Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 852  —  500. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um nefndir og starfs- og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði ráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili og hver eru hlutverk þeirra?

    Eftirfarandi nefndir, starfs- og stýrihópar hafa verið sett á fót á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðherra á yfirstandandi kjörtímabili. Tekið skal fram að ekki eru tilgreindar þær nefndir sem endurskipað hefur verið í á tímabilinu.
    
I. Verkefnanefndir skipaðar samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Nefnd um veitingu umhverfisviðurkenningar ráðuneytisins, Kuðungsins.
    Nefndin hafði það hlutverk að vera umhverfis- og auðlindaráðherra til aðstoðar við ákvörðun á umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins til fyrirtækis eða stofnunar fyrir fyrirmyndarumhverfisstarf sem veitt var í tengslum við Dag umhverfisins 2018. Nefndin hefur lokið störfum.
    Starfshópur um endurskoðun hollustuháttareglugerðar.
    Starfshópurinn hafði það hlutverk að undirbúa heildarendurskoðun á reglugerð um hollustuhætti. Verkefni hópsins var að setja fram stefnu og áhersluatriði sem höfð verða til hliðsjónar við endurskoðun á reglugerð um hollustuhætti. Gert var ráð fyrir að hópurinn kallaði til aðra aðila eftir því sem þörf væri á. Starfshópurinn hefur lokið störfum.
    Verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.
    Verkefnisstjórnin hefur það hlutverk að vinna og uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við ákvæði um slíkt í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Aðgerðaáætlunin kom út í september 2018 og vinnur verkefnisstjórnin nú að uppfærslu hennar.
    Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
    Þverpólítísk nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Hlutverk nefndarinnar var m.a. að skilgreina mörk þjóðgarðsins, setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka, fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf. Jafnframt var nefndinni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlun og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn. Þá var nefndinni ætlað að gera tillögu að lagafrumvarpi um þjóðgarðinn, þar sem m.a. væri tekin afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins. Loks átti nefndin setja fram áætlun um fjármögnun fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Nefndin hefur lokið störfum.
    Samstarfshópur um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingar við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum.
    Hlutverk samstarfshópsins felst í að skilgreina verkefni sem hafi þau markmið að efla fagþekkingu þeirra aðila sem vinna að uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Með því er hægt að auka gæði innviðauppbyggingar, hagkvæmni, draga úr hættu á ónauðsynlegu raski og nýta fjármagn betur. Að tryggja að hönnun innviða í náttúrunni falli sem best að landslagi og stuðli að jákvæðri upplifun gesta og bættri nýtingu fjármagns. Að samræma miðlun og merkingar milli aðila sem bera umsjónarlega ábyrgð. Til að vinna að þessu er m.a. gert ráð fyrir gerð og útgáfu leiðbeininga, fræðsluefnis, handbóka, viðmiða við útboð og staðla, auk námskeiða og fræðslufunda og annarra afurða. Verkefnisstjórn um landsáætlun um innviði er ábyrg fyrir framgangi verkefnisins. Samráðshópurinn skal leggja tímasetta verkefnaáætlun fyrir verkefnisstjórn til samþykktar.
     Stýrihópur um eftirfylgni áætlunar um loftgæði á Íslandi 2018–2029.
    Stýrihópurinn hefur það hlutverk að hafa umsjón með framkvæmd áætlunarinnar Hreint loft til framtíðar – áætlun um loftgæði á Íslandi 2018–2029 sem gefin var út í nóvember 2017 í samræmi við ákvæði 6. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, um loftgæði á Íslandi 2018–2029. Hlutverk stýrihópsins verður að kanna reglulega hvernig framkvæmdum aðgerða í loftgæðaáætluninni miðar. Ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar er í höndum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
    Loftslagsráð.
