi þannig að stofnanir hafi tækifæri til að umbuna starfsmönnum á grundvelli mats á persónu- og tímabundnum þáttum, svo sem menntun, reynslu og frammistöðu. Þar sem stofnanasamningar eru hluti af þeim kjarasamningum sem gerðir eru við stéttarfélög þá er ekki hægt að segja þeim upp sérstaklega eða fara í aðgerðir til að þvinga fram breytingar á þeim.
    Uppbygging kjarasamninga er því þannig að beinlínis er gert ráð fyrir að launasetning hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna geti verið mismunandi milli stofnana og miðstýring launaákvarðana takmörkuð.
    Þó að launaþróun stofnana hafi verið með mismunandi hætti á sjúkrahúsum í gegnum tíðina eru eðlilegar skýringar á launum og launasetningu hjúkrunarfræðinga hjá stofnununum. Sá launamunur sem er nú milli hjúkrunarfræðinga eftir því á hvaða sjúkrahúsi þeir starfa skýrist því að nokkru leyti af staðbundnum þáttum og áherslum stofnana.