Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 986  —  597. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (stjórn Landspítala).

Flm.: Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þorgrímur Sigmundsson, Ásmundur Friðriksson.


1. gr.

    2. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skal skipa sjö menn í stjórn Landspítala til fjögurra ára í senn og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Skipaðir skulu jafnmargir til vara. Stjórnarmenn skulu vera sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda og/eða á sviði rekstrar, fjármála og stefnumótunar eða hafa sérþekkingu á starfsemi og rekstri sjúkrahúsa. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim og situr forstjóri fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétti. Ráðherra setur stjórninni erindisbréf og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar. Stjórn skal staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marka henni langtímastefnu. Skal stjórnin hafa eftirlit með starfsemi stofnunarinnar og að rekstur hennar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Formaður stjórnar skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi hennar og gera honum viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga og ef rekstur er ekki í samræmi við fjárlög.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021 og fellur frá sama tíma úr gildi skipun í ráðgjafarnefnd Landspítala.

Greinargerð.

    Landspítalinn er stærsta stofnun og stærsti vinnustaður landsins. Um nokkurn tíma hefur borið á gagnrýni vegna skorts á aðkomu fulltrúa fagstétta að stjórn spítalans. Hvort tveggja læknaráð og yfirlæknar í prófessoraráði Landspítala hafa talað fyrir því að yfir spítalann verði skipuð sérstök stjórn þar sem fulltrúar fagfólks ættu sterka aðkomu að stjórnkerfi spítalans. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, fara forstjórar, skipaðir af ráðherra með stjórn heilbrigðisstofnana, þar á meðal með stjórn Landspítala. Ber forstjóri ábyrgð á að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf ráðherra, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna. Þá ber forstjóri ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Einnig ræður forstjóri starfslið stofnunarinnar, þar á meðal framkvæmdastjórn. Bent hefur verið á að svo margþætt og valdamikið hlutverk forstjóra og framkvæmdastjórnar þekkist vart í öðrum ríkjum á Norðurlöndum. Til að mynda eru stjórnir yfir stærstu sjúkrahúsum Svíþjóðar, sem starfa á ábyrgð sveitarfélaganna.
    Stjórnir eru skipaðar yfir helstu norrænu sjúkrahúsunum sem litið hefur verið til við mótun íslensks heilbrigðiskerfis. Má þar m.a. nefna Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi og Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg. Þar eru stjórnir sjúkrahúsanna skipaðar af sveitarstjórnum og starfa þær á þeirra ábyrgð. Þær ráða forstjóra og framfylgja ákvörðunum sveitarstjórna í heilbrigðismálum. Forstjóri og framkvæmdastjórn stýra daglegum rekstri sjúkrahúsanna.
    Í eldri lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, var mælt fyrir um að ríkisspítalar skyldu vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, en stjórn þeirra allra að öðru leyti falin sjö manna stjórnarnefnd. Stjórnin var skipuð samkvæmt tilnefningum starfsmannaráðs ríkisspítala og sameinaðs Alþingis auk þess sem einn, formaður, var skipaður af ráðherra án tilnefningar. Stjórnarnefndinni var falið eftirlit með því að starfsemi Landspítala væri í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu og að spítalinn veitti þá heilbrigðisþjónustu sem lög gerðu ráð fyrir. Meðal annarra verkefna var nefndinni falið að taka þátt í gerð stjórnskipurits fyrir spítalann í samráði við forstjóra spítalans, gera þróunar- og rekstraráætlun fyrir spítalann í samráði við forstjóra hans, hafa eftirlit með að rekstur væri innan ramma fjárlaga á hverjum tíma, gera ráðherra viðvart ef starfsemi og þjónusta væri ekki í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu og gera ráðherra viðvart ef rekstur væri ekki í samræmi við fjárlög.
    Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er ekki að finna ákvæði um stjórn sem hefur hlutverk hliðstætt því sem stjórnarnefnd Landspítala hafði. Í 2. mgr. 20. gr. gildandi laga er hins vegar mælt fyrir um ráðgjafarnefnd Landspítala, sem ráðherra skipar. Í greinargerð frumvarpsins segir að ráðgjafarnefndinni sé ætlað að taka við hlutverki stjórnarnefndar, en skýrt er kveðið á um að nefndin hafi ekkert stjórnunarhlutverk. Sú breyting var á sínum tíma gagnrýnd, m.a. þar sem með því væri dregið úr aðkomu fagfólks að stjórnun í heilbrigðiskerfinu. Þessi ráðgjafarnefnd var lengi ekki skipuð og þar af leiðandi hefur hún ekki verið mjög virk.

Um 1. gr. frumvarpsins.
    Stjórnir gegna grundvallarhlutverki í rekstri fyrirtækja. Það vekur því athygli að yfir stærstu stofnun landsins skuli ekki vera sérstök stjórn skipuð af ráðherra. Forstjóri spítalans og framkvæmdastjórn njóta því ekki þess aðhalds og þess stuðnings sem stjórnir fyrirtækja almennt veita.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að yfir Landspítala verði sjö manna stjórn sem ráðherra skipar. Lagt er til að stjórnin verði skipuð sérfræðingum hvort tveggja á sviði heilbrigðisvísinda og á sviði rekstrar, fjármála og stefnumótunar, þannig að sem breiðust þekking á rekstri heilbrigðisstofnana skili sér í umbótum á rekstri og allri starfsemi spítalans. Þá verður ekki litið fram hjá því mikilvæga hlutverki sem Landspítalinn hefur sem háskólasjúkrahús og kennslustofnun, en ætla má að með aukinni aðkomu fagfólks að stjórnun og stefnumótun skapist fjölmörg tækifæri til þess að efla samstarf við háskóla um þróun menntunar heilbrigðisstarfsfólks og vísindarannsókna.

Um 2. gr. frumvarpsins.
    Þar sem gert er ráð fyrir að stjórn Landspítala taki við hlutverki ráðgjafarnefndar spítalans er lagt til að skipun hennar falli niður við gildistöku laganna. Þá er talið eðlilegt miða skipunartíma stjórnar við upphaf árs.