    Hlutverk ráðsins er að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi, þ.m.t. aðgerðum til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, efla viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og efla almenna vitund um loftslagsmál og aðgerðir til að sporna gegn þeim. Loftslagsráði var ætlað að hafa náið samstarf við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og önnur ráðuneyti og stofnanir sem vinna að loftslagsmálum og skyldum málum. Þá á loftslagsráð að hafa samstarf við nýstofnað ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Með breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 86/2019, var skipan ráðsins lögfest, sjá umfjöllun undir kafla II um lögskipaðar nefndir.
    Starfshópur um átaksverkefni í friðlýsingum.
    Starfshópurinn hefur það hlutverk að vinna að framgangi átaks í friðlýsingum í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Starfshópurinn skal vinna að friðlýsingum eftir því sem við á samkvæmt lögum um náttúruvernd, lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og sérlögum einstakra svæða. Hópurinn skal hittast reglubundið og vinna að átaksverkefnum í samvinnu við sveitastjórnir og hagsmunaaðila. Starfshópnum er ætlað að skila áfangaskýrslum um framgang verkefna til ráðherra.
    Starfshópnum er ætlað að vinna eftirfarandi verkefni:
          Svæði í verndarflokki rammaáætlunar. Í núgildandi rammaáætlun (RÁ) eru virkjanakostir í verndarflokki sem ber að friðlýsa. Friðlýsing svæðanna, skilmálar ásamt landfræðilegri afmörkun skal unnin í samræmi við málsmeðferð náttúruverndarlaga.
          Svæði og tegundir á náttúruverndaráætlunum. Unnið skal að friðlýsingu svæða og tegunda á náttúruverndaráætlunum í samræmi við þingsályktanir.
          Svæði undir álagi ferðamanna. Svæðum þar sem náttúruverndargildi hefur rýrnað vegna álags ferðamanna hefur fjölgað verulega og skal unnið að því að friðlýsa nokkur þeirra.
          Stækkun þjóðgarða. Unnið skal að stækkun þjóðgarða í samræmi við framkomnar tillögur.
     Samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum.
    Samráðsvettvangurinn hafði það hlutverk að koma með tillögur um hvernig dregið yrði úr notkun plasts, hvernig bæta mætti endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi. Samráðsvettvangurinn átti m.a. að hafa hliðsjón af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, og áætlun umhverfisráðherra Norðurlandanna frá því í maí 2017 um að draga úr umhverfisáhrifum plasts. Samráðsvettvangurinn átti að taka til skoðunar hvaða rannsóknir og vöktun varðandi plast þyrfti að ráðast í, koma með tillögur um þær stjórnvaldsaðgerðir sem æskilegt væri að koma í framkvæmd og hvernig best væri að stuðla að nýsköpun á vörum sem kæmu í stað plasts. Samráðsvettvangurinn átti að taka mið af þeim tillögum sem þegar höfðu komið fram á þessu sviði og jafnframt forgangsraða þeim tillögum sem lagðar voru fram í aðgerðaáætluninni. Samráðsvettvangurinn hefur lokið störfum.
     Dómnefnd fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2018.
    Nefndin hafði það hlutverk að fara yfir og meta tilnefningar sem bárust og leggja fram rökstudda tillögu um verðlaunahafa til umhverfis- og auðlindaráðherra. Dómnefndin hefur lokið störfum.
     Starfshópur vegna flugeldamála.
    Starfshópnum er ætlað að móta tillögur um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda. Starfshópurinn skal taka til skoðunar og gera tillögur um hvort og þá hvernig eigi að takmarka notkun flugelda og hvernig hægt sé að tryggja að það hafi sem minnst neikvæð áhrif á fjármögnun þeirra verkefna sem björgunarsveitir inna af hendi í þágu almannaheilla.
    Starfshópurinn skal m.a. taka til skoðunar og gera grein fyrir:
          laga- og reglugerðaákvæðum sem gilda um notkun og sölu flugelda,
          lögbundnum verkefnum björgunarsveita og hversu mikið þau eru fjármögnuð með sölu af flugeldum,
          áhrifum flugelda á lýðheilsu, svo sem upplýsingar um komur á heilsugæslu og sjúkrahús um áramót, tíðni öndunarfærasjúkdóma á Íslandi og aðrar tilfallandi upplýsingar,
          áhrifum flugelda á loftgæði og aðra mengun m.a. á grundvelli mælinga sem liggja fyrir og þeirra sem ráðist verður í af hálfu Umhverfisstofnunar,
          áhrifum mismunandi tegunda skotelda á loftgæði og
          öðrum atriðum sem hópurinn telur rétt að líta til.
