Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1082  —  575. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um svartolíubrennslu skipa.



     1.      Hversu mörg íslensk skip brenna enn svartolíu og notast við hreinsunarbúnað?
    Hinn 1. janúar síðastliðinn tóku gildi hér á landi ákvæði um breytingu á reglugerð nr. 124/2015 um leyfilegt hámark brennisteinsinnihalds í tilteknu fljótandi eldsneyti með nýrri reglugerð nr. 1084/2019. 4. gr. reglugerðarinnar hljóðar nú sem hér segir:
              Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum hér á landi innan landhelgi Íslands og innsævis skal að hámarki vera 0,1% (m/m) að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, sbr. 12. gr.
              Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum í mengunarlögsögu utan innsævis og landhelgi Íslands skal að hámarki vera 0,5% (m/m) að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, sbr. 12. gr.
              Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti skipa sem fara um SOx-svæði, skal ekki fara yfir 0,1% (m/m).
             Ákvæði þessarar greinar gilda um öll skip án tillits til þess undir hvaða fána þau sigla, þar með talið skip sem hefja ferð sína utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Með innleiðingu þessara reglna var leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er innan landhelgi Íslands og innsævis lækkað úr 3,5% niður í 0,1% frá og með 1. janúar 2020. Með innleiðingunni hefur Ísland skipað sér í fremstu röð hvað þetta varðar. Ákvæðið á við um hafsvæðið innan 12 sjómílna frá grunnlínu, sem er dregin milli nánar tiltekinna staða á Íslandi, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn. Er hér um að ræða svokallað SECA-svæði (Sulphur Emission Control Area). Samhliða tók gildi sú breyting að magn leyfilegs brennisteinsinnihalds í skipaeldsneyti í mengunarlögsögunni utan landhelginnar var lækkað úr 3,5% niður í 0,5%.
    Samkvæmt viðauka IV við alþjóðasamning um verndun hafsins, MARPOL (MARine POLlution), er stjórnvöldum heimilt að tilgreina sérstök hafsvæði þar sem magn mengandi lofttegunda í afgasi skipa er takmarkað. Með ákvæðum viðaukans eru sett takmörk á leyfilegt magn brennisteins í eldsneyti skipa og brennisteinsoxíða (SOx) í afgasi skipsvéla. Fram til þessa hafa nokkur svæði verðið skilgreind samkvæmt fyrrgreindri heimild í viðauka IV í MARPOL-samningnum. Má í því sambandi nefna strandlengju Bandaríkjanna, Eystrasalt og Norðursjó. Ísland fullgilti viðauka IV við MARPOL 22. nóvember 2017 og tók hann gildi hér á landi 22. febrúar 2018. Með gildistöku viðaukans skapaðist grundvöllur til að breyta 4. gr. reglugerðar nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti eins og lýst er hér að framan.
    Eftir gildistöku breytinga á 4. gr. reglugerðar nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti hafa skip sem nota svartolíu með meira brennisteinsinnihaldi en 0,1% á aðalvélar sínar ekki heimild til að sigla innan 12 mílna landhelginnar. Þar af leiðandi brenna engin íslensk skip svartolíu innan hafsvæðisins ef svartolían inniheldur meira en 0,1% af brennisteini að undanskildum þeim skipun sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. Hinar nýju reglur hafa áhrif á íslensk fiskiskip þar sem mörg þeirra brenndu svartolíu áður en nýju reglurnar tóku gildi. Skip í vöruflutningum og farþegaflutningum eru sum hver með þannig brennslukerfi að þau brenna svartolíu með allt að 0,1% brennisteinsinnihaldi innan 12 mílna landhelginnar en skipta síðan yfir á svartolíu með 0,5% brennisteinsinnihaldi þegar þau koma út fyrir það hafsvæði. Frá og með síðustu áramótum er leyfilegt hámark brennisteins í svartolíu sem þessi skip nota 0,5% en var áður 3,5%. Í eftirfarandi töflu er gott yfirlit yfir leyfilegt magn brennisteins í dísileldsneyti frá árinu 2005.

Leyfilegt magn brennisteins í dísileldsneyti

Dagsetning SOx á ECA-svæði SOx á heimsvísu
2005 1,5%     4,5%
2010.07 1,0% 4,5%
2012 1,0% 3,5%
2015 0,1% 3,5%
2020* 0,1% 0,5%
*01.01.2020 setur Ísland reglur um hámark 0,1% brennisteinsinnihald í eldsneyti innan 12 mílna landhelgi

