Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 985  —  596. mál.

Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, með síðari breytingum (skýrsluskil o.fl.).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra .



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Ráðherra skal í reglugerð kveða á um tegundir endurnýjanlegs eldsneytis sem telja megi tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis, til að uppfylla skilyrði 1. mgr.
     b.      5. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „mánuði“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Í stað orðsins „þremur“ í 2. mgr. kemur: fjórum.

3. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1513 frá 9. september 2015 um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun 2009/28/EB um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2019 frá 29. mars 2019 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Orkustofnun. Í því eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013. Breytingarnar má rekja til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1513 frá 9. september 2015 um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun 2009/28/EB um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Megintilefni frumvarpsins er innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1513. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2019 frá 29. mars 2019 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn. Ákvörðunin var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands.
    Tilskipun 2009/28/EB var innleidd með lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013 og reglugerð nr. 870/2013 um söfnun gagna um framleiðslu, innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti og eftirlit með orkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu til samgangna á landi. 17.–21. gr. tilskipunarinnar voru innleiddar með lögum nr. 40/2013 og reglugerð nr. 750/2013 um viðmiðanir í sjálfbærri lífeldneytisframleiðslu, sem eru á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
    Þau ákvæði tilskipunar (ESB) 2015/1513 sem fela í sér breytingar á tilskipun 98/70/EB verða innleidd með nýrri reglugerð um gæði bensíns og dísileldsneytis sem mun koma í stað reglugerðar sama heitis, nr. 560/2007. Lagastoð er að finna í 13. tölul. 1. mgr. 11. gr. efnalaga, nr. 61/2013.
    Ákvæði 21. gr. tilskipunar 2009/28/EB eru felld brott með tilskipun (ESB) 2015/1513 og krefst það breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013. Nánar tiltekið er þar um að ræða 2. og 5. mgr. 3. gr. laganna og eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum til samræmis við 21. gr. tilskipunar 2009/28/EB.
    Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði tilskipunar (ESB) 2015/1513, sem fela í sér breytingar á ákvæðum 17.–19. gr. tilskipunar 2009/28/EB og nýjum viðauka IX, verði innleidd með nýrri reglugerð sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Tilgreining endurnýjanlegs eldsneytis sem telja megi tvöfalt.
    Í 2. mgr. 3. gr. laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, kemur fram að endurnýjanlegt eldsneyti sem unnið er úr lífrænum eða ólífrænum úrgangsefnum sem ekki er unnt að nýta til manneldis eða sem dýrafóður, svo sem úr lífrænum úrgangi, húsasorpi í föstu formi, sellulósa og lignósellulósa, megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis, til að uppfylla skilyrði 1. mgr. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. lúta að því að tryggja skal að minnst 5,0% af heildarorkugildi eldsneytis til notkunar í samgöngum á landi á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Aðeins eldsneyti sem uppfyllir nánari ákvæði 4. gr. laganna má nota til að uppfylla þetta skilyrði.
    Lagt er til að fellt verði niður ákvæði 2. mgr. 3. gr. laganna og að ráðherra kveði þess í stað á um í reglugerð hvaða tegundir endurnýjanlegs eldsneytis megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis, til að uppfylla skilyrði 1. mgr. Í þeirri reglugerð verður settur fram listi yfir það eldsneyti sem má telja tvöfalt til uppfyllingar skilyrða 1. mgr. Sá listi verður samhljóða nýjum XI. viðauka tilskipunar 2009/28/EB sem bætist við með gildistöku tilskipunar (ESB) 2015/1513. Ástæða þessarar breytingar er að nauðsynlegt var talið að skilgreina með skýrari hætti hvaða eldsneytistegundir teljist hafa tvöfalt vægi í framlagi til markmiðs laganna. Í ljósi tækniþróunar hefur á undanförnum árum fjölbreyttara úrval endurnýjanlegs eldsneytis komið á markað sem nýtist í fleiri ökutækjum en áður og er lagabreytingin því liður í því að skýra betur hvaða eldsneyti megi telja tvöfalt til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 3. gr. laganna.

3.2. Niðurfelling skyldu söluaðili eldsneytis um að tilgreina á sölustað ef hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis er meira en 10%.
    Lagt er til að felld verði niður sú krafa sem kemur fram í 5. mgr. 3. gr. laganna að ef hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis sé meira en 10% af rúmmáli eldsneytisblöndu skuli slíkt vera tilgreint með skýrum hætti á sölustað.
    Þetta er í samræmi við niðurfellingu samsvarandi ákvæðis í tilskipun 2009/28/EB með gildistöku tilskipunar (ESB) 2015/1513. Almenn upplýsingaákvæði um verð- og eldsneytismerkingar á sölustað er að finna í 7. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/94/ESB frá 22. október 2014 um uppbyggingu grunnvirkja fyrir óhefðbundið eldsneyti, sem ætlunin er að innleiða með breytingu á reglu Neytendastofu nr. 385/2007 um verðmerkingar á bifreiðaeldsneyti sem hefur stoð í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Nýr staðall hefur verið gefinn út „ÍST EN 16942:2016 Eldsneyti – Tilgreining á samhæfi – Myndræn framsetning upplýsinga fyrir neytendur“. Í staðlinum eru þrír merkingarflokkar, eftir því hvort um sé að ræða íblöndun í bensín, dísil eða um sé að ræða gös (metan, vetni o.fl.).

