Ferill 441. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 923  —  441. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um skiptingu velferðarráðuneytis í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.


     1.      Hver hefur kostnaður félagsmálaráðuneytisins verið við skiptingu velferðarráðuneytis í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti?
    Við 2. og 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2019 samþykkti Alþingi að veita samtals 97,6 millj. kr. til að mæta beinum kostnaði við uppskiptingu velferðarráðuneytisins (VEL) í tvö ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála sem tóku til starfa 1. janúar 2019. Að baki þessari viðbótarfjárveitingu lá áætlaður beinn launakostnaður vegna ráðuneytisstjóra, ritara ráðuneytisstjóra, tveggja skrifstofustjóra og upplýsingafulltrúa auk rekstrarkostnaðar sem gert var ráð fyrir að myndi nema um 10% af launakostnaði. Ráðningar í fyrrgreindar fimm viðbótarstöður gengu eftir hjá félagsmálaráðuneytinu (FRN) en aðrar sambærilegar stöður sem fyrir voru í velferðarráðuneytinu fluttust að mestu yfir til heilbrigðisráðuneytis (HRN). Samkvæmt gildandi stjórnskipulagi eru starfandi átta skrifstofur í ráðuneytunum tveimur, fjórar í hvoru, en fyrir voru sex skrifstofur í velferðarráðuneyti.

     2.      Hver hefur kostnaður verið við tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta, þ.e. tilfærslu húsnæðismála frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis og vegna áherslubreytinga félagsmálaráðuneytis á málefnum barna?
    Við 2. og 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2019 samþykkti Alþingi að millifæra 7,5 millj. kr. vegna flutnings Mannvirkjastofnunar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Við áherslubreytingar ráðuneytisins í málefnum barna hefur ráðuneytið nýtt sér safnliði til þess að styrkja vinnu sem snýr að málefnum barna.

     3.      Hversu margir starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa í fullt starf, hlutastarf eða verkefnatengt starf eftir skiptingu ráðuneytanna?
    Óskað er eftir að allur kostnaður við skiptinguna verði tilgreindur, hvort tveggja við starfsstöðvar og starfsfólk.

    Töluverð hreyfing hefur verið á starfsfólki ráðuneytanna frá því að uppskipting þeirra varð að veruleika, starfsfólk hefur ýmist hætt, m.a. vegna aldurs, eða horfið til annarra starfa og nýtt fólk komið í staðinn. Til að nálgast breytingar á fjölda starfsmanna sem orðið hafa í kjölfar uppskiptingarinnar voru sótt gögn úr launahluta ORRA, bókhaldskerfi ríkisins, um fjölda starfandi í ráðuneytunum á tilteknum tíma, sjá eftirfarandi. Um samsvarandi svar er að ræða í svari heilbrigðisráðherra.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vakin er athygli á því að starfsmönnum fækkar frá desember 2018 til febrúar 2019. Það skýrist aðallega af því að jafnréttismál fluttust frá velferðarráðuneytinu til forsætisráðuneytisins, ásamt starfsmönnum sem málaflokknum sinntu, 1. janúar 2019, um leið og ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála tóku til starfa.