Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 845  —  492. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um starfsemi Matvælastofnunar.


     1.      Hvernig metur ráðherra framtíðarstarfsemi Matvælastofnunar miðað við það fjármagn sem stofnuninni var úthlutað á grundvelli fjárlaga fyrir árið 2020?
    Matvælastofnun skilaði rekstraráætlun fyrir árið 2020 sem hefur verið samþykkt en framangreind áætlun rúmast innan þess fjárhagsramma sem stofnuninni er markaður í fjárlögum. Rekstraráætlun fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir að Matvælastofnun sinni lögbundnum skyldum sínum auk viðbótarverkefna sem ráðherra hefur falið stofnuninni að sinna. Í ljósi framangreinds metur ráðherra að starfsemi Matvælastofnunar vegna ársins 2020 sé tryggð.

     2.      Telur ráðherra að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og haldið óbreyttum starfsmannafjölda?
    Ráðherra telur að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og haldið óbreyttum starfsmannafjölda. Í rekstraráætlun stofnunarinnar vegna ársins 2020 er ekki gert ráð fyrir fækkun starfsfólks enda rúmast núverandi starfsmannafjöldi innan samþykktrar fjárhagsáætlunar.

     3.      Fjölgar verkefnum stofnunarinnar á næstunni og ef svo er, hefur hún fjármagn til að takast á við þau og til að fjölga starfsfólki ef þörf krefur?
    Á 149. löggjafarþingi lagði ráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru þar sem lagðar voru til breytingar á fyrirkomulagi við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 20. júní 2019 og tók gildi 1. janúar 2020 en með lögunum var þáverandi leyfisveitingakerfi við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum afnumið. Samhliða undirbúningi og vinnslu frumvarpsins vann ráðuneytið að undirbúningi aðgerðaáætlunar sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Ráðherra lagði áætlunina fram á Alþingi og var hún samþykkt sem þingsályktun í júní 2019. Með henni ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðunum sem eru 17 talsins.
    Ráðherra hefur falið Matvælastofnun að sinna verkefnum sem falla undir aðgerðir í framangreindri aðgerðaáætlun. Í því sambandi má nefna verkefni sem tengjast annars vegar átaki til þess að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi og átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins. Auk framangreinds hefur ráðherra m.a. falið Matvælastofnun að sinna verkefnum með hliðsjón af breytingum á tilhögun stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi í framhaldi af samþykkt laga nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.). Verkefni Matvælastofnunar snúa m.a. að auknu gegnsæi í fiskeldisstarfsemi, aðgerðum vegna laxalúsar og breytingum á framkvæmd eftirlits með aukinni áherslu á framkvæmd áhættumiðaðs eftirlits.
    Ný verkefni eru ætíð skoðuð með tilliti til fjármögnunar með hliðsjón af fjárlögum og hefur fjármagn verið tryggt vegna framangreindra verkefna og starfsfólki fjölgað eftir þörfum.

     4.      Mun Matvælastofnun geta sinnt eftirliti með fiskeldi með fullnægjandi hætti?
     Með lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.) voru gerðar breytingar á tilhögun stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi. Í frumvarpinu var að finna 175 millj. kr. framlag til bættrar stjórnsýslu, eftirlits og heilbrigðiskrafa í fiskeldi. Framlagið verður meðal annars notað til þess að styrkja eftirlit og stjórnsýslu Matvælastofnunar með fiskeldi. Að mati ráðherra er Matvælastofnun unnt að sinna eftirliti með fiskeldi með fullnægjandi hætti.