Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 911  —  498. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um nefndir og starfs- og stýrihópa.



    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði ráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili og hver eru hlutverk þeirra?

    Ráðherra hefur sett á fót þær nefndir og starfs- og stýrihópa á yfirstandandi kjörtímabili sem tilgreindar eru hér á eftir. Í svarinu eru undanskildar endurskipanir í nefndir og ráð sem komið hafði verið á fót fyrir upphaf kjörtímabilsins.

Fjármálaeftirlitsnefnd (2019).
    Fjármálaeftirlitsnefnd tekur ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Nefndin getur ákveðið að framselja til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits vald sitt til töku ákvarðana sem ekki teljast meiri háttar.

Nefnd um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda (2018).
    Verkefni nefndarinnar eru að fjalla um verkaskiptingu, faglegt samstarf og sameiginleg verkefni milli stofnana ráðuneytisins við skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Nefndin leggi mat á það hvort og þá hvaða verkþættir í starfsemi stofnananna eigi samleið. Þar má nefna breytta og skilvirkari verkaskiptingu hjá stofnununum og möguleg tækifæri í samrekstri og nýtingu sameiginlegra innviða.

Nefnd um breytingu á lögum um verðbréfasjóði (UCITS V o.fl.) (2018).
    Verkefni nefndarinnar er að semja drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um verðbréfasjóði.

Nefnd um endurskoðun á fyrirkomulagi úrskurðarnefnda á fjármálamarkaði (2018).
    Hlutverk nefndarinnar er að taka til skoðunar fyrirkomulag þeirra nefnda sem leysa úr ágreiningi á milli neytenda og fyrirtækja sem starfa á fjármálamarkaði með það að markmiði að tryggja að fyrirkomulag þeirra samræmist ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (tilskipun um lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR)).

Starfshópur sérfræðinga sem meta á kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar o.fl. (2018).
    Starfshópnum var falið að meta kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar og að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar.

Starfshópur um endurskoðun laga um gjaldeyrismál (2019).

    Hlutverk starfshópsins er að endurskoða umgjörð um gjaldeyrismál hér á landi. Í þessu felst m.a. að endurskoða lög um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, og reglur settar á grundvelli beggja laganna.

Starfshópur um hvítbók um fjármálakerfið (2018).

    Starfshópi um skrif á hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi var komið á fót í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem fram kom að slík hvítbók yrði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir yrðu teknar. Markmið með gerð skýrslunnar er að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun.

Starfshópur um skoðun á upptöku á rafrænu endurgreiðslukerfi á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis (2019).
    Starfshópnum er ætlað að fara með heildstæðum hætti yfir möguleika á upptöku á rafrænu kerfi vegna endurgreiðslna á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis vegna kaupa þeirra á vörum hér á landi.

Starfshópur um varnarlínu um fjárfestingarbankastarfsemi (2019).
    Starfshópnum var falið að vinna frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, til að hrinda í framkvæmd tillögu í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið um afmörkun varnarlínu milli viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi.

Starfshópur vegna skattlagningar á starfsemi sem fellur undir þriðja geirann (2019).

    Starfshópur til að fara yfir skattalegt umhverfi þeirrar starfsemi sem fellur undir þriðja geirann, þ.e. hvorki undir einkageirann né opinbera geirann. Þar má til dæmis nefna íþróttafélög, björgunarsveitir, góðgerðarfélög og mannúðarsamtök. Einnig verði horft til menningarstarfsemi eftir því sem við getur átt, bæði listasöfn og hvers kyns annað menningarstarf.

Stýrinefnd um endurskoðun tekjuskattkerfisins, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu félagslegs stöðuleika (2018).

    Stýrinefnd og sérfræðingahópur voru skipaðir til að vinna að endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfis hjá almenningi og fjölskyldum. Annars vegar var skipaður hópur sérfræðinga um tekjuskatt og bótakerfi sem annaðist greiningu, talnalega meðferð og útfærslu tillagna vegna heildarendurskoðunarinnar. Hins vegar var stefnumótandi stýrinefnd skipuð aðstoðarmönnum þriggja ráðherra með það meginhlutverk að fylgjast með framvindu verkefnisins í sérfræðingahópnum, en nefndin tók einnig þátt í að móta og samþykkja tillögur sérfræðingahópsins.

Úrskurðarnefnd náttúruhamfaratrygginga (2018).
    Ráðherra skipar fjögurra manna úrskurðarnefnd sem úrskurðar um ágreining um ákvarðanir stjórnar Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Nefndin starfar skv. 19. gr. laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Verkefnisstjórn um skattlagningu á notkun ökutækja (2019).
    Hlutverk nefndarinnar er að koma með tillögur að framtíðarstefnu um sjálfbæra skattlagningu ökutækja með sérstaka áherslu á skattlagningu á notkun ökutækja og tæknilega útfærslu slíkrar skattlagningar. Tillögurnar skulu vera unnar með hliðsjón af þeirri öru þróun sem á sér stað í samgöngum almennt, þeim leiðum sem farnar eru og til álita koma í samanburðarríkjum, skuldbindingum stjórnvalda í loftslagsmálum og tekjuþörf ríkissjóðs, m.a. til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins.

Starfshópur um samningu frumvarps til að skerpa á reglum um útleigu vinnuafls (2018).

    Undanfarið hefur orðið mikil aukning á erlendu vinnuafli hér á landi, bæði launþegum og sjálfstæðum verktökum. Eftirlit ríkisskattstjóra hefur leitt í ljós að mikill og alvarlegur misbrestur er á því að rétt sé staðið að skattgreiðslum þessara aðila. Í löggjöfina vantar skýrari ákvæði um skatt- og staðgreiðsluskyldu þeirra sem hingað senda starfsmenn til starfa. Þá vantar í lög ákvæði sem skilgreinir útleigu á vinnuafli. Núgildandi ákvæði staðgreiðslulaga er of þröngt þar sem það tekur samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu til starfsmannaleiga en ekki til erlendra fyrirtækja, t.d. í byggingariðnaði, sem senda starfsmenn hingað til lands undir formerkjum undirverktöku. Starfshópnum er ætlað að gera tillögur um lagabreytingar á þessu sviði.