Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1021  —  168. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um málefni Hljóðbókasafns Íslands.


     1.      Stendur til að skoða starfsemi Hljóðbókasafns Íslands í ljósi breyttra markaðsaðstæðna nú þegar æ meira tíðkast að gefa út bækur á almennum markaði sem hljóðbækur og þær eru í auknum mæli aðgengilegar í streymislausnum?
    Hljóðbókasafn Íslands hefur það hlutverk að gera prentað mál aðgengilegt fyrir blinda, lesblinda og aðra þá sem geta ekki nýtt sér prentað mál. Safnið veitir samkvæmt lögum eingöngu þeim aðgang sem geta vottað prentleturshömlun. Um er að ræða þjónustu við fatlaða eða fólk með hamlanir. Safnið veitir bókasafnsþjónustu og er eina bókasafnið á landinu sem þjónar þessum hópi. Safnið selur ekki efni og hefur ekki fjárhagslegan ávinning af starfseminni. Þessi hópur nýtur þjónustu Hljóðbókasafnsins sem í mörgum tilfellum er umfram þjónustu er lýtur markaðslögmálum. Hljóðbókasafnið framleiðir meðal annars námsbækur fyrir lesblinda nemendur sem þúsundir nýta sér til að komast í gegnum framhaldsskóla.
    Hljóðbókasafnið og hinn almenni markaður hafa ekki verið að vinna saman að þessu markmiði en ávinningur gæti verið af samvinnu. Hljóðbókasafnið gæti þannig keypt hljóðbækur af markaði til útlána og markaðurinn gæti keypt hljóðupptökur án réttinda, en markaðurinn verður að afla útgáfuréttinda þar sem allar bækur Hljóðbókasafns eru lesnar með undanþágu í 19. gr. höfundalaga. Það sem stendur helst í vegi fyrir þeirri samvinnu er að Hljóðbókasafnið hefur ekki lagaheimild til að framleiða á almennan markað og hin samningsbundna þóknun sem safnið greiðir til rétthafa tiltekur ekki greiðslur til útgefenda. Hljóðbókasafnið fylgist grannt með þróuninni í þessum málum á Norðurlöndunum og mun í kjölfarið smíða áætlun um sína nálgun.

     2.      Hyggst ráðherra leita skýringa á því hvers vegna hlutfall lánþega Hljóðbókasafns er verulega hærra hér á landi en til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum?
    Talað er um að a.m.k. 10% þjóðarinnar glími við prentleturshömlun og gerði safnið verulegt átak í að ná til þessa fólks. Árið 2007 voru lánþegar safnsins 1.600 en nú eru um 12.000 virkir lánþegar. Hljóðbókasafnið hóf mikla vinnu í að ná til þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda í kringum 2009, fór hringinn í kringum landið og kynnti lausnir safnsins. Lesblindir nemendur flykktust að safninu og margir byrjuðu aftur í skóla þegar þeir uppgötvuðu þjónustuna. Þetta olli því að Hljóðbókasafnið var með mun hærra hlutfall lánþega en hin Norðurlöndin um 2011. Nú er þetta hlutfall gjörbreytt. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert stórátak í að ná til sinna lánþega og hefur til dæmis lánþegafjöldi í Danmörku margfaldast á skömmum tíma þar sem 75% notenda eru lesblindir. Safnið veitir samfélagslega þjónustu með virkum hætti, enda eru lesblindir nemendur 65% lánþega. Þess má geta að engum er veittur aðgangur að safninu nema vottorð sérfræðings fylgi. Ekki verður þó horft fram hjá því að tæknilegar hindranir gegn misnotkun eru litlar. Hver viðurkenndur notandi fær aðgangs- og lykilorð og er viðkomandi treyst fyrir varðveislu þeirra. Aðgangs- og lykilorð eru ekki ætluð öðrum, en núverandi kerfi Hljóðbókasafnsins koma ekki í veg fyrir að margir noti hvern aðgang. Ráðherra telur rétt að kanna hvort ástæða sé til sérstakra aðgerða vegna þessa, enda er mikilvægt að ekki sé gengið á réttindi höfunda og útgefenda.
     3.      Telur ráðherra eðlilegt að bækur séu lesnar inn á vegum Hljóðbókasafns og dreift á sama tíma og þær koma út á almennum markaði á pappír, sem rafbækur og í hljóðbókarformi?
    Ráðherra telur eðlilegt að skjólstæðingar Hljóðbókasafnsins hafi sama aðgang að bókum og aðrir – ekki síst eftir að ríkið hóf að greiða niður útgáfu bóka á íslensku. Í þeim löndum sem Hljóðbókasafnið þekkir til og er í sambandi við er þessi háttur hafður á og bækur berast að öllu jöfnu á sama tíma til Hljóðbókasafns og almenningsbókasafna. Það hefur enga stoð í lögum að tefja framboð nýrra bóka til skjólstæðinga Hljóðbókasafns þar sem engin töf er á framboði nýrra bóka á almenningsbókasöfnum. Hér ber að líta til þess hvert hlutverk safnsins er. Þó að bók komi út á almennum markaði á pappír, sem rafbók og í hljóðbókarformi er ekki sjálfgefið að blindir geti nýtt sér þær útgáfur. Mikið var lagt í vef Hljóðbókasafnsins til þess að gera hann aðgengilegan blindum og fyrir öll tæki sem blindir nýta sér. Ef allt efni sem út kemur á almennum markaði væri fullkomlega aðgengilegt fyrir blinda og væri í boði á bókasöfnum væri Hljóðbókasafnið óþarft. Útgáfa hljóðbóka ein og sér tryggir ekki aðgengi blindra.

