Ferill 491. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 846  —  491. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um starfsemi Hafrannsóknastofnunar.


     1.      Hvernig metur ráðherra framtíðarstarfsemi Hafrannsóknastofnunar miðað við það fjármagn sem stofnuninni var úthlutað á grundvelli fjárlaga fyrir árið 2020?
    Fjárframlög til hafrannsókna aukast verulega samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020. Munar þar mest um 600 millj. kr. framlag til smíða á nýju hafrannsóknaskipi sem mun valda straumhvörfum í starfi Hafrannsóknastofnunar þegar þar að kemur. Hefur þá þegar verið varið 900 millj. kr. í þetta verkefni, en gert er ráð fyrir áframhaldandi framlögum til ársins 2022.
    Á undanförnum árum hefur Hafrannsóknastofnun verið mjög háð framlögum úr verkefnasjóði sjávarútvegsins, en tekjur sjóðsins eru sveiflukenndar og hafa minnkað mikið síðustu ár. Árið 2019 var stofnuninni bætt tekjutap úr sjóðnum með 250 millj. kr. framlagi, en með fjárlögum fyrir árið 2020 er sú upphæð hækkuð í 400 millj. kr. og stofnunin þar með losuð undan því að vera háð breytilegum framlögum úr sjóðnum. Þá er á fjárlögum í ár veitt tímabundið 150 millj. kr. framlag til að efla stofnunina.
    Skipulagi Hafrannsóknastofnunar hefur nú verið breytt til að gera reksturinn skilvirkari og hagkvæmari. Fagsviðum fækkar úr fimm í fjögur og stoðsviðum úr fjórum í tvö. Með flutningi stofnunarinnar úr Reykjavík á einn stað í Hafnarfirði verða breytingar í rekstri stoðþjónustu hennar.
    Rekstraráætlun Hafrannsóknastofnunar fyrir árið 2020 er innan þess fjárhagsramma sem stofnuninni er markaður í fjárlögum og hefur áætlunin verið samþykkt. Áætlunin gerir ráð fyrir að sinnt verði öllum helstu verkefnum sem stofnunin hefur haft með höndum undanfarin ár.

     2.      Telur ráðherra að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og haldið óbreyttum starfsmannafjölda?
    Svarið er já. Eins og áður segir hefur skipulagi Hafrannsóknastofnunar verið breytt til aukinnar skilvirkni og hagræðingar. Fram kom í fréttatilkynningu stofnunarinnar 21. nóvember sl. að breytingar í rekstri stoðþjónustu við flutning stofnunarinnar á einn stað fælu í sér fækkun starfa þannig að ekki yrði endurráðið í stöður sem losnuðu, en ekki væru áform um frekari uppsagnir. Þá kom einnig fram að kjarnastarfsemi stofnunarinnar yrði óbreytt og að öllum helstu rannsóknaverkefnum yrði sinnt.

     3.      Fjölgar verkefnum stofnunarinnar á næstunni og ef svo er, hefur hún fjármagn til að takast á við þau og til að fjölga starfsfólki ef þörf krefur?
    Aukið fiskeldi og nýjar kröfur um umhverfisvernd og varnir gegn erfðablöndun hafa nú þegar skapað ný verkefni sem fyrirsjáanlegt er að aukist enn frekar. Séð er fyrir fjármögnun slíkra verkefna í nýjum lögum um fiskeldi. Þá er líklegt að breytingar á umhverfi sjávar og þar með lífríki sjávar muni kalla á auknar og nýjar rannsóknir, en það er stefna ráðherra að slík ný verkefni verði á hverjum tíma kostnaðarmetin og að þeim fylgi fjármagn ef sýnt verði fram á þörfina. Kostnaðarmat er ávallt unnið í samráði við hlutaðeigandi stofnun.