    Íslenski fiskiskipaflotinn notar nú svo til eingöngu skipagasolíu (MGO) og skipadísilolíu (MDO) sem eldsneyti á aðalvélar skipanna en brennisteinsinnihald í þessum dísilolíutegundum fer ekki yfir 0,1%.
    Við bruna á skipagasolíu og svartolíu verða til ýmsar lofttegundir sem berast frá brunanum með afgasinu út í andrúmsloftið og eru sumar þeirra hættulegar heilsu manna og umhverfinu. Hvað svartolíu varðar þá eru það aðallega sótagnir (PM eða Black Carbon) og brennisteinsoxíð (SOx) sem valda mengun og er mengun af völdum brennslu á svartolíu meiri en við brennslu annarra olíutegunda. Sótagnir sem myndast við brennslu á svartolíu skapa mikið vandamál, einkum vegna þess hve skaðlegar þær geta reynst ef þær berast í öndunarfæri fólks og einnig þegar þær setjast á ísinn í Norður-Íshafinu og draga þar í sig hitann sem síðan bræðir ísinn. Þannig eykur sótið áhrif hnattrænnar hlýnunar. Einnig hafa sótagnir verið vandamál þegar farþegaskip brenna svartolíu í aðalvélum sínum nálægt ströndum landsins og í höfnum brenna þau oft svartolíu til að knýja ljósavélarnar. Þetta veldur mengun í nærumhverfi skipanna. Þótt tekist hafi að útrýma brennisteini úr svartolíunni sem nota má innan 12 mílna hér við land þá eru á markaði svartolíutegundir sem innihalda annars vegar 0,5% brennistein og eru leyfðar á úthafinu og hins vegar olíur sem innihalda 0,1% sem heimilt er að nota á öllu hafsvæðinu sem um ræðir. Þessar svartolíur eru VLSFO (Very Low Sulphur Fuel Oil) og ULSFO (Ultra Low Sulphur Fuel Oil) og eru þær svo til án brennisteins en sótagnirnar eru þær sömu og myndast við bruna venjulegrar svartolíu.
    Til þess að draga úr mengun frá sótögnum er nauðsynlegt að hreinsa sótagnirnar til dæmis með afgashreinsibúnaði (e. Scrubber). Slíkur búnaður getur einnig verið eingöngu sem vatnsúðun eða með sérstökum efnablöndum sem auka hreinsunina. Einnig er til svokölluð fyrirmeðferð eða vatnsfleyting (e. Water in Oil Emulsion) þar sem vatni er sprautað með olíunni inn í brennsluhólf vélarinnar og orsakar það aukabrennslu sem dregur úr sótmyndun. Báðar þessar aðferðir eru mjög virkar og hreinsa svo til allt sót og brennistein úr afgasinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér eru sýndar mismundandi hreinsunaraðferðir á afgasi frá aðalvélum skipa.

    Flest þeirra fiskiskipa sem smíðuð hafa verið fyrir íslenskar útgerðir á síðustu árum hafa svokallaðan afgashreinsibúnað. Í heildina eru þessi skip sjö talsins. Einnig er vitað að bæði Eimskip og Samskip sýna nýjum skipum með afgashreinsibúnaði mikinn áhuga og munu að öllum líkindum nota slík skip í framtíðinni.
    Ekki er fyrirhugað að setja sérstakar íslenskar reglur um notkun á afgashreinsibúnaði en íslensk stjórnvöld fylgjast vel með þróun hins alþjóðlega regluverks á þessu sviði sem stefnir í þá átt að slíkur búnaður verði gerður að skyldu í framtíðinni. Á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) eru komnar fram hugmyndir um að setja í reglur ákvæði er varða afgashreinsibúnað í öll skip.
    Ísland gegnir formennsku í Norðurskautsráðinu á tímabilinu 2019–2021. Eitt af verkefnunum í formennskuáætlun Íslands miðar að því að draga úr notkun svartolíu og útblæstri á hafsvæðinu sem telst til Norðurskautsins. Ísland leiðir verkefnið í samstarfi við PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) og byggir það á niðurstöðum Samgöngustofu úr verkefninu „Hreinsun óæskilegra lofttegunda og sótagna úr afgasi skipavéla“.
    Önnur leið til að minnka sót í afgasi skipavéla er að brenna repjuolíu. Við brennslu á repjuolíu myndast svo til ekkert sót og engin brennisteinsoxíð og við ræktun repjunnar verður tvöföld koldíoxíðjöfnun, þ.e. ræktunin tekur í sig tvöfalt meiri CO2 en repjuolían skilar til baka þegar henni er brennt.

     2.      Hversu mörg erlend skip sem koma til íslenskra hafna brenna svartolíu og notast við hreinsunarbúnað?
    Erlend skip sem sigla í íslenskri lögsögu þurfa að uppfylla íslensk ákvæði um 0,1% brennisteinsinnihald í svartolíu sem og annarri olíu.
    Á árinu 2016 sigldu 856 skip um íslensku efnahagslögsöguna (Icelandic EEZ) og sum þeirra oftar en einu sinni. Flest þessara skipa voru fiskiskip eða 371. Öll skipin (nema eitt) notuðu dísilolíu af fjórum mismunandi tegundum. Dísiltegundunum er skipt niður eftir seigju (e. viscosity) eða því hve þykkar og hreinar olíurnar eru og notuð er mælieiningin cSt (centistoke) sem segir til um hve þykk olían er og rennsli hennar.