     4.      Telur ráðherra eðlilegt að sambærileg takmörkun sé til staðar þegar kemur að útlánum Hljóðbókasafnsins á einstökum verkum eins og á útlánum almennra bókasafna?
    Hljóðbókasafn Íslands setur útlánatakmörk í takt við almenningsbókasöfn, þ.e. 25 bækur á þrjátíu dögum og hver bók er lánuð í 30 daga. Rafræn eintök eru lánuð út í gegnum streymi en safnið lánar geisladiska til um 27% lánþega sem ekki eru tölvuvæddir. Hugsanlegt væri að setja eintakatakmarkanir á útlán, þ.e. að ákveðinn fjöldi eintaka sé í umferð. Hafa ber í huga að Hljóðbókasafnið er landsbókasafn og því þarf að taka saman hvað öll söfn kaupa og taka þá tölu til viðmiðunar. Við það fyrirkomulag gæti sá hópur sem safnið þjónar hugsanlega þurft að bíða eitthvað eftir að fá vinsælustu bækurnar í kringum jólabókavertíðina. Ef taka ætti upp það verklag að takmarka aðgang að streymi kallaði það á breytingu á því kerfi sem Hljóðbókasafn Íslands notar. Kerfið skráir útlán þó að lánþegi sé aðeins að glugga í viðkomandi bók en hlustar ekki á hana til enda. Þrátt fyrir hið ótakmarkaða aðgengi reynir ekki á takmörkin nema í undantekningartilvikum.

     5.      Telur ráðherra að sanngjarnar greiðslur komi fyrir afnot verka til höfunda og annarra rétthafa? Ef ekki, hyggst ráðherra gera bót á því?
    Höfundar fá greiðslur fyrir afnot á safninu. Hljóðbókasafnið greiddi um 12 millj. kr. í höfundagreiðslur árið 2019. Í 19. gr. höfundalaga, sem safnið starfar eftir, er talað um bætur til höfunda. Samkvæmt samningum milli ráðuneytis fyrir hönd Hljóðbókasafns og Rithöfundasambands Íslands eru greiddar bætur til höfunda og fá þeir eingreiðslu vegna útgáfu á Hljóðbókasafni. 1 Samkvæmt útreikningum fá höfundar almennt hlutfallslega meira í slíkar bætur frá Hljóðbókasafni en fyrir útlán á almenningsbókasöfnum, nema um metsöluhöfund sé að ræða. Samkvæmt viljayfirlýsingu eru höfundar oft beðnir að lesa inn verkin sín og fá greiðslu fyrir það sérstaklega. Ef taka ætti upp greiðslur fyrir hvert útlán myndu bætur falla niður og vandséð hvort fyrirkomulagið kæmi betur út fyrir höfunda. Hafa ber í huga tilskipun Evrópusambandsins 2017/1564, en efni hennar fellur undir EES-samninginn, og Marrakesh-sáttmálann frá 2013 sem tilskipunin tekur til og sem stendur til að undirrita á Íslandi og sérstaklega er ætlað að auðvelda aðgengi prentleturshamlaðra að efni á milli landa.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti vinnur nú að ráðningu nýs forstöðumanns Hljóðbókasafnsins. Að því loknu verður ráðist í að skoða lagaumhverfi Hljóðbókasafnsins og jafnframt að taka upp samninga við rétthafa í ljósi breytts umhverfis á hljóðbókamarkaði.
1    Hægt er að nálgast samninginn á eftirfarandi slóð:
     rsi.is/samningar-og-taxtar/samningar-og-reglur/samningur-vid-hljodbokasafn-islands/