    Á grundvelli framangreindrar greiningar skal starfshópurinn meta hvort þörf sé á að grípa til aðgerða og takmarka með einhverjum hætti notkun flugelda hér á landi. Starfshópurinn skal m.a. hafa samráð við Landsbjörg og aðra söluaðila flugelda, Umhverfisstofnun, Neytendastofu, ríkislögreglustjóra, fjármála- og efnahagsráðuneyti og aðila sem rannsakað hafa áhrif flugelda á heilsu og umhverfi.
     Starfshópur um endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Starfshópurinn hefur það hlutverk að endurskoða í heild sinni lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Við heildarendurskoðunina ber að hafa í huga að lögin fela í sér innleiðingu á grunntilskipun 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum og breytingum á henni og þurfa lögin á hverjum tíma að samræmast tilskipuninni og fela í sér fullnægjandi innleiðingu á ákvæðum hennar.
    Meginmarkmiðin með heildarendurskoðuninni eru að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmist sem best ákvæðum Árósasamningsins. Í aukinni skilvirkni getur m.a. falist samþætting á ferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda við ferli skipulagsgerðar og umhverfisáhrifum áætlana auk leyfisveitingaferlis. Vegna þessa þarf einnig að taka önnur lög til skoðunar, þ.e. skipulagslög, lög um umhverfismat áætlana, sérlöggjöf um leyfisskylda starfsemi og framkvæmdir og stjórnsýslulög. Auk framangreinds er starfshópnum falið að endurskoða ákvæði laga nr. 106/2000 um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum, innheimtu Skipulagsstofnunar á kostnaði vegna málsmeðferðar framkvæmda, viðmiðunargildi framkvæmda í 1. viðauka laganna auk annarra atriða sem starfshópurinn telur rétt að taka til skoðunar.
     Nefnd um veitingu umhverfisviðurkenningar ráðuneytisins, Kuðungsins.
    Nefndin hafði það hlutverk að vera umhverfis- og auðlindaráðherra til aðstoðar við ákvörðun á umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins til fyrirtækis eða stofnunar fyrir fyrirmyndarumhverfisstarf sem veitt er í tengslum við Dag umhverfisins 2019. Nefndin hefur lokið störfum.
     Starfshópur um endurskoðun viðauka laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
    Starfshópurinn hefur það hlutverk að endurskoða viðauka laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, en í viðaukunum er talin upp sú starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna. Markmið með endurskoðuninni er einkum að lagfæra misræmi milli viðauka en dæmi eru um að sama starfsemi komi fyrir í tveimur viðaukum. Jafnframt er þörf á að meta hvort tiltekna starfsemi vanti í framangreinda viðauka sem og hvort einhver starfsemi megi falla á brott. Verkefni hópsins verður að setja saman drög að endurskoðuðum viðaukum við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir að ráðuneytið leggi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     Valnefnd vegna ráðningar í embætti forstjóra Landmælinga Íslands.
    Nefndin hafði það hlutverk að fara yfir og leggja mat á hæfni og hæfi umsækjenda um embætti forstjóra Landmælinga Íslands og skila greinargerð til ráðherra. Nefndin hefur lokið störfum.
     Vinnuhópur vegna fráveitumála.