3.3. Tímafrestur söluaðila og Orkustofnunar vegna skýrslugjafar.
    Lagt er til að tímafrestur söluaðila eldsneytis til að gera Orkustofnun endanlega grein fyrir magni og hlutfalli alls endurnýjanlegs eldsneytis, sem þeir selja til samgangna á landi á almanaksári, verði lengdur um mánuð. Frestur verði tveir mánuðir í stað eins. Ástæða þess er að reynslan af skýrsluskilum undanfarinna ára er sú að tímafresturinn er of skammur og gögn því ekki alltaf tiltæk þegar kallað hefur verið eftir þeim.
    Jafnframt er lagt til tímafrestur Orkustofnunar til að gefa út yfirlit um heildarsölu eldsneytis og notkun endurnýjanlegs eldsneytis verði lengdur um mánuð. Frestur verði því fjórir mánuðir í stað þriggja. Ástæða þess er sú að nauðsynlegt er að veita Orkustofnun rýmri frest í ljósi lengri tímafrests söluaðila eldsneytis.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið er í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar og snýr að innleiðingu gerða sem búið er að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Við undirbúning og vinnslu frumvarpsins var haft samráð við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Orkustofnun. Jafnframt voru áform um lagasetningu birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Áform um lagasetningu voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 10. desember 2019 til 2. janúar 2020, sbr. mál nr. 305/2019. Ein umsögn barst með ábendingu um breytingu á reglugerð um gæði eldsneytis, nr. 960/2016 sem er á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og er til skoðunar þar. Drög að frumvarpinu voru sett í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 22. janúar – 5. febrúar 2020, sbr. mál nr. 13/2020. Umsagnir bárust frá Carbon Recycling International (CRI), N1, Samtökum iðnaðarins (SI) og Orkustofnun. Í umsögn N1 voru engar athugasemdir við frumvarpið.
    Í umsögn CRI og SI voru ábendingar um atriði tilskipunar (ESB) 2015/1513 sem varða gæði eldsneytis og eru á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og verða innleidd af því ráðuneyti með reglugerðum með lagastoð í efnalögum, nr. 61/2013. Þær ábendingar varða því ekki efni þessa frumvarps.
    Í umsögnum CRI og SI voru enn fremur ábendingar sem varða markmið upprunalegu tilskipunar (ESB) 2009/28, um að 10% af orku í samgöngum sé af sjálfbærum og endurnýjanlegum uppruna fyrir árslok 2020, og að í frumvarpið vanti skyldu dreifingaraðila til að uppfylla það markmið tilskipunarinnar. Samkvæmt tilskipuninni er sú skylda lögð á aðildarríkin, ekki sölu- eða dreifingaraðila. Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun var hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum á landi árið 2018 9,0% og samanstendur það af metani, lífdísilolíu, etanóli og rafmagni. Þróunin bendir til þess að markmiðið um 10% hlutdeild muni nást fyrir 2020. Ekki er því talin þörf á að útskýra það nánar í frumvarpinu.
    Í umsögnum CRI og SI eru jafnframt ábendingar um úrbætur við söfnun gagna og skýrslugerð sem verða teknar til nánari skoðunar með Orkustofnun og lagt mat á hvort nauðsynlegt sé að endurskoða reglugerð nr. 870/2013 um söfnun gagna eða reglugerð nr. 750/2013 um sjálfbærniviðmið.
    Í umsögn Orkustofnunar er lagt til að tímafrestur söluaðila og Orkustofnunar vegna skýrslugjafar verði styttur um mánuð frá því sem lagt var til í upphaflegum frumvarpsdrögum, þ.e. verði tveir mánuðir í 1. mgr. 5. gr. og fjórir mánuðir í 2. mgr. 5. gr. Er talið rétt að fallast á þær breytingartillögur.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á atvinnulíf eða fyrirtæki þar sem um er að ræða breytta aðferðafræði við mat á eldsneytistegundum hjá Orkustofnun. Þá er með frumvarpinu lagður til lengri tímafrestur sem er bæði fyrirtækjum og Orkustofnun í hag og mun auðvelda gagnaskil.
    Verði ákvæði frumvarpsins óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi nein fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð og hefur það því ekki áhrif á útgjaldaramma þessa málaflokks atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun eða í fjárlögum. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir öðrum áhrifum verði ákvæði þessa frumvarps að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að fellt verði niður ákvæði um að endurnýjanlegt eldsneyti sem unnið er úr lífrænum eða ólífrænum úrgangsefnum sem ekki er unnt að nýta til manneldis eða sem dýrafóður, svo sem úr lífrænum úrgangi, húsasorpi í föstu formi, sellulósa og lignósellulósa, megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis, til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. laganna. Í staðinn er sett reglugerðarheimild þar sem settur verður fram listi yfir það eldsneyti sem má telja tvöfalt til uppfyllingar skilyrða 1. mgr. Sá listi verður samhljóða IX. viðauka tilskipunar 2009/28/EB sem bætist við gerðina með gildistöku tilskipunar (ESB) 2015/1513.
    Jafnframt er lagt til að felld verði niður sú krafa að söluaðili eldsneytis skuli tilgreina með skýrum hætti á sölustað ef hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis er meira en 10% af rúmmáli eldsneytisblöndu. Þetta er í samræmi við niðurfellingu samsvarandi ákvæðis í tilskipun 2009/28/EB með gildistöku tilskipunar (ESB) 2015/1513.

Um 2. gr.

    Ákvæðið felur í sér að tímafrestur söluaðila eldsneytis til að gera Orkustofnun endanlega grein fyrir magni og hlutfalli alls endurnýjanlegs eldsneytis sem þeir selja til samgangna á landi á almanaksári er lengdur um mánuð. Jafnframt er tímafrestur Orkustofnunar til að gefa út yfirlit um heildarsölu eldsneytis og notkun endurnýjanlegs eldsneytis lengdur um mánuð.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna tilvísun í tilskipun (ESB) 2015/1513 sem gerir breytingu á tilskipun (ESB) 2009/28 frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Vísað er í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2019 um upptöku gerðarinnar í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.