Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 860  —  443. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um tilfærslu jafnréttismála til forsætisráðuneytis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver hefur kostnaður verið vegna tilfærslu jafnréttismála frá velferðarráðuneyti til forsætisráðuneytis og hversu margir starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa í forsætisráðuneytið vegna þessara breytinga? Óskað er eftir að allur kostnaður vegna tilfærslunnar verði tilgreindur, hvort tveggja við starfsstöðvar og starfsfólk.

    Með þingsályktun nr. 1/149 var velferðarráðuneytinu skipt upp í heilbrigðisráðuneyti annars vegar og félagsmálaráðuneyti hins vegar. Í tillögu til þingsályktunar kemur fram að vægi jafnréttismála hafi aukist verulega undanfarin ár og að litið sé til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar löggjöf og þróun málaflokksins á heimsvísu. Í ljósi þessa, áherslu núverandi ríkisstjórnar á málaflokkinn, ákvæða jafnréttislaga um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og áætlanagerð og þess hversu víða jafnréttismálin teygja anga sína var talið æskilegt að flytja málaflokkinn, a.m.k. tímabundið, til forsætisráðuneytisins á sérstaka skrifstofu jafnréttismála en fyrir breytinguna hafði málaflokkurinn heyrt undir skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu. Breytingin endurspeglar áherslu sitjandi ríkisstjórnar á málaflokkinn samkvæmt sáttmála hennar um ríkisstjórnarsamstarfið.
    Í samræmi við framangreint og til að efla umgjörð málaflokksins var sett á laggirnar sérstök skrifstofa jafnréttismála í forsætisráðuneytinu og þar skipaður skrifstofustjóri til að stýra daglegum rekstri hennar. Þá er á fjárlögum þessa árs gert ráð fyrir viðbótarstöðugildi á skrifstofuna til frekari eflingar málaflokksins. Skrifstofunni er ætlað að hafa það hlutverk að hafa umsjón með framtíðarstefnumótun og heildarendurskoðun jafnréttismála. Þá gegnir hún miðlægu hlutverki við að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Efling málaflokksins að þessu leyti hefur haft í för með sér kostnað. Þar er hins vegar ekki um að ræða beinan kostnað vegna tilfærslu stjórnarmálefnisins milli ráðuneytanna heldur kostnað sem er til kominn vegna framangreindrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að styrkja og efla málaflokkinn almennt.
    Við flutning stjórnarmálefnisins frá velferðarráðuneytinu voru fjárheimildir og starfsmenn málaflokksins fluttir til forsætisráðuneytisins, sbr. 3. og 4. mgr. 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Þrjú föst stöðugildi og tvö tímabundin voru flutt til forsætisráðuneytisins við tilfærsluna en ráðgert er að föst stöðugildi verði fimm á þessu ári, fjórir sérfræðingar og einn skrifstofustjóri. Þá reyndist nauðsynlegt að taka á leigu skrifstofuhúsnæði undir starfsemi skrifstofunnar þar sem ráðuneytið býr þegar við þröngan húsakost. Kostnaður vegna húsnæðisins er um 9,5 millj. kr. á ári og er tekinn af fjárlagaramma ráðuneytisins. Á móti kemur að við flutning starfsfólksins til forsætisráðuneytisins kann þó að hafa sparast kostnaður vegna starfsaðstöðu þess hjá félagsmálaráðuneytinu. Ekki hafa komið til viðbótarfjárveitingar vegna tilfærslu málaflokksins.