    Vinnuhópnum er falið að gera tillögur að fyrirkomulagi stuðnings ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda. Hlutverk hópsins er einnig að leggja fram valkosti um áherslur og forgangsröðun varðandi stuðning, sem hafi hliðsjón af því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna skólps. Litið verði til þess m.a. hvort forgangsraða eigi eftir því hversu viðkvæmir viðtakar eru, þörf á að draga úr mengun vegna örplasts og annarra efna eða möguleikum til að nýta seyru sem verðmæti. Kannað verði hvar mesta þörfin fyrir stuðning liggur, en einnig verði komið fram með þann valkost að stuðningur gangi jafnt yfir alla óháð ofangreindum áherslum. Miðað er við að ákvörðun um fyrirkomulag um stuðning ríkisins við sveitarfélög vegna fráveitumála liggi fyrir við gerð fjármálaáætlunar 2021–2025.
    Starfshópur um tillögur að meðhöndlun vindorkukosta í rammaáætlun.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „setja þarf lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar“. Starfshópurinn hefur það hlutverk að vinna tillögur að meðhöndlun vindorkukosta í rammaáætlun.
    Hlutverk starfshópsins er:
          Að taka til skoðunar hvort núverandi aðferðarfræði laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlanir, henti vindorkukostum að öllu leyti eða hvort rétt sé að lögin kveði á um sérreglur um meðferð vindorkukosta á grundvelli hugmynda sem fram hafa komið um skilgreiningu á tilteknum nýtingarsvæðum vindorku á landinu.
          Telji starfshópurinn að slíkar sérreglur ættu að gilda um meðferð vindorkukosta innan rammaáætlunar skal hópurinn vinna drög að stefnumörkun ríkisins varðandi þá umhverfis- og samfélagsþætti sem helst ættu að vera ráðandi við staðsetningu vindorkuvera hérlendis auk mótaðra hugmynda um hvaða stofnun eða aðili væri best til þess fallinn að vinna áfram að framkvæmd slíks verkefnis á grundvelli slíkrar stefnumörkunar.
          Að útfæra og leggja fram tillögur að aðferðafræði, málsmeðferð og leyfisveitingarferli vindorkukosta innan rammaáætlunar á grundvelli niðurstaðna sinna.
          Að móta og gera tillögur að nauðsynlegum breytingum á lögum nr. 48/2011, um verndar- og nýtingaráætlun, á grundvelli framangreinds.
     Valnefnd vegna ráðningar í embætti forstjóra Umhverfisstofnunar.
    Valnefndin hafði það hlutverk að fara yfir og leggja mat á hæfni og hæfi umsækjenda um embætti forstjóra Umhverfisstofnunar og skila greinargerð til ráðherra. Valnefndin hefur lokið störfum.
     Starfshópur um aðgerðir gegn matarsóun.
    Starfshópurinn hefur það hlutverk að móta tillögur að aðgerðum gegn matarsóun til næstu ára. Verkefni starfshópsins er þríþætt:
          Að gera einfalt stöðumat á umfangi matarsóunar á Íslandi og meta lauslega árangur af fyrri aðgerðum (hópurinn nýti niðurstöður undangenginna rannsókna).
          Að gera tillögur að markmiðum sem hópurinn telur nauðsynleg til að hvetja til samdráttar í matarsóun, svo sem fyrir einstaka hluta virðiskeðju matvæla.
          Að gera tillögur að aðgerðum sem ætlað er að draga úr matarsóun, t.d. einstökum aðgerðum sem stjórnvöld geta gripið til, samstarfsverkefnum eða fræðsluverkefnum.
     Starfshópur til að móta tillögur að útfærslu á framkvæmd framleiðendaábyrgðar á rafhlöðum og rafgeymum í ökutæki.
    Starfshópurinn hefur það hlutverk að móta tillögu að útfærslu á framkvæmd framleiðendaábyrgðar á rafhlöðum og rafgeymum sem notuð eru til að knýja ökutæki áfram. Verkefni starfshópsins er að vinna að tæknilegri útfærslu á framkvæmd framleiðendaábyrgðar þar sem markmiðið verður einnig að tryggja viðeigandi meðhöndlun drifrafhlaðna að lokinni notkun og jafnræði á markaði.
     Stýrihópur um stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni.
    Stýrihópurinn hefur það hlutverk að undirbúa nýja stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi til næstu ára, sem jafnframt styðji við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og aðra alþjóðasamninga.