Íslenska
efnahagslögsagan

MGO og
MDO
dísilolía
RMF
10/80
flotaolía
HFO
80/180
lágildi
HFO
180/380
meðalgildi
HFO
380/700
hágildi
Skip (fjöldi) 480                     155 88 132 0
Skip (hlutfall) 56%                18% 10% 16% 0%
Magn eldsneytis (tonn) 99.553                     14.339 11.561 42.507 0
MGO = skipagasolía, MDO = skipadísilolía, RMF = flotaolía, HFO = svartolía
10/80 = 10 til 80 cSt seigja, 80/180 = 80 til 180 cSt seigja, 180/380 = 180 til 380 cSt seigja
Hærri seigja (þykkt olíunnar) þýðir meiri útlosun sótagna.
Heimild: Havbasen


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eldsneytissala á Íslandi eftir eldsneytistegundum, olía (Orkuspárnefnd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Spá um notkun olíu eftir tegundum 2016–2050 ásamt rauntölum áranna 2000–2015 (Orkuspárnefnd).

    Af þeim 856 skipum sem sigldu í íslensku efnahagslögsögunni 2016 notuðu alls 220 skip svartolíu á aflvélar sínar og samsvarar það 26% skipanna. Sama ár nam heildarnotkun eldsneytis úr jarðolíu innan íslensku efnahagslögsögunnar alls 167.790 tonnum. Þar af voru 54.068 tonn svartolía (HFO) eða 32% af heildarmagninu.
    Af þessum 856 skipum voru 79 farþegaskip og 31 þeirra keyrði á svartolíu sem samsvaraði alls 16.913 tonnum (HFO 180/380). Einnig brenndu 12 gámaskip um 14.624 tonnum af sömu gerð af svartolíu og tvö fiskiskip 444 tonnum. Það þýðir mun meiri útlosun sótagna en ef þau hefðu notað skipagasolíu (MDO).
    Upplýsingar frá orkuspárnefnd gera ráð fyrir útfösun svartolíu að verulegu leyti frá árinu 2021 en að á sama tíma muni hlutur nýrra orkugjafa aukast til muna.

     3.      Hvað verður um skaðleg efni sem hreinsibúnaður hreinsar úr útblæstri skipa?
    Skaðlegum efnum sem hreinsunarbúnaður hreinsar úr útblæstri skipa er fargað samkvæmt reglum sem þar um gilda.
    Þau efni sem farga þarf eru til dæmis sótagnir en þeim er safnað saman í hreinsiferlinu í síur sem eru þurrkaðar og skilað í land til eyðingar. Önnur efni eins og koldíoxíð ( CO2), sem bundist hefur kalki verður að sandefni, nituroxíð (NOx), sem bundist hefur úrefnum og verður skaðlaust, og brennisteinn, sem binst vatninu, eru síuð frá og tekin í land eins og sótagnirnar.
    Þessi aðferðafræði er einföld og alþjóðlega viðurkennd.

     4.      Hvaða reglur gilda um gufuendurnýtingarbúnað eldsneytistanka á íslenskum skipum?
    Um borð í skipum eru ekki lengur gufulagnir í eldsneytistönkum. Þess í stað er gufa sem kemur frá afgaskatli og/eða olíukatli tekin inn á varmaskipti og síðan er upphitaðri olíu (thermal-oil) dælt í gegnum rörakerfi (spíral) sem liggur að svartolíutönkunum.
    Þessi ferill er til þess að hita svartolíuna upp í það hitastig sem nauðsynlegt er til að hún fljóti án óþarfa núnings vegna mikillar seigju í svartolíunni.
    Á Íslandi er farið eftir reglum flokkunarfélaganna en reglur þeirra eru svo til þær sömu um upphitun á svartolíu. Sem dæmi fylgja hér reglur DNVGL um framangreint atriði en reglur þessa flokkunarfélags eru viðurkenndar hér á landi og eftir þeim farið. (https://rules. dnvgl.com/docs/pdf/DNVGL/RU-SHIP/2019-07/DNVGL-RU-SHIP-Pt4Ch7.pdf)
    Hér að neðan má nálgast nánari upplýsingar um afgashreinsun og brennslu á jarðefnaeldsneyti.
     Hreinsun óæskilegra lofttegunda og sótagna úr afgasi skipavéla (2018):
     www.samgongustofa.is/media/siglingar/skyrslur/Hreinsun-a-sotognum-jb-2018.pdf
     Brennsla jarðeldsneytis (2018):
     www.samgongustofa.is/media/siglingar/skyrslur/Brennsla-eldsneytis-afgas-jb-2018.pdf
    Verkefni um afgashreinsun (2017):
     www.samgongustofa.is/media/siglingar/skyrslur/Verkefni-um-afgashreinsun-2017-isl-1.pdf