Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1053  —  479. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur um flutnings- og dreifikerfi raforku.


     1.      Telur ráðherra að raforkuöryggi utan höfuðborgarsvæðisins sé ásættanlegt og ef ekki, ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að styrkja flutnings- og dreifikerfi raforku?
    Þau óveður sem gengu yfir landið síðastliðinn desember og janúar sýndu fram á veikleika í flutnings- og dreifikerfi raforku á ákveðnum stöðum á landinu. Hefur áður verið á það bent að ójafnræði er á milli landshluta þegar kemur að orkuöryggi og hafa langtímamarkmið stjórnvalda á sviði orkumála snúið að jafnara afhendingaröryggi raforku á landsvísu. Kallar það á almenna styrkingu á flutnings- og dreifikerfi raforku í tilteknum landshlutum.
    Átakshópur á vegum stjórnvalda hefur lagt fram fjölmargar aðgerðir til að styrkja innviði á landsvísu. Er þær aðgerðir að finna á heimasíðunni www.innvidir2020.is. Það sem snýr að úrbótum á flutnings- og dreifikerfi raforku er m.a. að flýta jarðstrengjavæðingu dreifikerfisins, úrbætur á varaafli, byggja yfir tengivirki og spennistöðvar og flýta framkvæmdum í svæðisflutningskerfi raforku.

     2.      Telur ráðherra að breyta þurfi lögum til að hægt sé að hraða uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku?
    Eitt af því sem kom út úr vinnu átakshóps stjórnvalda um innviði var mikilvægi þess að gera ferli leyfisveitinga vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku einfaldari og skilvirkari. Dæmi eru um að stjórnsýslumeðferð þjóðhagslega mikilvægra framkvæmda í flutningskerfinu hafi tekið meira en 10 ár.
    Í því skyni er brýnt að bættur verði málsmeðferðarhraði hjá lykilstofnunum og mál sett í forgang er varða stjórnsýslu framkvæmda við flutningskerfi raforku. Jafnframt að gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar, á skipulagslögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum, þannig að heimilt verði að taka eina sameiginlega aðalskipulagsákvörðun um línulagnir þvert á sveitarfélagamörk. Í því skyni verði heimilt að skipa sérstaka sjálfstæða stjórnsýslunefnd vegna framkvæmda við flutningskerfi raforku til að undirbúa og samþykkja skipulagsákvörðun, gefa út framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmdinni og að vinna við mat á umhverfisáhrifum annars vegar og skipulagsákvörðun hins vegar verði keyrð samhliða.