II. Lögbundnar nefndir.
     Ráðgjafarnefnd um landsskipulagsstefnu.
    Hlutverk ráðgjafarnefndarinnar er að vera ráðherra og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við undirbúning landsskipulagsstefnu. Ráðgjafarnefndinni er ætlað að veita faglega ráðgjöf við mótun landsskipulagsstefnu og að koma með tillögur um samþættingu við áætlanir í ólíkum málaflokkum sem varða landnotkun á landsvísu. Nánar er kveðið á um hlutverk og starfshætti nefndarinnar í 4. og 5. gr. reglugerðar um landsskipulagsstefnu nr. 1001/2011. Sérstakt verkefni nefndarinnar er að vinna að viðbótum við landsskipulagsstefnu 2015–2026 og móta nánari stefnu um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála, sem taki eftir atvikum til allra viðfangsefna gildandi landsskipulagsstefnu.
    Svæðisráð um strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði.
    Svæðisráðið hefur það hlutverk að vinna að gerð strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði, sbr. 5. gr. og I. ákvæði til bráðabirgða í lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018. Fulltrúar í svæðisráði bera ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags og starfa í umboði viðkomandi ráðherra, sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sbr. 4. gr. laga nr. 88/2018. Svæðisráð starfa á grundvelli laga nr. 88/2018, um skipulag haf- og strandsvæða, og þeirra reglugerða sem settar eru á grundvelli laganna.
     Svæðisráð um strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði.
    Svæðisráðið hefur það hlutverk að vinna að gerð strandsvæðisskipulags fyrir Austfirði, sbr. 5. gr. og ákvæði til bráðabirgða I í lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018. Fulltrúar í svæðisráði bera ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags og starfa í umboði viðkomandi ráðherra, sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sbr. 4. gr. laga nr. 88/2018. Svæðisráð starfa á grundvelli laga nr. 88/2018, um skipulag haf- og strandsvæða, og þeirra reglugerða sem settar eru á grundvelli laganna.
     Verkefnisstjórn um gerð landgræðsluáætlunar.
    Verkefnisstjórnin er skipuð skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 155/2018, um landgræðslu, og hefur yfirumsjón með gerð landgræðsluáætlunar og skilar tillögum til ráðherra. Í landgræðsluáætlun sem er til tíu ára í senn, skal kveðið á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu með hliðsjón af markmiðum laganna. Í áætluninni skal gera grein fyrir markmiðum stjórnvalda um hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu, hvernig gæði lands eru best varðveitt og hvernig efla megi og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við. Jafnframt skal horft til þess að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Verkefnisstjórn skal í upphafi taka saman lýsingu á verkefninu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð landgræðsluáætlunar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun stefnunnar.
    Með vísan til markmiða laga um landgræðslu og ákvæða 6. gr. um innihald landgræðsluáætlunar er lögð áhersla á af hálfu ráðuneytisins að verkefnisstjórn fjalli um hvernig unnið verði að þeim markmiðum og hvernig sett verði fram framtíðarsýn til langs tíma, skilgreind markmið og aðgerðaáætlun með skilgreindum mælikvörðum á árangur. Jafnframt er lögð sérstök áhersla á endurheimt vistkerfa (e. Restoration Strategy) á stórum samfelldum svæðum, einkum birki- og víðikjarrs og endurheimt votlendis og sjálfbæra nýtingu lands. Sérstaklega skal hugað að samlegð endurheimtar vistkerfa og markmiða á friðlýstum svæðum þar sem það á við. Áhersla skal jafnframt lögð á nýtingu lífrænna efna til landgræðslu og áhersla á landgræðslu í samhengi loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Gera skal sérstaklega grein fyrir notkun tegunda og tryggja að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir sem numið geta land og dreift sér. Mikilvægt er að skoðað sé sérstaklega hvernig auka megi þátttökunálgun með einstaklingum, félagasamtökum, sjálfboðaliðum o.fl. í landgræðslustarfinu og hvernig megi útfæra samstarf einkaaðila og ríkisins.
     Verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í skógrækt.
    Verkefnisstjórnin er skipuð skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 33/2019, um skóga og skógrækt, og hefur yfirumsjón með gerð landsáætlunar í skógrækt og skilar tillögum til ráðherra. Í landsáætlun í skógrækt sem er til tíu ára í senn, skal kveða á um stefnu stjórnvalda þar sem fjallað er um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt með hliðsjón af markmiðum laganna. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna skal í áætluninni gera grein fyrir:
          forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags,
          vernd og endurheimt náttúruskóga,
          ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu,
          sjálfbærri nýtingu skóga,
          áhrifum skógræktar á atvinnuþróun og byggð,
          aðgengi fólks að skógum til útivistar,
          skógrækt í samhengi líffræðilegrar fjölbreytni,
          skógrækt í samhengi loftslagsbreytinga,
          öflun þekkingar á skógum og skógrækt og miðlun hennar,
          eftirliti með ástandi og nýtingu skóga,
          eldvörnum og öryggismálum.
    Jafnframt skal horft til þess að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Verkefnisstjórn skal í upphafi taka saman lýsingu á verkefninu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð landsáætlunar í skógrækt, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun stefnunnar.
    Með vísan til markmiða laga um skóga og skógrækt og ákvæða 4. gr. um innihald landsáætlunar er lögð áhersla á af hálfu ráðuneytisins að verkefnisstjórn fjalli um hvernig unnið verði að þeim markmiðum og hvernig sett verði fram framtíðarsýn til langs tíma, skilgreind markmið og aðgerðaáætlun með skilgreindum mælikvörðum á árangur. Jafnframt er lögð sérstök áherslu á að í landsáætlun í skógrækt sé fjallað um endurheimt náttúruskóga á stórum samfelldum svæðum og skógrækt í samhengi loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Gera skal sérstaklega grein fyrir notkun tegunda í skógrækt og tryggja að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir sem numið geta land og dreift sér. Mikilvægt er að skoðað sé sérstaklega hvernig auka megi þátttökunálgun með einstaklingum, félagasamtökum, sjálfboðaliðum o.fl. í skógræktarstarfinu og hvernig útfæra megi samstarf einkaaðila og ríkisins.
    Stjórn loftslagssjóðs.
    Stjórnin er skipuð skv. 31. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum, nr. 86/2019. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.
    Stjórnin tekur ákvarðanir um úthlutanir úr sjóðnum í samræmi við reglur sjóðsins. Stjórninni er heimilt að framselja óháðum aðila fjárhagslega umsýslu sjóðsins samkvæmt samningi. Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr loftslagssjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Ráðherra skal setja loftslagssjóði reglur þar sem m.a. skal kveðið á um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur sjóðsins.
     Loftslagsráð.
    Loftslagsráð er skipað samkvæmt lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum, nr. 86/2019. Loftslagsráð hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.
    Verkefni ráðsins eru að:
          veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að auka kolefnisbindingu,
          veita ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum,
          rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál,
          hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga,
          rýna tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum,
          vinna að öðrum verkefnum sem ráðherra felur ráðinu hverju sinni.
    Loftslagsráð skal gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum.
     Samráðshópur til ráðgjafar svæðisráði vegna undirbúnings strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði.
    Samráðshópurinn er skipaður skv. 6. mgr. 5. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, og hefur það hlutverk að vera svæðisráði um gerð strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði til ráðgjafar og samráðs við undirbúning og gerð strandsvæðisskipulags.
     Samráðshópur til ráðgjafar svæðisráði vegna undirbúnings strandsvæðaskipulags fyrir Austfirði.
    Samráðshópurinn er skipaður skv. 6. mgr. 5. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, og hefur það hlutverk að vera svæðisráði um gerð strandsvæðaskipulags fyrir Austfirði til ráðgjafar og samráðs við undirbúning og gerð strandsvæðisskipulags.